137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:15]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Frú forseti. Við ræðum mjög mikilvægt mál, sennilega eitt mikilvægasta mál sem við komum til með að ræða á þingi um langa tíð. Við erum að ræða aðildarumsókn að Evrópusambandinu og það hefur margoft komið fram að það er mjög umdeilt hjá mörgum flokkum. Það eru deilur innan flokka um þetta mál og skiptar skoðanir milli einstaklinga í flokkum og svo er ekki síst í mínum flokki, Sjálfstæðisflokknum. Það eru skiptar skoðanir hjá mönnum um hvort sækja eigi um aðild að Evrópusambandinu eða ekki.

Það eru líka skiptar skoðanir um það innan Framsóknarflokksins. Þó verð ég að segja, frú forseti, að kannski er minnstur ágreiningur í þingflokkum Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Þingflokkur Samfylkingarinnar trúir á þetta sem hina einu sönnu leið og þá einu vegferð sem er fær fyrir íslenskt samfélag. Hann færir fyrir því margvísleg rök, sum þeirra góð og önnur slæm. En ég er hins vegar algerlega ósammála þeim í því að æskilegt sé fyrir okkur að ganga í Evrópusambandið. Ég hins vegar virði skoðanir annarra. En það er kannski ekki hægt að segja það um alla. Hjá Vinstri grænum ber svo við að þar er þingflokkurinn nánast allur á móti aðildarumsókn að Evrópusambandinu vegna þess að þegar við sækjum um aðild að Evrópusambandinu þá er ekki eins og það sé bara einhver könnunarleiðangur til að draga upp úr hatti. Fyrir liggur 95% af því sem við getum vænst að fá út úr samningaviðræðunum. Það liggur fyrir í dag óumdeilt. Við erum að fara að afsala okkur fullveldi þjóðarinnar. Það er það sem stendur í mönnum sem er ekki nema von. Það er ekki nema von. Því langar mig, frú forseti, að rifja upp hvernig þetta mál kom inn á dagskrá þingsins.

Það er nefnilega svo að þegar mynduð er ríkisstjórn þá búa menn sér til svokallaðan stjórnarsáttmála og þar kemur fram hver séu verkefni ríkisstjórnarinnar og hver séu stefnumál ríkisstjórnar á komandi kjörtímabili. Það hefur hins vegar komið fram í umræðum á Alþingi að hið stærsta skref sem mestur tíminn fór í og nánast allur í stjórnarmyndunarviðræðunum var þetta mál sem við fjöllum um í dag, þ.e. aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Það stóð mjög mikið í Vinstri grænum að samþykkja það. Niðurstaðan varð hins vegar sú að málið fengi að koma inn í Alþingi — Vinstri grænir samþykktu það — og fengi þar, eins og var margsinnis sagt þegar verið var að kynna þennan stjórnarsáttmála, þinglega og lýðræðislega meðferð. Það var forsendan fyrir því að málið kom hér á dagskrá, þingleg og málefnaleg meðferð.

Ég verð að segja, frú forseti, að það hefur komið margoft hér upp í umræðum að svo er ekki vegna þess að þegar Samfylkingin fór að skjálfa í hnjánum og halda það jafnvel að ekki yrði samþykkt að fara í þessar aðildarviðræður þá byrjaði nefnilega Samfylkingin að beita Vinstri græna kúgunum. (VigH: Rétt.) (SER: Rangt.) Það kom fram hér síðastliðinn föstudag þegar við hófum þessa umræðu að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason upplýsti það hér að hann hefði ætlað að taka þátt í því að hafa tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu um þessa tillögu en þá hafi honum verið látið berast það til eyrna af smáfugli með appelsínugular doppur, eins og hann sagði í gær, að ef hann léti ekki af sinni braut að þá yrðu stjórnarslit. (SER: Þetta voru innanflokksdeilur.) (Gripið fram í: Hann sagði það ekki sjálfur.) Innanflokksdeilur, kallar hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson fram í og það er staðfest, segir hann. Ég get ekki deilt um það. En ég skildi orð hans þannig að það hefði verið af annarra völdum. (EKG: Þetta eru athyglisverðar upplýsingar.) Já, þetta eru athyglisverðar upplýsingar. Ég tek undir það með hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni að þetta eru athyglisverðar upplýsingar sem hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson kemur hér með fram og segir að það sé staðfest að það hafi verið innan úr hans eigin röðum.

