137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[22:36]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Margt mjög undarlegt er að gerast þessi missirin á Íslandi. En málið sem við ræðum hér á miklum hraða á miðju sumri árið 2009 á sér nokkuð langan aðdraganda í umræðu flestra stjórnmálaflokka á Íslandi og hefur á margan hátt tekið afskaplega miklum breytingum í því hvað veldur því á hverjum tíma að menn vilja ræða hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu og hvaða sjónarmið skipta miklu máli þar.

Ég var að hugsa um það núna þegar ég velti þessari ræðu fyrir mér og öðrum þeim málum sem við erum að fjalla um á hinu háa Alþingi í sumar að þau eru nokkuð önnur álitamálin á þessu sumarþingi en þau voru á sumarþinginu árið 2007 þegar ég settist á þing. Þar voru vandamálin af nokkuð öðrum toga og ég held að flest okkar mundu segja að ekkert þeirra mála væru raunverulega bein vandamál. Þá var um það rætt á vettvangi borgarstjórnar og miklar deilur um það að ísskápar væru í vínbúðinni í Austurstræti, blöðin voru uppfull af þessu dag eftir dag. Menn voru að rífast um hús uppi á Laugavegi og kannski var full ástæða til þess. Tveimur árum síðar eru aðstæður á Íslandi með allt öðrum hætti. Nú berjumst við fyrir því að halda uppi lífskjörum í landinu, við berjumst fyrir því að draga sem mest úr skuldaáþján sem á þjóðina hefur verið lögð. Við erum kannski að byrja að átta okkur eftir þann hrunadans sem hér varð í haust, nokkuð sem við mörg erum mjög hugsi yfir og væntanlega á sagan eftir að greina frá því hvað þar fór fram, en það er ekki efni þessarar umræðu núna. Hins vegar er það þó þannig að þegar við gengum til kosninga í vor, mörg hver nokkuð hugsi yfir því að ákveðið var að kjósa mitt í storminum, héldu menn að aðalverkefni sumarþingsins yrði að koma fjölskyldum, fyrirtækjum og efnahag Íslands til hjálpar með nauðsynlegum aðgerðum til að styrkja efnahag þjóðarinnar.

Ekki grunaði okkur að það yrði hlutskipti okkar á miðju sumri langt og fram á nótt að ræða jafnmikið grundvallarmál og flókið mál á margan hátt eins og hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Milli þess sem við ræðum það mál erum við að tala um annað smámál eða hitt þó heldur, Icesave-samkomulagið. Það eina sem gerist í því máli er að það verður stöðugt óþægilegra, flóknara og veldur mönnum enn þá meiri áhyggjum dag frá degi, og ég býst við að mörgum þætti það bara fullgott verkefni á sumarþingi að reyna að finna flöt á því að leysa það mál. Sumum þætti bara ágætt að einbeita sér að því og láta ráðuneyti og Stjórnarráðið allt í heild sinni, Seðlabanka og aðrar stofnanir einbeita sér að því að kanna hvað það er sem þjóðin skuldar og hvernig hún ætlar að borga skuldir sínar. Mörgum þætti það alveg ágætlega samboðið verkefni Alþingi Íslendinga og því verkefni munum við aldrei komast frá. Það er alveg sama hvernig þessu Evrópusambandsmáli vegnar, hvort niðurstaða Alþingis verður sú að sækja um aðild að Evrópusambandinu, það mun ekki leysa þann vanda sem fram undan er og ég trúi því ekki að nokkur maður haldi það. Ég trúi því ekki að afstaða manna geti verið grundvölluð á því að aðild að Evrópusambandinu muni leysa úr þeim bráðavanda sem íslensk þjóð stendur frammi fyrir.

Ég held að margir sem hafa verið heitir talsmenn Evrópusambandsaðildar um jafnvel áratugaskeið hafi ekkert endilega verið á þeirri skoðun út af gjaldmiðlinum, alls ekki. Sumir hafa verið á þeirri skoðun af því að þeir hafa talið að Ísland ætti mikla samleið með Evrópuþjóðum. En þeir eru margir hverjir mjög hugsi þessa dagana og ekki endilega í svo ofboðslega miklu stuði til að eiga samstarf við þær ákveðnu Evrópuþjóðir sem núna hamast við að leggja stein í götu lítillar þjóðar norður í höfum. Það hefur verið afskaplega dapurlegt að fylgjast með því í vetur hvernig hægt er að beygja litla þjóð úti á miðju ballarhafi og hve langt menn ganga í því að ná fram rétti sínum eða þeim rétti sem þeir ímynda sér að þeir hafi haft gagnvart slíkri þjóð. Mér hefur ekki fundist það stórmannlegt, ég býst við að margir hér inni séu sammála mér um að það hafi ekki verið stórmannlegt. Kannski er það svo að fólk átti sig svo illa á því hversu fá við erum, hversu fámenn þjóð býr í þessu stóra og merkilega landi, sérstaklega í ljósi þess að hér hafa menn kannski verið komnir í allt of stóra skó og þóst vera meiri menn en þeir raunverulega eru og við þurfum að borga fyrir það. Og kannski vegna þess að mörgum vex dálítið í augum hversu miklar auðlindir við Íslendingar eigum bæði í okkur sjálfum og í því sem þetta hrjóstruga land hefur gefið okkur.

