137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

upplýsingar varðandi ESB-aðild.

[10:20]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir að vekja athygli á þessu máli. Við höfum á sumarþinginu rætt mikið um lýðræði, gagnsæi og ný vinnubrögð. 27 nýir þingmenn sem tóku sæti hér í vor voru þess fullvissir að við værum að fara að taka þátt í lýðræðislegum vinnubrögðum en það er ekki svo. Mikill asi einkennir vinnubrögðin og skipulagsleysi, það þarf að toga öll gögn út með töngum og maður les um þau og tilvist þeirra í blöðunum. Það er ekki til fyrirmyndar. Allt þetta tal ríkisstjórnarflokkanna um ný vinnubrögð, um lýðræði, gagnsæi ákvarðana er einfaldlega í orði en ekki á borði. Ég hvet hv. 1. þm. Suðurk., Björgvin G. Sigurðsson, til að taka þátt í þessari umræðu, (Gripið fram í.) þar sem hann er þingmaður eins stærsta landbúnaðarhéraðs landsins, og skýra sína afstöðu sem birtist í Pressunni í gær vegna þess að ég hef þá trú að þær miklu undanþágur varðandi landbúnaðinn sem þeir tala svo fjálglega um, fylgismenn þess að sækja um aðild að ESB, séu einfaldlega ekki í boði. Ég fellst aldrei á það að einhverjar tímabundnar undanþágur verði það sem fólk komi til með að horfa á sem lausn á þessum málum fyrir landbúnaðinn. Það er ekki það sem við getum gert fyrir komandi kynslóðir og það er einfaldlega ekki í boði.

En varðandi umræðuna um það hver vissi um skýrsluna og hver ekki, það er augljóst að hv. þm. Atli Gíslason vissi ekki um skýrsluna en hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar gegndi formennsku í nefndinni í forföllum hv. þm. Atla Gíslasonar og ég spyr því hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur hvort hún hafi vitað af tilvist skýrslunnar og hvort það sé einhver misskilningur í málinu að hún hafi stýrt nefndinni þegar umræða um þessa skýrslu fór fram og tilvist hennar varð ljós. Ég óska eftir að hún komi upp og upplýsi það.

Að öðru leyti vil ég segja það að þessi vinnubrögð eru einfaldlega hluti af þeirri hugmyndafræði sem ríkisstjórnarflokkarnir nota, (Forseti hringir.) hugmyndafræði nýkommúnismans á Íslandi.