Frú forseti. Mig langar líka að rifja upp ummæli hæstv. forsætisráðherra, leiðtogans okkar, verkstjórans. Hún sagði í ræðustól á Alþingi í þessari viku: „Ég ætla að vona það að atkvæðagreiðslan fari þannig að ríkisstjórnin geti starfað áfram.“ Hvernig á að skilja þessi orð, frú forseti? Ég skil þau ekki nema á einn veg. Þetta er bein hótun. Ég skil þau þannig og lái mér hver sem vill.

Síðan langar mig að fjalla aðeins um við hvaða kringumstæður við séum að leggja í þessa vegferð? (VigH: Á hnjánum.) Við erum að fara á hnjánum, kallar hv. þm. Vigdís Hauksdóttir. Það er hárrétt. Við erum á hnjánum. En það sem verra er … (SER: Af augljósum ástæðum.) Það sem verra er er að Evrópusambandið og þau ríki sem við höfum átt í samningaviðræðum við út af svokölluðum Icesave-skuldum eru að beygja okkur enn frekar niður á hnén. Þau beita okkur kúgunum. Ég spyr, frú forseti: Er eðlilegur flötur á því að semja við einhvern um að þú viljir ganga í bandalag við hann þegar hann er að kúga þig? Ég segi: Nei. Það getur ekki verið eðlilegt. Hefði nú ekki átt að klára svokallaða Icesave-samninga áður en menn lögðu af stað í þessa vegferð? Hefði það ekki verið nær? Jú, ég teldi það vera nær að lenda því máli áður. Það hefði ég talið mjög skynsamlegt. Nei, svo er ekki. Það er vegna þess að Samfylkingunni liggur svo á að komast út með umsóknina og það kom hér fram í máli hv. þm. Þuríðar Backman, sem flutti mjög góða ræðu seint í gærkvöldi, að henni fyndist liggja þráður á milli þessara mála og ég upplifi það bara nákvæmlega eins. Samþykkt þessara óboðlegu Icesave-samninga er í raun og veru aðgöngumiði Samfylkingarinnar í Evrópusambandið. (VigH: Heyr, heyr!) (Gripið fram í: Þetta er rangt.) Ég get ekki skilið þetta öðruvísi. (Gripið fram í: Icesave …) Þetta er alveg hreint með ólíkindum, frú forseti. (Gripið fram í.) Ekki ætla ég að ræða frekar þær kúganir sem eru þar en þær eru alveg hreint með eindæmum. Það er verið að knésetja þjóðina og hneppa hana í fátæktargildru í áratugi. (Gripið fram í: Ykkar verk.)

Síðan eru hin rökin þau … (Gripið fram í.) Ég verð, frú forseti, að ræða við hv. þm. Sigmund Erni Rúnarsson frammi á göngunum á eftir, enda semur okkur ágætlega. Síðan kemur hitt haldreipið. Það er að mjög mikilvægt sé að leggja inn umsóknina meðan Svíar eru í forsvari. Það er mjög mikilvægt. Það er mjög mikilvæg tímasetning, gríðarlega mikilvæg tímasetning. Eins og kom fram hér í ræðu hv. þm. Þuríðar Backman í gær þá voru Svíarnir kannski einna óbilgjarnastir við okkur af Norðurlöndunum. Þeir voru hálfpartinn að taka þátt í því að kúga okkur með Evrópusambandinu og Bretum og Hollendingum. Þetta er nú allur vinskapurinn sem fólk sækist eftir. Hvaða rök eru svo það að það þurfi með umsókn inn í eitthvert ríkjabandalag á meðan eitthvert ákveðið ríki er þar í forsvari? Er það þannig að það muni bara öllu um það hver sé í forsvari og segir það okkur þá ekki allt um það hvað við erum að fara í? Við erum að fara í miðstýrt vald og munum vera á hjara veraldar ef þetta verður samþykkt og hafa nánast engin áhrif. Það er nákvæmlega verið að segja það. Það er það sem er verið að segja.

Svo velti ég eftirfarandi spurningu upp, frú forseti: Hvað ef Svíar væru nú ekkert í forsvari núna? Lægi þá bara ekkert á að sækja um? Það hlýtur að vera. Það er heppileg tímasetning fyrir Samfylkinguna að þeir skyldu vera í forsvari. Það er alveg hreint með ólíkindum. Það er nákvæmlega það sem verið er að segja, nákvæmlega það.