Það er ekkert launungarmál að ég er ein af þeim sjálfstæðismönnum sem hafa verið á þeirri skoðun að ekki eigi að loka skilyrðislaust á það að leita til Evrópusambandsins, þ.e. að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið. Ég hef talað fyrir því opinberlega og ég hef talað fyrir því í mínum flokki. Ég hef hins vegar ekki verið óskaplega heit í þeim málflutningi, mér finnst þetta ekki vera það sem skiptir mestu máli en mér finnst og hefur fundist þetta eitt af því sem ekki sé ástæða til að loka algjörlega og skilyrðislaust á og mér hefur alltaf fundist skipta afskaplega miklu máli hvernig það er gert. Ég vil ekki að íslensk þjóð fari eins og einhverjir ölmusumenn að tala við þær þjóðir sem nú hamast hvað mest í okkur. Ég vil ekki að við Íslendingar, sem alltaf höfum verið hnarreist þjóð, förum þannig til að tala við Evrópusambandið. Í fyrsta lagi vil ég það ekki.

Í öðru lagi vil ég líka að við, bæði innan þessara veggja og í samfélaginu öllu, tökum það töluvert alvarlega að fara í slíkar samningaviðræður. Mér finnst að við verðum að hafa komist að sæmilegu samkomulagi um að það sé það sem er þjóðinni fyrir bestu að kanna þá möguleika og mér finnst líka að þegar menn fara út í slíkar samningaviðræður eigi þeir að vera undir það búnir að fara inn í Evrópusambandið en ekki til bara til að tékka á þessu og svona haka við það vegna þess að það sé svo gott að haka við eitthvað á listanum hjá sér. Evrópusambandið er ekki eitthvað sem ég þarf að haka við á mínum lista bara til að koma því út úr heiminum. Ég held að þeir sem telja eðlilegt að fara í aðildarviðræður hljóti að vera undir það búnir að við förum inn í Evrópusambandið og þá hljóta þeir sem fyrir því tala að vera ánægðir með það sem Evrópusambandið er, bæði það sem það er núna og það sem það mun verða. Þegar það er klárt og menn horfa á hvað Evrópusambandið er geta menn ekki bara horft á það sem þeir vilja fá út úr því að vera í Evrópusambandinu heldur hljóta þeir að hafa einhverja sannfæringu fyrir því að Evrópusamruninn svokallaði eða það samfélag sem Evrópuþjóðirnar hafa sé eftirsóknarverður félagsskapur fyrir Íslendinga. Ég hugsa að þessa dagana, þessa mánuðina, þessi missirin sé í sjálfu sér hvað erfiðast að taka ákvörðun í slíku máli. Ég held að núna sé einmitt ástandið þannig í efnahag Evrópulanda að það sé mjög erfitt að gera sér grein fyrir hvort þetta sé rétti vettvangurinn eða ekki.

Ég hef í rökstuðningi mínum og í minni hugsun þegar litið er til Evrópusambandsins viljað horfa á þrennt: Í fyrsta lagi á auðlindir Íslendinga, hvernig með þær gæti farið í slíku samstarfi. Í öðru lagi á gjaldmiðilinn, hvort það sé skoðun okkar að ekki sé hægt að halda úti íslenskri krónu eða hvort nauðsynlegt sé fyrir okkur að fara í myntbandalag vegna þess að það sé einhver þróun í heiminum. Í þriðja lagi er það sem ég hef verið mjög hugsi yfir og hefur kannski vegið hvað þyngst á mínum vogarskálum og það er þetta sem ég vék aðeins að í upphafi, það er þetta samfélag og hvar við viljum skipa okkur meðal þjóða. Þegar ég hef velt þeirri röksemd fyrir mér var það mjög mikið á þeim forsendum og þeim breytingum sem urðu þegar varnarliðið hvarf frá Íslandi og þær breytingar urðu í utanríkispólitík okkar að við höfðum ekki jafnnáið samband við Ameríku og við höfðum áður haft. Og það að varnarsamningurinn og það allt saman breyttist, ég er þess fullviss að við höfum ekki áttað okkur á því fyrr en eftir á hve mikinn stuðning við í raun og veru höfðum pólitískt af Bandaríkjamönnum á svo mörgum sviðum.

