137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

greiðslur af Icesave-láni.

[10:32]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég hef enga tölu á því hversu oft við fengum að heyra það í kosningabaráttunni að við það eitt að Ísland staðfesti umsókn um aðild að Evrópusambandinu mundi gengi krónunnar snarlega styrkjast, og staða landsins þar með. Nú var samþykkt hér umsókn um aðild að Evrópusambandinu og gengi krónunnar hreyfðist ekki nokkurn skapaðan hlut. Nú hefur greiningardeild forsætisráðuneytisins, ef svo má segja, Seðlabankinn, gert spá um það hvaða möguleika Íslendingar hafa á því að standa í skilum varðandi Icesave-lánið. Sú spá hefur verið mjög gagnrýnd og bent á að inn í hana vanti ýmislegt. Raunar er furðulegt ef ríkisstjórnin ætlar að reiða sig á Seðlabankann hvað þetta varðar. Ég hélt að enginn seðlabanki í sögu heimsins hefði nokkurn tíma gert ráð fyrir því að sitt eigið ríki væri ekki gjaldfært. Það gengur í rauninni gegn eðli seðlabankans.

Því spyr ég forsætisráðherra hvort ráðherrann taki ekki undir það að í svo gríðarlegu hagsmunamáli sem Icesave-málið er verði núna leitað ráða utan ríkisvaldsins, leitað til óháðs aðila, helst erlends ráðgjafarfyrirtækis, til að meta raunverulega stöðu Íslands og getuna til að endurgreiða. Við höfum þegar séð að líklega er ekki jafnauðvelt og Seðlabankinn heldur fram að standa straum af þessum greiðslum. Bankinn gekk reyndar svo langt að senda frá sér fréttatilkynningu um allan heim þar sem fram kom að meira en nóg væri til af peningum til að standa við þessar skuldbindingar.

Hvernig má það vera að til sé meira en nóg af peningum til að borga skuldir sem eru ekki lagalega okkar þegar menn hafa ekki einu sinni efni á því að reka lögregluna sómasamlega? Niðurskurðurinn þar nemur u.þ.b. 13 klukkutíma vaxtagreiðslum af Icesave-láninu sem menn segja nú að þeir hafi meira en nóga peninga til að standa straum af.