137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:59]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þykir vænt um að heyra það frá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni að hann virði skoðanir annarra í stjórnmálum og þannig held ég að við eigum almennt að tala á Alþingi. Það fer vel á því eftir það sem á undan er gengið.

Talandi um fjölmiðlafrumvarpið þá held ég að við hefðum betur sett fjölmiðlafrumvarpið á fyrirtæki öll í þessu landi. Þá hefði kannski orðið til dreifð eignaraðild að bönkunum eins og upphaflega stóð til og Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra hélt frammi til að byrja með.

En ég verð að segja að ég er búinn að heyra margar ræður misgóðar og dáist mjög að þeim sem hafa komið upp með undirbúnar ræður um kosti og ókosti þess að ganga í Evrópusambandið. Það er nefnilega svo að því hljóta að fylgja kostir og ókostir og þetta erum við að vega og meta. Ég hef horft og hlustað á fjöldann allan af hagsmunaaðilum færa fyrir því rök og mótrök að við eigum að ganga í Evrópusambandið, langstærstan hluta til dæmis Samtaka atvinnulífsins, ASÍ, Samtök verslunar og þjónustu, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök iðnaðarins, Viðskiptaráð og fleiri halda því fram að einmitt sérstaklega núna beri okkur að horfa til nágrannaþjóða okkar þegar við erum komin á hnén í efnahagslegu tilliti. Mér finnst Sjálfstæðisflokkurinn að sumu leyti vera á eintali við sjálfan sig í þessu efni. Mér finnst hann af einhverjum ástæðum hafa hrakið sjálfan sig út í horn í þessum umræðum og ekki hlusta á baklandið í sínum flokki. Ég á marga góða vini sem eru (Forseti hringir.) harðir sjálfstæðismenn og þeir deila ekki sömu skoðun og Ásbjörn Óttarsson í þessu máli.