137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

listaverk í eigu gömlu bankanna.

[10:48]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. menntamálaráðherra þessi svör og ég finn það og það hefur reyndar komið áður fram að hún hefur áhuga á því að Listasafni Íslands verði tryggð aðkoma að þeim verkum sem teljast þjóðargersemar og þýðingu kunna að hafa fyrir listasögu landsins. Ég fagna því sérstaklega að þetta mál skuli áfram hafa verið í vinnslu með þessum hætti sem skýrt var því það urðu mér veruleg vonbrigði og fleirum í vor þegar þessi einróma þingsályktun, frá fulltrúum allra flokka í viðskiptanefnd, dagaði uppi. En það er skammur tími til stefnu, 14. ágúst er ekki langt undan og ég vil hvetja menntamálaráðherra og fjármálaráðherra áfram til dáða í þessum efnum og tryggja að þessi verk verði áfram í eigu þjóðarinnar sem þau eiga að sjálfsögðu að vera og áttu aldrei að fara með einkavinavæðingunni úr því eignarhaldi.