137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[10:44]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með umræðu um þá þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir og nefndarálit meiri hluta utanríkismálanefndar undanfarna daga. Í þeirri umræðu hefur maður greint mjög heitar tilfinningar annars vegar og hins vegar mjög tæknilega umræðu sem hefur kannski fyrst og fremst miðað að því að gera þingsályktunartillöguna og málið allt sem tortryggilegast. Hér hafa fallið þung orð og mikil svigurmæli um ætlan manna að selja landið, þjóna Evrópusambandinu en ekki þjóðinni o.s.frv. Slíkur málflutningur er afar óábyrgur og kannski síst það sem þjóðin þarf á að halda í þrengingum sínum þessar vikur og mánuði. Hræðsluáróður og brigsl um landráð og svik o.fl. er ekki málflutningurinn sem við þurfum á að halda þegar við stöndum frammi fyrir mikilsverðum og afdrifaríkum málum eins og því sem hér er til umræðu.

Í þessari umræðu hefur líka augljóslega sjálf aðildin að Evrópusambandinu legið undir og eins og kom hér fram réttilega í máli hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar fyrr í dag mætti halda að menn væru nú þegar búnir að semja um aðildina og væru farnir að vega og meta það sem í samningnum fælist. Það er vitanlega ekki svo. Það sem við erum að taka afstöðu til hér á þessari stundu er hvort við eigum að fara í viðræður við Evrópusambandið, hvort við eigum að kanna hvað í aðildarsamningi mundi felast, þ.e. með sjálfum aðildarviðræðunum má segja að við séum komin í könnunarviðræður og það er auðvitað fyrst þá sem við getum áttað okkur á því hvað í sjálfri aðildinni fælist.

Menn hafa notað hér hugtök eins og lýðræði og sjálfstæði og mönnum hefur orðið tíðrætt um sjálfstæði landsins, jafnvel teygt sig svo langt að ræða um Jón Sigurðsson, forseta, sem svo var nefndur. Ég vil leyfa mér að halda því fram af því að Jón Sigurðsson var heimsborgari — hann eyddi lunganum úr ævinni í Kaupmannahöfn og var á vissan hátt sendiherra lands og þjóðar þó að það hafi ekki verið í formlegum skilningi — að ef Jón Sigurðsson væri uppi í dag væri að hann búinn að koma okkur inn í Evrópusambandið og kannski sjálfur sestur inn á Evrópuþingið. Það hefði a.m.k. verið í hans anda, þess heimsborgara og heimsmanns sem hann var.

Sjálfstæði landsins hefur mikið verið hér til umræðu. Úr þekktu skáldverki eftir Halldór Laxness sem nefnist Sjálfstætt fólk er líka talað um sjálfstæði manns, Bjarts í Sumarhúsum. Hann lifði sínu sjálfstæði og háði sína sjálfstæðisbaráttu á þann hátt að hann lifði einangraður fjarri mannlegu samfélagi, má segja. Hann bast ekki samstarfi við nokkurn mann, hann nytjaði ekki þá möguleika sem fólust í landsgæðunum umhverfis hann, lifði þar af leiðandi og dó einangraður maður og það visnaði allt sem í kringum hann var. Ég óska ekki íslenskri þjóð þess hlutskiptis sem kallast sjálfstæði Bjarts í Sumarhúsum. Við getum auðvitað ekki, eins og ég hef áður sagt, skellt hurðum á veröldina. Sjálfstæði okkar felst ekki í því að vera ekki partur af alþjóðlegu samfélagi. Sem betur fer höfum við borið gæfu til þess í gegnum tíðina að bindast samtökum við aðrar þjóðir í ýmsum skilningi og það hefur hingað til reynst okkur vel.

Frú forseti. Í þingræðu sem ég flutti hér við 1. umræðu þessa máls gerði ég að umtalsefni hugtakið „lýðræði“. Algengasta lýðræðisform vestrænna samfélaga er fulltrúalýðræðið sem birtist m.a. í þingræðinu þar sem kjörnir fulltrúar hafa það hlutverk að gæta hagsmuna almennings og endurspegla vilja kjósenda. Það er vandasamt hlutverk, það kallar á djúpa virðingu fyrir megingildum lýðræðis og mannréttinda. Nú liggja hér fyrir þinginu tvær tillögur, annars vegar tillaga hæstv. utanríkisráðherra um aðildarumsókn að ESB ásamt meirihlutaáliti utanríkismálanefndar, hins vegar tillaga nokkurra hv. þingmanna um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu um sama mál. Tillagan um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu er borin fram í nafni lýðræðis en er þó hvorki í anda beins lýðræðis né þingræðis þó að lýðræðið sé yfirvarp hennar. Tillaga sem felur ekki annað í sér en að vísa til þjóðarinnar spurningu um ekkert. Slík tillaga á ekkert skylt við lýðræði, hún er sýndarstjórnmál.

Frú forseti. Það er hlutverk þingmanna að vera fulltrúar almennings á þjóðþinginu og láta þar til sín taka í þeim málum sem varða almannaheill og samfélagslega hagsmuni. Það er hlutverk stjórnmálamanna að vera fulltrúar fólksins og tryggja framgang lýðræðisins með því að taka þær ákvarðanir sem þeir eru kosnir til og það hlutverk rækja stjórnmálamenn best með því að koma málum í lýðræðislegan farveg, ekki með því að skorast undan og vísa frá sér heldur með því að þora að taka afstöðu og ákvarðanir. Maður skyldi nú halda að íslensk þjóð væri búin að fá nóg af ákvarðanafælni íslenskra stjórnmálamanna þó að ekki væri á það bætandi í þessu veigamikla máli. Undan þessu hlutverki eiga stjórnmálamenn og hv. þingmenn ekki að skorast.