Síðan langar mig að koma aðeins inn á þá kúgun sem á sér stað og það spennuþrungna loft sem er í þinghúsinu. Það fer ekki fram hjá neinum manni, frú forseti, að Vinstri grænir eru mjög beygðir í þessu máli og það er mjög skiljanlegt. Þetta er langt frá öllum þeirra sjónarmiðum. Í tilefni af því, frú forseti, bara til að undirstrika það sem ég er að segja og ítreka hvað sé að gerast á stjórnarheimilinu, þá langar mig að lesa opið bréf til Steingríms J. Sigfússonar, sem var í fjölmiðlunum í gær. Það er opið bréf til hæstv. fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar, með leyfi forseta:

„Það er ekki af ánægjulegu tilefni að ég skrifa þér þetta bréf, Steingrímur. Nú lítur út fyrir að þú og nokkrir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ætli að greiða götu aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu. Fyrir þessu ætlar þú að standa þrátt fyrir að alla tíð og einnig í aðdraganda síðustu kosninga hafir þú alfarið hafnað inngöngu Íslands í sambandið og farir fyrir stjórnmálaflokki sem segir í stefnuskrá sinni orðrétt: „Hugsanlegur ávinningur af aðild Íslands að Evrópusambandinu réttlætir ekki frekara framsal á ákvörðunarrétti um málefni íslensku þjóðarinnar og er aðild að Evrópusambandinu því hafnað.“ — Ég ítreka: Því hafnað. — Ef Vinstri hreyfingin – grænt framboð stendur að aðildarumsókn að Evrópusambandinu er flokkurinn að segja að það sé ásættanlegt að Ísland gangi í Evrópusambandið að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og ganga þar með gegn eigin stefnu þar sem inngöngu í sambandið er með öllu hafnað.

Hvernig má það vera að eftir allt sem á undan er gengið og skýra stefnu flokksins í þessum málaflokki ætlir þú, Steingrímur J. Sigfússon, að styðja frumvarp um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu? Ef ekki hafa orðið sinnaskipti hjá þér þá hlýtur að vera ætlan þín að flækjast fyrir málinu á öðrum stigum málsins. Ef svo er ert þú farinn að stunda þau klækjastjórnmál sem að mínu viti var verið að berjast gegn í búsáhaldabyltingunni og Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur svo oft fordæmt.

Með því að segja já við frumvarpi ríkisstjórnarinnar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu þá gerir þú þig að ómerkingi orða þinna en það sem verra er þá gerir þú mig og alla þá sem börðust fyrir flokkinn í aðdraganda síðustu kosninga að ómerkingum orða sinna. Sjálfur fékk ég 50 manns til þess að skrá sig í flokkinn fyrir síðustu kosningar og það var klárt í mínum huga og í orðræðum mínum við það fólk að aldrei myndi flokkurinn taka þátt í því að færa Ísland nær Evrópusambandinu.

Nú hlakkar í andstæðingum Vinstri grænna og segja ágreining innan hreyfingarinnar til marks um sundrungu vinstri manna. Ég segi ágreininginn til marks um staðfestu og trú fólks á skoðanir sínar og að vinstri menn láti ekki afvegaleiða sig þótt fáeinir forustumenn misstígi sig. Mín hollusta lýtur ekki að ákveðnum foringja eða stjórnmálamönnum heldur lýtur mín hollusta að Íslandi og engu öðru.

Ég hef rætt við marga innan hreyfingarinnar og ekki enn fundið neinn sem er sammála þeirri leið sem þú og meiri hluti þingmanna okkar ætlar að fara. Hér að neðan skrifa einnig undir bréfið nokkrir af félögum okkar úr Norðausturkjördæmi til þess að þú vonandi skynjir hug félaga þinna og kjósenda sem á engan hátt skildu þig á þann veg í aðdraganda kosninganna en að þú myndir segja já við aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Þú varst ekki kosinn á Alþingi Íslendinga af kjósendum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til þess að samþykkja þesslags frumvarp.

Kveðja, Guðbergur Egill Eyjólfsson.“

Þeir sem lýsa yfir stuðningi við bréfið eru Þorsteinn Bergsson sem er á 5. sæti lista Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi, varaþingmaður flokksins, Ingunn Kristjana Snædal í 8. sæti, Ásmundur Páll Hjartarson í 9. sæti, Ásta Svavarsdóttir í 10. sæti, Kári Gautason í 11. sæti, Hrafnkell Lárusson í 13. sæti, Björgvin R. Leifsson í kjördæmisráði Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi, Gunnsteinn Hallgrímsson í stjórn svæðisfélags Vinstri grænna í Seyðisfirði, Borgarfirði eystri og á Héraði, Ásmundur Þórarinsson í stjórn svæðisfélags Vinstri grænna í Seyðisfirði, Borgarfirði eystri og á Héraði, Baldvin H. Sigurðsson bæjarfulltrúi Vinstri grænna á Akureyri, sem er bæjarfulltrúi Vinstri grænna í stærsta byggðarlaginu í Norðausturkjördæmi.

