137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

upplýsingar varðandi ESB-aðild.

[10:29]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Hæstv. forseti. Auðvitað á það að vera þannig í umræðu á Alþingi að við eigum að fá allar skýrslur sem eru tilbúnar upp á borðið. Auðvitað tala allir fyrir því, þó það nú væri. Ég hafði ekki hugmynd um þessa skýrslu en menn geta ekki bundið umræðuna um Evrópusambandið við þessa skýrslu sem eitthvert síðasta hálmstrá í umræðunni. Við getum heldur ekki talað um Evrópusambandið eins og við séum þegar búin að semja við Evrópusambandið. Mér sýnist og heyrist á umræðunni hér að margir séu þegar búnir að semja við Evrópusambandið. (Gripið fram í: Ertu að fela leyndarskýrslu?) Það eru einhverjir hér inni sem eru þegar búnir að semja við Evrópusambandið vegna þess að þeir eru augljóslega búnir að sjá samninginn, þeir eru búnir að meta hann og þeir eru búnir að fá niðurstöðu í eigin kolli um að þetta sé ömurlegur samningur. (Gripið fram í.) Það er ekki búið að semja. Við fáum fyrst alvöruumræðu um þennan samning ef við sjáum samninginn. (Gripið fram í.) Hann skal vera með þeim skilyrðum og ákvæðum í samningnum að hann sé þóknanlegur helstu og bestu atvinnugreinum Íslendinga. En við fáum það ekki upp á borðið nema með umræðu um sjálfan samninginn. Við getum ekki hagað okkur þannig að við stöndum fyrir framan matsölustað og þorum ekki inn og þorum ekki opna matseðilinn af ótta við það sem þar er.