137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

upplýsingar varðandi ESB-aðild.

[10:15]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Skýrslunni sem Hagfræðistofnun háskólans vann fyrir utanríkisráðuneytið, um áhrif ESB-aðildar á landbúnaðinn með finnsku leiðina í farteskinu, var skilað frá Hagfræðistofnun í lok apríl. Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir Bændasamtakanna og það hefur komið hér fram af hálfu þingmanna líka hefur þessi skýrsla ekki fengist afhent. Þetta er endurtekning á þeim vinnubrögðum sem við höfum orðið vör við og upplifað í þinginu af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, forkastanleg vinnubrögð þar sem þingið er nánast lítilsvirt með því að upplýsingum er haldið vísvitandi frá þinginu í þeim mikilvægu málaflokkum sem eru til umfjöllunar þar.

Hvað annað er falið, virðulegi forseti, hvað annað er einhvers staðar í stofnanakerfinu sem þingið má ekki sjá áður en ákvarðanir eru teknar? Við hljótum að velta því fyrir okkur. Það samkomulag sem var gert um það að ljúka þessu máli í dag var gert á fölskum forsendum og það samkomulag hlýtur að vera fallið um sjálft sig. Þegar einn mikilvægasti málaflokkurinn, eins og kemur fram í áliti utanríkismálanefndar er landbúnaður einn mikilvægasti málaflokkurinn, kemur inn í þingið er grundvallarupplýsingum haldið frá þinginu. Samkomulagið hlýtur að vera fallið um sjálft sig og við afgreiðum ekki ESB-umræðuna í dag, það hlýtur að vera krafa okkar. Það hlýtur að þurfa að funda um þetta, leiða þessar upplýsingar í ljós áður en við tökum ákvörðun. Og þingmenn, hvar í flokki sem þeir standa, hljóta að ætla að standa vörð um lýðræðið og í það minnsta að taka ekki ákvörðun í dag öðruvísi en það verði málefnaleg umræða í samfélaginu um ESB-aðild og það getum við þó fengið með því að styðja tvöfalda atkvæðagreiðslu. (Forseti hringir.) Þessari ríkisstjórn er ekki treystandi og við hljótum því að fara þá leið.