Hvað segir þetta okkur, frú forseti? Þetta segir okkur að áður en svona bréf eru skrifuð hafa mörg símtöl átt sér stað. Það er mikið búið að ganga á í grasrót flokksins og það hjá sjálfum foringjanum. Segir þetta ekki allt um kúgunina í þessu máli? Ég verð að segja það, frú forseti, að Vinstri grænir eiga samúð mína alla í þessu máli. En það er þó ekki hægt að segja það um alla þingmenn Vinstri grænna. Þeir láta ekki allir kúga sig. En það hefur komið fram í máli manna að þetta sé aðgöngumiðinn að ríkisstjórninni og heldur þykir mér hann dýr.

Síðan langar mig að fjalla aðeins um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Það eru margir sem tala niður til hennar og segja að það þurfi ekkert að hafa tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu, það sé þjóðaratkvæðagreiðsla um að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu og snúa út úr þessu á allan máta. Hvers vegna vill Samfylkingin ekki fara í tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu? Hvers vegna er það? Ég bara spyr. Hún er bara hrædd við dóm þjóðarinnar. Ekkert annað liggur þar að baki. Það er bara það. Það kom fram í ræðu hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar á föstudaginn að hann teldi að það væri meiri hluti á Alþingi fyrir tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu og það hafa margir aðrir þingmenn tekið undir það og ég er einn þeirra. Ég tel að ef allir mundu kjósa eftir sannfæringu sinni án þess að vera beygðir þá mundi verða samþykkt hér tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla. En það hentar ekki Samfylkingunni, frú forseti. Það er nú öll þessi lýðræðislega opna umræða sem átti að verða þegar þessari aðildarumsókn var hleypt inn í þingið af hálfu Vinstri grænna. Nei, þeir skulu beygðir alveg ofan í svaðið og nákvæmlega sömu fantabrögðum er verið að beita okkur Íslendinga í Icesave-málinu, nákvæmlega sömu fantabrögðum. Það er þannig, frú forseti.

Mig langar að velta því upp, af því að það hefur komið hér fram, að menn segja í þessari þingsályktunartillögu sem hefur reyndar skánað í meðförum nefndarinnar frá því að hún var lögð fyrst fram, að það er lagt til að það verði einungis ráðgefandi skoðanakönnun. Hvað þýðir það, frú forseti? Það þýðir einfaldlega það að þjóðin mun ekki hafa síðasta orðið. Það þýðir ekkert annað á mæltu máli vegna þess að hér hafa þingmenn sagt og réttilega bent á að þeir muni kjósa eftir sinni sannfæringu og eftir stjórnarskránni þegar kosið verður um aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Það er nú þannig. Svo getum við velt þessu endalaust fyrir okkur og sagt: Ef atkvæðagreiðslan fer 50:5 eða 49:5 hversu bindandi er hún þá? Þetta er náttúrlega ekkert annað en flótti Samfylkingarinnar frá því að vilja leggja þetta í dóm þjóðarinnar, hvort þeir fá óskorað umboð frá þjóðinni til að fara í þessar aðildarviðræður.

Síðan er það einn kapítuli út af fyrir sig hvernig menn ætla að koma þessu í gegn þegar þeir treysta ekki á lýðræðið í þinginu. Ég velti því fyrir mér hvernig samninganefnd Evrópusambandsins muni taka á móti mönnum sem segjast á öllum stigum ætla að berjast á móti tillögunni og meira að segja ráðherrar í ríkisstjórn Íslands segja: „Ég mun berjast á móti tillögunni þegar hún verður borin undir atkvæði á Alþingi.“ Þeir munu berjast á móti henni þá. Hvaða bakland er þá á bak við þetta? Hvert er umboð þeirra manna sem fara með þjóðina klofna í herðar niður, þingið með þessa umræðu um að menn haldi það að hér sé meiri hluti fyrir tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu en vegna kúgunar Samfylkingarinnar þá má ekki fara í hana? Ég vil benda hv. þingmönnum á að þeir aðilar sem semja fyrir Evrópusambandið horfa hér á allar upptökur og munu skoða allt sem sagt er í þessu máli þegar þeir fara að semja við Íslendinga. Þeir munu fara yfir það allt og sjá hvers konar skrípaleikur þetta er. Ég stórefast bara um að þeir setjist niður með nefndinni nema þá til þess eins að þeir gætu hugsanlega gert þá svipaða samninga og þegar var samið um Icesave, kannski bara í ljósi þess að þeir vænti þess að þeir geti sölsað undir sig auðlindirnar og það allt saman. En ég segi það, frú forseti, að sporin hræða. Bara til að undirstrika þetta langar mig að lesa úr viðtali við Evu Joly, með leyfi forseta. Titillinn er: Íslenskar auðlindir mikilvægar fyrir Evrópusambandið.

