137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:01]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur fyrir að halda þessa ræðu. Ég hef kallað eftir því að það fólk sem situr á þingi og hefur virkilegan áhuga á því að ganga í Evrópusambandið láti í sér heyra. Það hefur lítið farið fyrir því. Þeir þingmenn úr stjórnarliðinu sem hafa treyst sér til að tala hafa yfirleitt talað um hvaða undanþágur við getum fengið og hvað sé nauðsynlegt til að halda stjórnarsamstarfinu áfram. Þetta var vissulega ánægjuleg ræða, takk fyrir það. Ég ber virðingu fyrir því að fólk geti staðið á sinni sannfæringu og haldið henni fram í ræðustól.

En ég hjó eftir því að hv. þingmaður talaði um evruna. Hv. þingmaður áttar sig á því að evran kemur ekki á morgun og það er vel, vegna þess að það átta sig ekki allir á því sem tala fyrir aðild. Ég vil þess vegna spyrja hv. þingmann hvenær hún áætlar að við verðum í þeirri stöðu að við uppfyllum Maastricht-skilyrðin og hvenær hún sjái fyrir sér að við getum tekið upp evru með aðild að ESB.