137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:44]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góð svör og skilmerkileg. Tek heils hugar undir með honum um að það er sérstakt að vera að fara í þessa vegferð.

Hann nefndi að menn væru að skera niður í velferðarkerfinu og létu það bitna á öryrkjum og öldruðum þegar hægt væri að nota þessa peninga þar. Mig langar að fylgja því eftir og spyrja hann, af því að það hefur margoft komið fram, m.a. í ræðu hans, að menn tryðu því að við fengjum einhverjar undanþágur fyrir sjávarútveginn — sem ég held að sé að mati flestra þingmanna það ákvæði sem við getum aldrei sætt okkur við — hvort það hefði ekki verið hægt að fara einhverja einfaldari leið til þess að fá úr því skorið hvort það væri hugsanlegt og spara þá, eins og þú segir, allan peninginn í upphafi. Ég held að niðurstaðan verði sú að við fáum engar undanþágur fyrir sjávarútveginn.