„Ég tel að frá sjónarhóli Evrópusambandsins sé það mjög áhugavert fyrir okkur að fá Ísland um borð. Þetta er mjög gömul menning og þeir búa við traustar lýðræðishefðir sem myndu styrkja norrænar hefðir um gegnsæi og góða stjórnsýslu. Og þeir eiga einnig náttúruauðlindir sem eru mikilvægar fyrir Evrópu eins og orku og fisk. Þannig að ég tel að það væri mjög gott fyrir okkur — og einnig fyrir þá — að verða hluti af Evrópusambandinu,“ sagði Eva Joly í viðtali við þýska fréttamiðilinn …“

Er þetta ekki bara það sem við þurfum að gera okkur grein fyrir? Hvað ætlum við að sækja í kjöltu Evrópusambandsins? Þeir eiga jú að sjá um allt og bjarga okkur út úr öllu. En þeir eiga ekki að fá neitt í staðinn. Þá velti ég því upp, frú forseti, hvaða þjóðir í Evrópu séu aflögufærar. Hafa þeir bara ekki nóg vandamál hjá sér? Jú, ég held að svo sé. Það er nefnilega þannig. Það hafa allir nóg með sig í dag í þessari efnahagskreppu sem er þó hún sé verst hjá okkur hér.

Frú forseti. Atvinnuvegirnir hafa gert grein fyrir sinni afstöðu til aðildarumsóknar að Evrópusambandinu. Þar eru uppi ólík sjónarmið og þau ber öll að virða. Sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn hafa verið á móti aðildarumsókn og það er vegna þess að þeir hafa séð hvað hefur gerst annars staðar þar sem þjóðir hafa farið inn og þar sem sjávarútvegur og landbúnaður hefur rústast. Hins vegar hafa Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu og ASÍ og nokkrir fleiri verið sammála um að það sé mikilvægt fyrir okkur að ganga í Evrópusambandið, það mundi þýða að við gætum tekið upp evru og það mundi leiða til meiri stöðugleika í peningamálum og efnahagsstjórn. Ég geri ekkert lítið úr því, alls ekki. Ég virði skoðanir þeirra. En mig langar til að menn ræði þau skilyrði sem við þurfum að uppfylla til að geta tekið upp evru, svokölluð Maastricht-skilyrði og ætla ég að lesa þau upp. Hallinn á ríkissjóði má ekki vera meiri en 3% af landsframleiðslu og heildarskuldir hins opinbera mega ekki vera meiri en 60% af landsframleiðslu. Verðbólga má ekki vera meiri en 1,5% hærri en meðaltal verðbólgu í þeim þremur löndum þar sem hún er lægst. Langtímavextir mega ekki vera meira en 2% hærri en í þeim löndum Evrópusambandsins þar sem verðlag er stöðugt. Viðkomandi ríki þarf að hafa verið í gengissamstarfi við Evrópu í að minnsta kosti tvö ár án gengisfellingar og innan vikmarka sem nú eru 15%.

Hvað segir þetta okkur, frú forseti? Við erum ekki að fara að taka upp evru neitt á næstunni. En skilyrðin sem slík til að vinna eftir eru mjög göfug. Við getum farið eftir þeim og eigum að gera það. Hv. þingmenn hafa giskað á hvað það geti tekið langan tíma. Maður hefur heyrt sjö ár, átta ár, tíu ár og upp í þrjátíu ár þannig að við þurfum að búa áfram við krónuna og þá held ég að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur og alla að gera sér grein fyrir því að menn verða að hætta að tala hana niður. (Gripið fram í.) Ekki nema menn skoði einhverja aðra möguleika í myntmálum. Við getum skoðað þá. Það hafa komið margar skoðanir á því í sambandi við gjaldeyrismál hvort við getum tekið upp dollar eða þar fram eftir götunum. Það hafa margir fært mjög sterk rök fyrir því. Við ættum kannski að skoða það frekar hvort það væri möguleiki í staðinn fyrir að fórna fullveldi landsins.

