137. löggjafarþing — 45. fundur,  16. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[13:38]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég segi nei við þessari tillögu. Það hefur verið merkilegt að fylgjast með atkvæðaskýringum í dag. Ég bíð enn eftir að sjá þingmann Vinstri grænna stíga hér upp og lýsa hrifningu sinni á Evrópusambandinu og vilja til að ganga til samninga þar og ljúka þeim með því að ganga inn í Evrópusambandið. Ég hef ekki fengið að sjá það enn. Þetta lýsir þeim vanda sem málið er í. Pólitísk samstaða er engin. Frá og með deginum í dag ætlar annar ríkisstjórnarflokkurinn greinilega að berjast gegn þeim samningi sem lagt er nú af stað til að ljúka á meðan hinn ríkisstjórnarflokkurinn (Gripið fram í.) berst að fullu fyrir málinu. Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga þegar lagt er af stað á jafnveikum forsendum og hér er gert. Það er ekki hægt að standa að jafnstóru máli með jafnveikum forsendum (Forseti hringir.) og lagt er upp með í þessu máli.

Verst er að Vinstri grænir hafa efnt verstu loforðin sín um að lækka laun og hækka skatta en svíkja þetta loforð gagnvart sínum kjósendum. (Gripið fram í: Heyr, heyr!) (Gripið fram í.)