Ég styð því þingsályktunartillögu hæstv. utanríkisráðherra og lýsi mig sammála meirihlutaáliti utanríkismálanefndar sem er vel unnið og vel rökstutt og felur í sér að hv. þingmenn, kjörnir fulltrúar fólksins, setji af stað lýðræðislega málsmeðferð í einu veigamesta hagsmunamáli þjóðarinnar á síðari tímum. Þingsályktunartillagan sem hér er til umræðu felur í sér að Alþingi sjálft beiti þingræðinu til að þjóðin geti átt síðasta orðið um lyktir þessa mikilvæga máls, þ.e. í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er eins og ég hef áður sagt sögulegt tækifæri fyrir Alþingi Íslendinga til að sýna í verki ómetanlegt fordæmi um framkvæmd sjálfs lýðræðisins þar sem þingmenn ólíkra stjórnmálaflokka koma sér saman um meðferð í máli sem þeir eru þó ósammála um í grundvallaratriðum, en þeir eru sammála um málsmeðferðina vegna þess að þeir virða lýðræðið og hafa ákveðið að treysta þjóðinni og hlusta eftir vilja hennar.

Frú forseti. Ég er ekki fylgjandi sýndarstjórnmálum, þess vegna styð ég ekki tillögu um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún er að mínu viti flótti frá því verkefni sem við stöndum frammi fyrir, þ.e. að þjóðin hafi eitthvert raunverulegt val, að hún geti byggt afstöðu sína á einhverju öðru en fordómum, fyrirframályktunum, lýðskrumi eða áróðri. Samfylkingin virðist vera eini stjórnmálaflokkurinn í landinu um þessar mundir sem hefur framtíðarsýn í þessu efni. Hún virðist vera eini stjórnmálaflokkurinn sem hefur þor til að leiða íslenska þjóð inn í framtíðina og skapa okkur skilyrði til þess að vera þjóð meðal þjóða. Við Íslendingar eigum að vera óhrædd við að ganga inn á vettvang þjóðanna sem sjálfstæð og fullvalda þjóð, þangað sem við eigum að geta sótt okkur tilstyrk og fyrirmyndir og verið hluti af alþjóðasamfélaginu.

Ég trúi því staðfastlega að aðild Íslendinga að Evrópusambandinu yrði heillaspor fyrir þjóðina eins og ég lýsti í þingræðu við 1. umr. Það er engum vafa undirorpið að við Íslendingar verðum, í þeim sporum sem við erum núna, að stíga markviss skef í átt til stöðugra efnahagslífs og bættra lífskjara á Íslandi. Innganga í Evrópusambandið tel ég að væri liður í því og evru-umræðan í þessu samhengi tel ég að hafi verið mjög einfölduð, m.a. af andstæðingum sambandsaðildar. Evran er að sjálfsögðu ekki eitthvað sem bíður handan við hornið í ár eða á næsta ári, það er ferlið að því að taka upp evruna sem gæti falið í sér marktækar efnahagsumbætur á Íslandi eins og við vitum.

Þar af leiðandi er það mín von að ef við göngum í Evrópusambandið sé það liður í því að bæta lífskjör í landinu, styrkja stjórnsýslu okkar — ekki veitir af, bæta viðskiptaumhverfið — ekki veitir af, efla hér byggðaþróun — ekki veitir af, efla sjálfbærari og vistvænni framleiðsluhætti, skapa hér fjölbreyttari menntunarkosti og atvinnumöguleika fyrir ungt fólk. Á öllu þessu þurfum við sárlega að halda.

Þetta er sú framtíðarsýn sem við jafnaðarmenn höfum fram að færa og þetta er sú von sem íslensk þjóð sem heild ber að sjálfsögðu í brjósti. Hvort sú von er falsvon eða framtíðarsýnin tálsýn, verður aðeins leitt í ljós með aðildarumsókninni sem hér er til umræðu og síðan þeim samningsdrögum sem af henni leiðir. Sú vinna er öll eftir og afrakstur hennar er í raun eina haldbæra vísbendingin sem við getum fengið um þá möguleika sem innganga í Evrópusambandið getur falið í sér fyrir okkur sem þjóð.

Vitanlega verða samningsmarkmið viðræðnanna að vera skýr og afdráttarlaus. Það er mikil einföldun og rangfærsla sem fram hefur komið hér ítrekað í þessum þingsal að Samfylkingin ætli bara að ganga inn í Evrópusambandið skilyrðislaust. Að sjálfsögðu er það ekki þannig. Við getum ekki fallið frá forræði yfir fiskimiðum okkar eða öðrum auðlindum, svo dæmi sé tekið. Við verðum að hafa tryggingu fyrir því að atvinnuvegir okkar fái þrifist. Það er fyrst þegar við sjáum hvernig búið verður að þessum þáttum, hvort sem við erum að tala um sjávarútveg, landbúnað eða forræði yfir auðlindum, sem hægt er að taka afstöðu til þess í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort við viljum yfirleitt ganga inn í Evrópusambandið eða ekki. Þetta, frú forseti, er verkefnið sem bíður okkar og við megum ekki skorast undan því eins og ráðalausar bleyður að sinna þessu verkefni og vinna það með sóma. Hið háa Alþingi getur ekki verið þekkt fyrir að ýta þessu verkefni frá sér með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í tillögu um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu sem verður til umræðu hér á eftir því að sú tillaga er eins og nýju fötin keisarans, hún er ekki um neitt.