Þegar við lítum til þess sem gerðist í haust og þegar við rifjum það upp hvernig á okkur var stigið, að mínu áliti, úti í hinum stóra heimi þegar menn brugðu fæti fyrir Íslendinga þegar þeir leituðu ásjár Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, er ég viss um að það að við höfðum ekki jafnmikið samband við Bandaríkjamenn hafi haft áhrif á það hvernig Bretum og Hollendingum tókst að kúga Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til hlýðni við sín sjónarmið. Með sama hætti var afskaplega dapurlegt að finna fyrir því, og þetta finnum við svo mikið núna þegar við erum að sökkva okkur ofan í Icesave-málið, að Bretum og Hollendingum finnst líka allt í lagi að beita Evrópusamstarfinu fyrir sig til að ná sínu fram. Það segir mér, og ég hef sagt það áður í þessum stól, að þessar þjóðir svífast einskis í viðskiptum sínum við aðrar þjóðir, þær hafa aldrei gert það, þær hafa aldrei nokkurn tíma gert það. Bretar kunna ekki að gefa eftir og Hollendingar er ekkert síðri nýlenduherrar en Bretar ef menn fara út í slíkan samanburð.

Ég held að við ættum að gera okkur grein fyrir því að á meðan Icesave-samkomulagið er allt upp í háaloft verður ekkert sérstaklega skemmtilegt að fara í samningaviðræður við Evrópusambandið. Mér finnst bara enginn bragur á því að þegar verið er að hamast í okkur, þessar þjóðir, og við erum að verjast hérna ótrúlegum kröfum alls staðar og fyrir framan okkur er samningur sem er óboðlegur fyrir Íslendinga, þegar við sjáum hvernig samninganefndir Breta og Hollendinga hafa hagað sér gagnvart Íslendingum, að á sama tíma og við stöndum í þessu stríði í þinginu séum við að ræða það hversu dásamlegt það er að ganga í Evrópusambandið. Það er verið að tala um það á sama tíma.

Það er ekki hægt að bjóða manni upp á þetta. Ég verð að segja alveg eins og er að fyrir manneskju sem hefur talað fyrir því í sínum flokki að það sé ástæða til að skoða þetta mál, þá finnst mér núverandi ríkisstjórn hafa gert allt til þess að gera það eins erfitt og hægt er að styðja við þessa framgöngu hér. Umboðið sem verið er að veita í þessari þingsályktunartillögu eins og ég les það hér í nefndaráliti og ég hef hlustað á umræðuna — margir eru þeirrar skoðunar að þetta sé mjög þröngt umboð sem ríkisstjórninni er veitt eða þeim bút af ríkisstjórn sem er að fara í aðildarviðræður, ég get ekki séð að þetta umboð sé neitt sérstaklega þröngt enda á það í sjálfu sér ekkert endilega að vera markmið þegar menn ætla að fara í samningaviðræður við ríkjasamband að menn gangi út frá því fyrir fram að þeir ætli ekki að fara í sambandið. Ég hef lesið þetta nefndarálit, ég get alveg fallist á að margt í þessu áliti er skárra en sú þingsályktunartillaga sem kom fram fyrst, ég hugsa að menn hafi reynt eitthvað til að laga það en það skín algjörlega í gegn að áhugi þeirra sem á málinu halda er mjög takmarkaður svo ekki sé meira sagt. Sumir vilja bara ekki taka þátt í þessu, aðrir reyna að keyra málið áfram og svo eru einhverjir aðrir í öðrum flokkum að koma að málinu vegna þess að þeir höfðu einhvern tíma sagt og hafa kannski einhverja sannfæringu fyrir því að þetta eigi að skoða.

Mér finnst þetta mál allt vera ótrúlega mikil vonbrigði. Ég verð að segja líka að þessi þjösnaskapur og djöfulgangur á sumarþingi — virðulegi forseti, ég biðst afsökunar á þessu orðbragði — mér finnst þetta ekki vera til þess að greiða fyrir því að málið fari í gegnum þingið. Mig langar til að vita hvort mönnum finnist það vera gott að sjálfstæð þjóð, hvaða þjóð sem er, ætli sér að fara í svona samningaviðræður með eins nauman meiri hluta á þingi og hægt er að hugsa sér, með ágreining innan ríkisstjórnar, með í raun og veru alls konar sjónarmið innan allra þingflokka á Alþingi, er nokkur bragur á því að fara svona í mál af þessum toga? Finnst mönnum það virkilega svo brýnt að gera þetta akkúrat núna að þeir vilji hætta á það að hleypa öllu í bál og brand á sama tíma og við erum að leysa úr þessu stórkostlega mikilvæga máli eins og ég talaði um áðan, Icesave-málinu, og svo ekki sé minnst á önnur brýn mál sem ég sé að verða ekki á dagskrá hér fyrr en einhvern tíma á næsta ári? Þetta er ekki til þess að hjálpa nokkrum manni til að taka afstöðu í þessu máli að halda svona á því.