Ég hlustaði, frú forseti, á viðtal um helgina þar sem rætt var við Jón Baldvin Hannibalsson, sérstaklega mikinn Evrópusinna, og við hann ræddi Guðmundur Ólafsson hagfræðingur sem færði mjög sterk rök fyrir því að við ættum frekar að taka upp dollarann heldur en evruna. Hann færði mjög sterk rök fyrir því. Hann gerði það, frú forseti. Það eru kannski aðrir möguleikar í þessu en þeir að þurfa að fara krjúpandi inn í Evrópusambandið í þessari falsvon um að við séum að taka upp einhvern gjaldmiðil, einhverja evru á næstu árum. Það er ekki svo. Það er nefnilega ekki þannig.

Síðan í umræðunni í gær notaði hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson alla sína ræðu til að fara yfir kosti og galla evrunnar í Evrópusambandinu og reynslu annarra landa af henni. Það var mjög athyglisvert erindi og athyglisverð ræða, frú forseti, þannig að ég held að við ættum að hugleiða þetta nánar. Það hefði verið gaman ef einhverjir samfylkingarmenn hefðu farið í andsvör við hv. þm. Tryggva Þór Herbertsson út frá þessum spekúlasjónum hans þar.

Þá ætla ég að fara aðeins yfir sjávarútvegsmálin. Það er einu sinni þannig, frú forseti, og það kom fram áðan hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, að þetta gengur ekki þannig fyrir sig að Evrópusambandið lagi sig að því að ganga inn í Ísland. Nei, það er ekki þannig. Það er nefnilega þannig að við verðum að aðlaga okkur að regluverki Evrópusambandsins til að geta gengið í Evrópusambandið. Þannig ganga hlutirnir fyrir sig. Síðan halda menn að þeir fái einhverjar undanþágur í sjávarútvegi til dæmis. Má vel vera að það verði einhverjar tímabundnar undanþágur. En þær verða aldrei varanlegar, eingöngu tímabundnar. Mig langar að fara yfir það þegar Norðmenn fóru síðast í samningaviðræður við Evrópusambandið að þá voru þær undanþágur sem þeir fengu þá — sem voru einungis tímabundnar — þær voru þannig að þeir fengu þriggja ára undanþágu til veiða fyrir norðan 62. breiddargráðu og eins árs undanþágu sunnan þeirrar breiddargráðu. Þetta liggur alveg fyrir, frú forseti. Það hefur ekkert ríki fengið neinar varanlegar undanþágur gagnvart sjávarútvegi, enda hefur það komið fram í máli hv. þingmanna að í sjálfu sér sé sjálfhætt, þ.e. ef menn fá ekki þetta þá geti þeir bara farið fljótt heim. Það hefur komið hér fram þannig að þetta eru gyllivonir sem menn eru að gera sér hér.

Síðan er annað í sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins sem er mjög merkilegt þar sem Norðmenn fengu aðeins tímabundna undanþágu frá því að henda fiski. Í Evrópulöggjöfinni um fiskveiðar er það skylda að henda fiski í sjóinn aftur. Það er bara skylda. Ef þú átt ekki heimildir þá er það skylda að henda honum aftur. Við erum búin að sjá myndir af því í sjónvarpi þegar menn eru að sigla úr Evrópusambandinu inn í aðra lögsögu, úr norsku yfir í Evrópulögsöguna til að henda fiskinum fyrir framan varðskipin norsku. En um leið og þeir fara yfir einhverja ákveðna línu þá er það bara löglegt og það er skylda. Ég velti því fyrir mér hvort þetta samræmist, frú forseti, sjálfbærri stefnu Vinstri grænna. Það hlýtur að vera ef svo er, ef þau geta sætt sig við svona. Þetta er alveg hreint með ólíkindum.

Síðast en ekki síst mundum við afsala okkur valdi yfir stjórn fiskveiða úr deilistofnum sem eru okkur gríðarlega mikilvægir, sem eru til dæmis loðna, karfi, kolmunni, grálúða, norsk/íslenska síldin, makríll og fleiri tegundir sem eru okkur mjög mikilvægar, gríðarlega mikilvægar. Bara til dæmis á árinu 2008 þá skiluðu þessir stofnar okkur 30% tekna íslensks sjávarútvegs, 30% 2008 voru tekjur Íslendinga af þessu. En ef við hefðum verið í Evrópusambandinu þá hefðum við ekki fengið neitt vegna þess að Evrópusambandið viðurkennir engan veiðirétt okkar úr þessum stofnum. Og ekki bara það, hefðum við verið í Evrópusambandinu, þá hefðum við þurft að henda 100 þúsund tonnum af kolmunna, bara vegna kolmunna sem meðafla með öðrum afla. Það hefði verið skylt samkvæmt löggjöf Evrópusambandsins að henda 100 þúsund tonnum af kolmunna. Þetta er gáfulegt eða hitt þó heldur. Er nema von að allt sé í rúst, að allur sjávarútvegurinn í Evrópusambandinu sé í rúst. Það er ekki nema von. Hann er allur í rúst. Það er talið að Skotar einir hendi árlega fiski fyrir 7 milljarða á hverju ári. Fyrir 7 milljarða henda þeir. Er þá nema von, frú forseti, að sjávarútvegurinn sé ríkisstyrktur í Evrópusambandinu um 320 milljarða á ári. 320 milljarða á ári þarf að greiða með til að sjávarútvegurinn geti þrifist í Evrópusambandinu.

