137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:01]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég sagði í inngangi mínum þegar ég hélt ræðu mína áðan að það væru skiptar skoðanir innan míns flokks um þessar aðildarviðræður við Evrópusambandið, það væru því mjög margir fylgjandi. Ég sagði það hér svo því sé haldið til haga. Ég viðurkenni það fúslega að ég taldi ekki upp marga kosti í ræðu minni, enda kom ég ekki hérna upp til þess. Enda finnst mér vera nógu margir til að gera það. Það er vegna þess að ég er á þeirri skoðun að við eigum ekki að fara þarna inn Ég vil segja það, frú forseti, að ég hef ekki heyrt marga samfylkingarmenn tala mikið um ókosti Evrópusambandsins. En það er annað mál. Það er hins vegar þá þeirra sem eru á móti því. (SER: Hlustaðu á mig.) Já, ég mun gera það, hv. þingmaður.

Síðan nefnir hann réttilega Samtök atvinnulífsins. Ég kom líka inn á það í ræðu minni og nefndi þar bæði sjávarútveginn og landbúnaðinn sem væru á móti og hræddust þessa aðildarumsókn eins og ég kom að í máli mínu. Ég nefndi sérstaklega Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu og ASÍ og fleiri aðila sem hefðu talið þetta skynsamlegt bæði til að geta tekið upp evruna og eins farið inn í meiri stöðugleika og það eru ákveðin rök fyrir því. Ég sagði það í ræðu minni að ég bæri fulla virðingu fyrir þeim rökum.

Ég tek hins vegar algerlega undir með hv. þingmanni gagnvart eignarhaldi bankanna. Við þekkjum þá sögu nú. Það er líka mikilvægt að það komi fram og menn átti sig á því að það voru ekki íslenskir stjórnmálamenn sem rændu bankana og rændu landið. Það eru margir sem halda því fram. Það er ekki þannig. Það voru ekki nema einhverjir 30 einstaklingar sem gerðu það og sem við sitjum núna uppi með. Það hafa margir haldið öðru fram.

Síðan af því að við töluðum um fjölmiðlana þá man ég eftir því þegar hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson hætti störfum á fjölmiðlum að hann lýsti því yfir að hann væri feginn að vera laus frá auðmönnunum.