Hvernig viðsemjendur erum við Íslendingar? Hvernig viðsemjendur er þjóð sem heldur svona á hlutunum? Ja, það er ekki að furða þótt Hollendingar og Bretar skemmti sér yfir því að fá okkur til að skrifa undir þau kostakjör sem þeir bjóða upp á í Icesave-samkomulaginu, vitandi það að á hinum endanum er þjóðin alveg æst í að komast í nánara samband við þetta fólk. Og vitandi það að því hefur verið haldið fram á Íslandi að þar muni svo margt breytast við inngöngu í Evrópusambandið hefur maður einhvern veginn á tilfinningunni að þeir geti alveg látið sér detta í hug að samningsstaðan sé nokkuð góð í þeirra þágu, að við munum kannski ekkert endilega hafa mjög mikið fyrir því að halda þeim litlu vörnum uppi sem við höfum þó reynt að halda uppi, Íslendingar, að undanförnu.

Mér hefur fundist vanta hér dálítið í pontu þetta fólk. Hvar eru allir þessir leiðtogar sem eiga að leiða þjóðina áfram? Hvar er það fólk sem ætlar að koma okkur áfram upp úr þessu? Hvar er sannfæringin fyrir því að þetta sé það sem við eigum að gera, virðulegi forseti? Hún er ekki á þessu blaði, hún er ekki í þeirri þingsályktunartillögu sem hér var lögð fram eftir þvílíkt humm og ha að annað eins hefur ekki heyrst. Ekki er hún í þessu nefndaráliti þar sem menn passa sig og hlaupa eins og kettir í kringum heitan graut og velja orð sín af mikilli gætni til að móðga nú ábyggilega engan. (Gripið fram í.) Hvar er fólkið sem ætlaði að vekja einhverja von í brjósti ungra Íslendinga og hverjir eru það sem ætla síðan að gera það í framtíðinni, þegar menn halda svona á hlutunum? Mér finnst bara alveg ófært hvernig þetta er gert, algjörlega fyrir neðan allar hellur.

Síðan er alltaf verið að tala um að það þurfi að ræða þetta við þjóðina, það sé alveg bráðnauðsynlegt að þjóðin komi að þessu máli. (Gripið fram í.) Við þurfum að ræða við þjóðina og það verði nú loksins gert að menn fari að tala við þjóðina vegna þess að ekki gerðu sjálfstæðismenn það, þeir töluðu aldrei við þjóðina. Nú er komið að þeim sem ætla að tala við þjóðina. Ég beið mjög áköf og spennt eftir því í hverju þetta samtal við þjóðina ætti að felast. Og hvað skyldi það nú vera? Ja, það á bara svona að tékka á því hvað þjóðinni finnst, við skulum tékka á því en síðan náttúrlega tökum við ákvörðun í þinginu. Þetta er allt og sumt, það á ekkert að spyrja þjóðina um þetta.

Þá vakna náttúrlega upp grunsemdir og það eru þessar grunsemdir sem eru alltaf að vakna sem ég hefði haldið að ríkisstjórnin vildi kannski losna við. Þær grunsemdir sem vakna núna í brjósti mér eru þær að þetta kannski snúist um það að það eigi ekkert að kjósa. Vilja menn fara í slíkar umræður? Vilja menn alltaf vera á flótta undan einhverju sem aðrir hafa áhyggjur af vegna þess að hlutirnir eru aldrei sagðir beint út? Af hverju er ekki hægt að fara í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta, hvað er að því? Ég held að ég hafi reyndar skrifað um það í hverri einustu grein sem ég hef skrifað um Evrópusambandið og þá skoðun mína sem kom fram einhvern tíma síðast í vetur, að ekki þyrfti að óttast það að leggja málið í dóm þjóðarinnar ef menn héldu haus í samningaviðræðum, það ætti að leggja þetta mál í dóm þjóðarinnar í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu og menn mundu síðan taka því eins og menn hvað þjóðin hefði um það segja. Þá verða menn líka að sætta sig við það að tapa, þeir sem eru hlynntir og þeir sem eru á móti, vegna þess að menn verða alltaf að hafa þor til þess og manndóm í sér að lúta niðurstöðu. Það er það sem leiðtogar eiga að gera, það er akkúrat það. Þeir eiga að koma fram með sín mál og leggja þau í dóm þjóðarinnar og vera menn til að taka því hvað hún segir en ekki þetta, ekki segja: Nei, við ætlum bara að tékka á þessu, athuga hvað þjóðin segir og síðan munum við væntanlega fara eftir þessu af því að við ætlum auðvitað að fara eftir því sem þessi ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla segir. En í því eru svo margir varnaglar og það er hægt að þvæla því máli fram og til baka að maður hefur enga sannfæringu fyrir því að menn séu í raun og veru að meina það sem þeir eru að segja.