Mig langar, frú forseti, að lesa nokkuð athyglisvert sem kom fram — og það hefur reyndar komið fram í umræðunum — þar sem er haft eftir landbúnaðarráðherra Noregs, með leyfi forseta:

„Trúa Íslendingar á jólasveininn … (VigH: Bara í desember.)

Lars Peder Brekk, landbúnaðarráðherra Noregs, segir að Íslendingar trúi greinilega á jólasveininn úr því þeir haldi að þeir geti fengið sérstakar undanþágur varðandi sjávarútvegsmál innan Evrópusambandsins. Þetta kemur fram á norska vefnum VG.“

„„Íslandi mun ekki takast að fá samþykki Evrópusambandsins fyrir því að þeir fái sérstakar undanþágur í sjávarútvegsmálum. Það er eins og að trúa á jólasveininn,“ segir Brekk í samtali við fréttastofuna ANB.

Hann segir að aðild Íslands að Evrópusambandinu yrði eins og himnasending fyrir Evrópusambandið sem þá fengi aðild að stærri fiskimiðum og fleiri fiskstofnum.

Íslendingar yrðu hins vegar að afsala sér stjórn fiskveiða í lögsögu sinni og hann telji það því jafnast á við rússneska rúllettu að Íslendingar leggi fiskimið sín undir fyrir aðild að sambandinu.

Brekk segir sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins hafa skilað síversnandi ástandi fiskstofna og að hann hafi ekki trú á því að fyrirhuguð endurskoðun stefnunnar árið 2013 muni skila tilætluðum árangri.

„Það verður í raun ekkert gert til að fækka í fiskveiðiflotanum eða stöðva ofveiði. Það veldur áhyggjum“ — ég ítreka það hér — „Það veldur áhyggjum að 93% þorska í Norðursjó skuli veiddir áður en þeir verða kynþroska.““

Er þetta ekki allt sem segja þarf um sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins og eigum við ekki að taka mark á þessum manni? Ég held það. Hann talar af reynslu.

Þá langar mig aðeins að koma inn á landbúnaðinn og kannski þá dapurlegu uppákomu sem var nú í upphafi þingfundar. Það var grein í blaðinu í morgun eftir Harald Benediktsson, formann Bændasamtaka Íslands. Greinin ber þessa yfirskrift: Endalok nútímalandbúnaðar á Íslandi. Mig langar að lesa hluta úr þessu, með leyfi forseta:

„Nú er vitneskja fyrir hendi um að stjórnvöld hafi nýlega látið meta stöðu og áhrif á íslenskan landbúnað með því að máta hann við finnska samninginn. Útkoman var í grundvallaratriðum samhljóma áliti Bændasamtakanna á áhrifum aðildar á landbúnaðinn. Það kemur raunar ekki á óvart því að afstaða Bændasamtakanna er byggð á traustum rannsóknum og undirbúningsvinnu. Skýrslan er því ekki það vopn sem ESB-sinnar í utanríkismálanefnd vonuðust til að geta notað til að slá af málflutning bænda. Hún er því höfð í skúffu.“

Frú forseti. Þetta er mjög alvarlegt mál eins og kom fram áðan. Það er mjög alvarlegt að utanríkisráðuneytið skuli vera með drög að skýrslu eða skýrslu sem segir þetta hér, að þetta séu endalok nútímalandbúnaðar á Íslandi. Síðan ætlast fólk til þess að við tökum hér upplýsta ákvörðun í þessu máli. Það er alveg hreint með eindæmum með hæstv. utanríkisráðherra að hann er ýmist með skýrsluna sem hann á að birta ofan í skúffu eða þá sem hann á að vera með jafnvel í fjármálaráðuneytinu, eins og í sambandi við Icesave-málið. Þetta ríður ekki við einteyming, frú forseti. Það er alveg hreint með ólíkindum hvernig þetta er. Þar sem ræðutími minn fer senn að styttast mjög mikið og ég gæti svo sem talað mikið um landbúnaðarmálin þá segir þetta allt sem segja þarf, þessi eina setning hjá formanni Bændasamtakanna, Haraldi Benediktssyni: Endalok nútímalandbúnaðar á Íslandi. Það segir allt sem segja þarf.

