137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:32]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir ræðuna. Þetta var sköruglega mælt og af rökfestu eins og þingmannsins er von og vísa. Ég þakka henni fyrir að fara svo vel yfir þennan skilyrðakafla og varpa ljósi á það sem við framsóknarmenn höfum verið að fara í málflutningi okkar. Það er hvergi minnst á skilyrði í þessum 60 blaðsíðna bunka sem nú liggur fyrir nema að því leyti að það sé Evrópusambandið sem setur skilyrði. Búið er að draga tennurnar úr þessu öllu saman og sorglegt hvernig Samfylkingin fer fram með þetta mál, með ríkisstjórnarsamstarfsflokk sinn algerlega klofinn í herðar niður. Mér skilst að það sé mikið uppnám núna hjá vinstri grænum, sérstaklega yfir því að hv. formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, sem vill svo til að er vinstri grænn, hafi ekki vitað af þessari skýrslu sem var upplýst um í morgun, skúffuskýrsluna. Það er ekki bara verið að kúga þingið heldur samstarfsflokkinn.

Þingmaðurinn fór vel yfir það hvað fólk þarf að hafa til að bera og talaði mikið um traust. Ég ætla að spyrja hv. þingmann um traust. Telur hv. þingmaður að hæstv. utanríkisráðherra, sem fær óbeislað og taumlaust umboð til að fara með þessa fjögurra lína þingsályktunartillögu til Brussel, hafi það traust sem hann þarf til að fá þetta umboð, í fyrsta lagi hér í þinginu og í öðru lagi til að halda á málinu fyrir okkar hönd, verði þessi þingsályktunartillaga samþykkt.