Menn verða að átta sig á að á sama tíma og alltaf er verið að tala um að mál af þessum toga séu ekki á flokkslínu, og það má margt um það segja, og nú skuli menn kjósa eftir sannfæringu sinni og samvisku, og það má margt um það segja líka, þá er það líka svo þegar menn síðan kjósa um svona mál þegar taka á afstöðu til þess hvort land eins og Ísland eða hvaða land sem er vilji vera hluti af svona sambandi þá er langbest að það væri það eina sem fyrir þjóðina er lagt á þeim tíma en demba því ekki inn í aðra kosningabaráttu af annars konar toga. Vegna þess að þá eru að mínu áliti í raun og veru miklu meiri líkur til þess að svona mál yrði fellt, þegar það er komið inn í flokkspólitíska hagsmuni og inn í það þvælast alls konar verk þeirrar ríkisstjórnar sem er að víkja o.s.frv. Það má alveg leiða líkur að því að það sé jafnvel meiri áhætta fyrir þá sem hvað heitast vilja í Evrópusambandið ganga.

Þetta er einhvern veginn þannig að það vantar í þetta sannfæringarkraftinn og það vantar í þetta einhverja trú á að það sé gott fyrir Íslendinga að ganga í Evrópusambandið, að það muni hjálpa Íslendingum, að það muni skipta máli til lengri tíma fyrir Ísland, að það muni skipta máli fyrir Ísland að geta á einhverjum tímapunkti tekið upp aðra mynt, að það muni skipta máli fyrir Ísland að eiga trausta bandamenn í öðrum Evrópuþjóðum, að það skipti máli fyrir Ísland að hafa ekki einungis Norðurlandasamstarf til að reiða sig á heldur að ná betra sambandi við t.d. Stóra-Bretland og alla Suður-Evrópu.

Það er ekkert í þessari þingsályktunartillögu og nefndaráliti sem segir mér að þeir sem hana skrifa hafi mikla sannfæringu fyrir því að þetta sé það sem þeir vilja gera. Ég vil að þeir segi það, ég vil að þeir komi með það. Ég ætla ekki að fara að segja þeim út af hverju þeir eigi að fara í Evrópusambandið, þeir eiga sjálfir að gera það ef þeir vilja gera það á annað borð. Ef þetta er bara eitthvert verkefni sem þarf að klára, ef það þarf að ýta á einhvern takka eða setja X í kladdann, þá getur verið að þetta sé eitthvert plagg til að leysa úr því, en menn gera ekki Íslendingum neinn greiða með þessu. Ef þetta er eins og einhver sagði að það þurfi að losna við þetta Evrópumál út úr heiminum, og það hafa margir sagt, ég held meira að segja að ég hafi sagt einhvern tíma að það sé ofsalega þreytandi þegar menn komi alltaf með þessa töfralausn að ganga í Evrópusambandið, við verðum að leiða þetta mál til lykta á einhverjum tímapunkti, en þetta mál er akkúrat þannig að það er eins og ekkert annað standi til en að leiða þetta einhvern veginn í jörð, komast út úr þessu vandræðamáli. Samfylkingin er alltaf að tala um Evrópusambandið, segja vinstri grænir, við þurfum endilega að komast út úr þessu og síðan getum við snúið okkur að einhverju öðru. Þetta á bara ekki að vera svona. Svona eiga menn ekki að vinna, menn eiga að vera menn til að gera hlutina betur en þetta.