Síðan vil ég aðeins fara yfir kostnaðarhlutann. Það er kannski vegna hans sem er svo mikilvægt að við förum í tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er áætlaður kostnaður upp á 1.000 milljónir, 1 milljarð við þessar aðildarviðræður og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason sagði hér í umræðum í gær að þetta væri algerlega óraunhæft mat því kostnaðurinn væri miklu hærri. Sjálfur ráðherrann í ríkisstjórninni, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, gaf þessu falleinkunn. Síðan kemur líka fram í þessu nefndaráliti að til þess að menn geti haldið sig innan þessara marka verði þeir að sýna mjög mikla fjárhagslega aðgæslu og ekki leita til erlendra sérfræðinga og þar fram eftir götunum. Það er allur metnaðurinn í þessari vegferð okkar við að afsala okkur fullveldi landsins og metnaðurinn er þessi. Það kæmi mér ekki á óvart að þeir kæmu heim með samning svipaðan Icesave-samningnum og teldu hann bara góðan og þá mundu þeir gera nákvæmlega sama og þeir gera núna með Icesave-samninginn, frú forseti, þ.e. setja spunameistarana á ferð og reyna að kokka þetta ofan í þjóðina með góðu eða illu. En ég segi það, frú forseti, að ég hef það mikla trú á Alþingi Íslendinga að ég sé ekki fyrir mér að Icesave-samningurinn verði samþykktur, svo ég segi það hér. Það eru alveg hreinar línur.

Í lok ræðutíma míns, frú forseti, vil ég koma inn á það sem við höfum verið að gera í sumar. Ég stóð í þeirri meiningu að þegar við kæmum saman á Alþingi Íslendinga þá færum við í alvöruaðgerðir til að bjarga heimilunum og fyrirtækjunum, við færum í þær aðgerðir en ekki í eitthvert svona Evrópusambandsdútl sem ekkert liggur á, ekki neitt, akkúrat ekki neitt, og það er í boði Vinstri grænna og því verður haldið til haga hver stimplaði á aðgöngumiðann og þessa aðildarumsókn. Þó verð ég að segja að ég ber enn þá von í brjósti að það verði samþykkt að við förum í tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég verð að segja það, frú forseti.

Ef við veltum fyrir okkur því sem við erum að tala um þá hefur stjórnin slegið allar tillögur stjórnarandstöðunnar út af borðinu sem varða endurreisn heimila og fyrirtækja, hverja einustu. En það stóð ekkert í mönnum og samninganefndinni að taka það á sig, þ.e. með því að samþykkja að greiða vexti af Icesave-skuldbindingunni frá 1. janúar í staðinn fyrir 24. júlí þegar samkomulagið átti að taka gildi, þegar engin ríkisábyrgð hefur verið samþykkt. Sú ákvörðunartaka kostaði 24 milljarða og þetta var bara samningsatriði, málamiðlun eins og einn nefndarmaður úr samninganefndinni sagði. Þetta var bara svona málamyndun. Ég velti því fyrir mér, frú forseti, skipta engir milljarðar, tugir milljarða neinu máli? Nei, það virðist ekki vera. Enda er það eina sem Alþingi hefur gert síðan það kom saman gagnvart heimilunum og fyrirtækjunum, að auka álögur og draga úr þjónustu. Það er það sem hefur verið gert hér og það er bara rétt að byrja. Hvað gera menn í haust þegar við sjáum fram á það að fjárlögin muni ekki standast og við verðum að fara í fjáraukalög? Hvað gerist þá? Hvernig ætla menn að standa frammi fyrir fólki og réttlæta þessa vitleysu sem við erum að fara í hér og ætla síðan ekki að fara í þessa aðgerð? Nei, frú forseti. Þetta er algerlega með ólíkindum.

Að lokum vil ég segja, frú forseti, að ég held að það væri mjög mikilvægt fyrir okkur hv. alþingismenn á Alþingi Íslendinga að draga aðeins andann og komast upp úr pólitísku argaþrasi. Ég held, frú forseti, að það væri mikilvægt — og ég skora hér á formenn allra flokka — að setjast niður og ræða það í alvöru að koma hér á þjóðstjórn — ræða það í alvöru — þannig að við getum snúið okkur að þeim verkefnum sem við þurfum að takast á við, bjarga heimilunum og fyrirtækjunum og gefa fólkinu von í þessu landi.