Ég veit ekki hvað gerist í haust þegar við höldum áfram að glíma við þann vanda sem hér er, Íslendingar, og ég veit ekki hvort það muni duga okkur til lengri tíma að búa við íslensku krónuna. Ég hugsa að enginn hér inni geti svarað því almennilega á þessari stundu en hins vegar held ég að við vitum það flest að íslenska krónan er ekki okkar mesti óvinur núna um þessar mundir og ég hef löngum verið þeirrar skoðunar að þeir sem hafa hvað mest talað krónuna niður hafir, margir hverjir, gert Íslandi hvað mestan óleik með því. Það er ekki hlutverk þeirra sem landinu stjórna að tala um það í öðru hverju orði að íslenska krónan sé ónýt. Ef menn vilja vera hluti af alþjóðlegu samfélagi verða þeir líka að átta sig á því að allt sem er sagt hér er þýtt á erlend tungumál, ekki bara sumt heldur allt. Og þegar þeir sem eru heitastir aðildarsinnar að Evrópusambandinu tala stöðugt um að íslenska krónan sé ónýt og það verði ekki við hana búið, þá eru þeir ekki að bæta samningsstöðu okkar við þessi lönd. Fyrir utan það, sem við viljum kannski ekki hugsa um neitt sérstaklega Íslendingar, þá er náttúrlega langt í það að við munum uppfylla nokkurt af þeim skilyrðum sem þarf til að taka upp evru, það er langt í það. Það er náttúrlega draumsýn ein að halda að Evrópusambandsþjóðirnar muni slá eitthvað af til að hjálpa þessari þjóð sem er búin að koma sér í þessi óskaplegu vandræði, sem eru fáheyrð, með dyggilegri hjálp Breta og Hollendinga. Því skyldu þeir fara að brjóta sínar reglur og fara að taka okkur inn í evrusamstarf? Til að grafa undan sínu eigin hagkerfi og sinni eigin mynt? Hvers konar barnaskapur er þetta eiginlega? Það er alveg ótrúlegt að lesa um þetta og heyra. Þetta kemur náttúrlega ekki til nokkurra mála. Við verðum alltaf, Íslendingar, að koma okkur sjálf upp úr okkar vandræðum, það gerir það enginn fyrir okkur. Jafnvel þótt við eigum fallega fossa og fagrar ár og höldum að hér komi hver ferðamaðurinn á fætur öðrum og skaffi gjaldeyri, það skiptir engu máli. Íslandi verður ekki bjargað vegna þess að við erum svo yndisleg, góð og falleg, við verðum að bjarga okkur sjálf. Þeir sem standa að þessari tillögu eru ekki að gera það sem ég hefði haldið að þyrfti að gera til að auka líkurnar til þess að Evrópusambandsmálin komist upp á eitthvert vitrænna plan. Ég get ekki séð að svo sé nema síður sé.

Ég ætla ekki að fara að fjargviðrast við einstaka þingmenn um hvað sagt hefur verið hér í dag og undanfarna daga. Ég verð samt að segja að ég hef þó séð ótrúlegan kjark í þingsölum sem ég dáist mjög að og það er kannski það sem ég kallaði eftir áðan þegar ég var að kalla eftir því að maður sæi framan í einhverja leiðtoga af hálfu ríkisstjórnarflokkanna, en ég hefur séð mikinn kjark og ég dáist að því og ég vil sjá svona kjark núna þegar við Íslendingar stöndum frammi fyrir þessum vanda. Kjarkurinn felst nefnilega í því að gera annað en endilega það sem fólk heldur að það eigi að gera, þ.e. að gera það sem maður trúir að sé best fyrir íslenska þjóð, ekkert endilega vegna þess að Fréttablaðið segir eitthvað eða fréttamenn á Stöð 2 segja eitthvað eða reyna að telja eitthvað út og segja: Hinn sagði þetta og hinn sagði hitt einhvern tíma fyrir mörgum árum. Það skiptir ekki nokkru máli. Núna verðum við að reyna að vanda okkur að gera það sem við getum best gert fyrir Íslendinga og það sem skiptir mestu máli er auðvitað að snúa sér að þeim brýnu verkefnum sem fram undan eru, leysa úr þeim erfiðustu deilumálum sem við höfum nokkurn tíma staðið frammi fyrir, langerfiðustu deilumálum sem við höfum staðið frammi fyrir. Ég vona svo sannarlega að við eigum ekki eftir að fá meira af slíku á næstunni þó að maður sé farinn að trúa öllu í því. Ef menn vilja síðan tala um Evrópusambandið þá geta þeir talað um það fyrir mér nótt og dag en ekki í sumar, ekki núna, ekki þegar við erum að horfa á tölur í skuldum Íslendinga sem eru svo óyfirstíganlegar við fyrstu sýn að maður trúir ekki hvernig við ættum að fara að því að borga þær og ég ætla rétt að vona að það sé enginn hér inni sem heldur að það muni eitthvað breytast í því efni við að ganga í Evrópusambandið. Ég ætla að vona að fólk haldi það ekki. Ég ætla að vona að fólk sem vill fara í Evrópusambandið hafi fyrir því einhver almennileg rök og ég get alveg talið upp þau rök sem ég sjálf hef gjarnan haft, ég hef ekkert hvikað frá þeim. En þau snúast ekki um það að allt breytist á einni nóttu, allar skuldirnar hverfi, það gera þær ekki. Og það mun heldur ekki breytast þó að það sé náttúrlega athugunarefni að við skuldum alltaf í annarri mynt en við öflum í. En jafnvel þótt við tækjum upp evru breytir það ekki öllu, við þurfum samt að afla tekna. Við verðum að borga þessar skuldir. Það er ekki hægt að færa skuldirnar yfir á bílskúrinn og halda að þá sé allt í himnalagi, sérstaklega þegar ekki er búið að byggja bílskúr eins og hér. Við munum ekki geta gert neitt af því sem við höldum að við ætlum að fara að gera ef við tökum okkur ekki saman í andlitinu og snúum okkur að því sem máli skiptir.

Við ræddum um daginn um skýrslu fjármálaráðherra um stöðu efnahagsmála, gríðarlega háar skuldbindingar sem þar voru kynntar. Auðvitað vorum við ekki að tala um Icesave-skuldbindingarnar í þeim tölum en við vorum samt að tala um 1.800 milljarða kr. og það væri hægt að reka Háskóla Íslands, þessa menntastofnun sem bráðum verður 100 ára gömul og fyrir mörg okkar er mikill sómi að og okkur þykir vænt um, í tæplega 170 ár fyrir þær upphæðir. Þegar menn tala um það í Icesave-samkomulaginu að það sé undarlegt að í samningnum standi að við berum vexti af þessari upphæð frá 1. janúar 2009 áður en að efndir samningsins eru að nokkru leyti orðnar, ekkert gert fyrr en einhvern tíma í júlí ef af verður, og þá bætast 23 milljarðar við skuldina. En það skiptir engu máli — það er hægt að reka Háskóla Íslands í tvö og hálft ár fyrir það — það er eins og tölur skipti ekki neinu máli hérna, ekki nokkru máli. Þúsundir milljarða.

Við höfum deilt mikið, mörg hver, um auðlindamál. Ég ætla ekki að fara að tala um þau hér en ég minnist þess úr mínu gamla starfi að mann sundlaði yfir því að Kárahnjúkavirkjun skyldi kosta 100 milljarða, mann sundlaði, að láta sér detta þetta í hug. Ég ætla ekki að hrella menn með því að segja hve margar Kárahnjúkavirkjanir hægt væri að byggja fyrir þær skuldir sem við erum að safna að okkur. En ég ætla að segja það líka, vegna þess að mér finnst það skipta máli fyrir mig, að mikið hefur mér þótt margt hafa farið úrskeiðis á undanförnum árum og ég ætla ekki að skorast undan ábyrgð míns flokks í því þegar hlutirnir hafa ekki gengið nógu vel. Ég fer fram á það sama við aðra flokka sem hlaupa gjarnan út úr herbergjum þegar erfiðra spurninga er spurt vegna þess að þeir erfiðleikar sem hafa dunið yfir á undanförnum árum eru ekki áratuga gamlir. Það er mjög stutt síðan þær ákvarðanir voru teknar og annar stjórnarflokkurinn hér var þá líka í ríkisstjórn. Mér finnst að allir eigi að vera menn til að horfa framan í sjálfa sig í þessum málum. Þegar þetta þunga Icesave-mál er yfir höfðinu á manni, mál sem ég get með engu móti skilið frá þessu Evrópusambandsmáli og hefur haft gríðarleg áhrif á það hvernig ég hef litið á Evrópusambandið undanfarna daga, þá finnst mér ekki hægt að skýla sér á bak við neitt í því. Hins vegar eru það við sem nú sitjum og það erum við sem nú ýtum á takkana sem ákveðum afdrif þessa máls, það er okkar að ákveða afdrifin. Við getum gagnrýnt margt sem gert hefur verið en það eru við sem munum taka á því endanlega ábyrgð.

Þegar fram undan eru stórar ákvarðanir er maður einn með sjálfum sér og hugsar málið. Ég sagði áðan að mér fyndist Icesave-málið hafa haft mjög mikil áhrif á það hvernig maður hefur litið á mjög margt annað undanfarna daga. Mér finnst ekki hægt að taka þessi mál algerlega í sundur, ég geri mér grein fyrir að þetta er ekki sama málið en hvernig haldið hefur verið á því máli hefur áhrif á það hvernig ég óttast að haldið geti verið á þessu máli. Þegar ágreiningurinn er þar að auki svona mikill á ríkisstjórnarbekkjunum og þegar manni finnst að annar flokkurinn sjái ekkert annað en þetta, þá er það auðvitað eitthvað sem veldur manni áhyggjum. Þá spyr maður sig að því: Af hverju liggur svona óskaplega mikið á? Hvað veldur því að það liggur svona óskaplega mikið á að ekki megi klára það mál fyrst, koma því frá? Er ekki nógu erfitt fyrir okkur að glíma við það? Er ekki nógu erfitt fyrir okkur að takast á við þann raunverulega vanda sem í því máli er, þær upphæðir sem þar er um að tefla, þau sjónarmið sem þar eru uppi um það hverjar skyldur okkar eru og hvernig við gætum hugsanlega uppfyllt þær? Vegna þess að ekkert okkar vill að við stöndum ekki við okkar skuldbindingar. Ég hugsa að við öll hér inni og allir Íslendingar séu uppteknir við akkúrat það mál, að hugsa um það. Hvað finnst þér um Icesave-málið, Ólöf? segir næstum hver einasti maður sem maður hittir. Hvernig ætlum við að borga skuldirnar okkar? Getum við búið hérna áfram? Þið verðið að segja okkur frá því hvernig þið ætlið að fara að þessu. Við verðum að trúa því sem þið segið. Það er mjög langt síðan ég hef heyrt einhvern segja: Hvernig er með Evrópusambandið, eruð þið að hugsa um að leggja inn umsókn? Það spyr enginn um þetta núna vegna þess að þetta er ekki það sem hvílir mest á okkur þessa dagana. Við viljum fyrst klára þessi erfiðu deilumál. Það er ekki þar með sagt að verið sé að segja að það verði aldrei af öðru en nú er ekki tíminn. Hvað er svona óskaplega knýjandi? Það er ekki hægt að fá nein svör við því. Ég hef engan hitt sem hefur getað sagt mér það, engan. Það er verið að tala um eitthvert ástand í Svíþjóð, að nú sé sænska forsætið komið og það muni taka þetta mál föstum tökum. Þetta eru náttúrlega engin rök, þetta eru ekki raunveruleg rök í málinu. Þetta er svona praktískt atriði, þægilegra fyrir okkur að gera þetta og hitt, en þetta eru ekki raunveruleg rök.

Gagnvart þeim okkar sem höfum verið hlynnt því að skoða þennan kost, þá finnst mér alveg óskiljanlegt að verið sé að keyra þetta svona hart áfram, algerlega óskiljanlegt, ekki nema það sé til þess að gera mann alveg brjálaðan. Það getur vel verið að þetta snúist bara um það að hleypa öllu í bál og brand. En það hefur þá tekist alveg prýðilega vel, það er allt komið í háaloft í þinginu út af öllum heimsins málum. Það er alveg sama hvaða mál það er, það er allt einhvern veginn komið í háaloft og enginn treystir neinum og allir gruna hina um græsku og maður getur ekki einu sinni lesið nefndarálit án þess að gera sér upp einhverjar skoðanir um að það sé eitthvað skrýtið að þetta skuli vera orðað svona vegna þess að það er enginn trúnaður í nefndarálitum um neitt.

Og kostnaðurinn, nú eru menn farnir að tala um kostnaðinn. Auðvitað þurfa menn að tala um kostnaðinn og hvað hlutirnir kosta. Og er það ekki bara akkúrat þá sem menn fara líka að gruna hina um græsku? Þetta er svona ódýrt vegna þess að það eiga ekki vera neinar samningaviðræður, þess vegna er þetta svona ódýrt, vegna þess að við erum að fara beint inn í Evrópusambandið. Það er alveg sama hvað er, það er allt tortryggilegt. Svo kemur fram hjá hæstv. fjármálaráðherra að hann telji að ef samningaviðræðurnar gangi illa þá sé hægt að hætta við. Á þá ekki að spyrja þjóðina? Það er líka skrýtið, það finnst manni líka tortryggilegt því það er bara hægt að stoppa og það á bara ekkert að tala við þjóðina. Nú þá er ekki verið að leiða málið í jörð, þá er það ekki lengur sjónarmið, þá er þetta ekki lengur eitthvað sem hægt er að merkja við í kladdanum. Þetta rekst hvað á annars horn, það er ómögulegt að skilja hvað fólk er að fara.

Ég er afskaplega undrandi á því að ríkisstjórnin skyldi ekki hafa gripið tækifærið snemma sumars þegar hluti stjórnarandstöðunnar lagði fram þingsályktunartillögu um það hvernig halda ætti á þessu máli. Ég held nefnilega að ef ríkisstjórnin hefði verið afskaplega klók þá hefði hún gert það. Þá væri þetta væntanlega ekkert mál, flokkurinn hefði staðið saman að þessu. En vegna þess að það er alltaf verið að hræra í hlutunum og gera það einhvern veginn þannig að það er ekki hægt að fallast á það þá finnst manni einhvern veginn að þetta eigi að verða svona einhver hjólbarðapólitík, svo ég noti það ljóta orð, og mér finnst ekki þetta mál þess eðlis að það eigi að vera þannig. Mér finnst nefnilega stórmál að ákveða það að sækja um aðild að Evrópusambandinu og ég vil líka að menn umgangist það mál af tilhlýðilegri virðingu. Ég get hins vegar alveg hrósað hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir ítarlegt og gott nefndarálit fyrir sinn hatt eins og ég segi. En mér finnst ekki hægt að keyra svona mál áfram. Ég hefði haldið að þetta væri mál sem þyrfti að ígrunda vel og athuga hvort hægt væri að ná samkomulagi um það. Að íslensk þjóð geti orðið sammála um að það sé gott fyrir hana að skoða það að fara í aðildarviðræður að Evrópusambandinu, að kanna hvort það sé eitt af því sem þurfi að skoða rólega, taka þann tíma sem í það þarf en ekki keppast við að gera það fyrir einhverja dagsetningu í júlí vegna þess að þá er fundur hjá einhverju forsæti. Þetta er náttúrlega alveg galið, þetta er ekki til að hjálpa manni í þessu máli. Það er mjög dapurlegt.