137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

breytingar á ýmsum lögum um óréttmæta viðskiptahætti.

13. mál
[16:31]
Horfa

Frsm. viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Það er alltaf hægt að bíða með alla hluti. Frumvarpið sem við ræðum beið sl. vor og er því komið öðru sinni á borð þingmanna. Ég verð að segja af því tilefni að hv. þingmenn töluðu eins og lítið hefði verið fjallað um málið í þingsal og í nefnd að það er ekki alls kostar rétt. Við 1. umr., eins og ég nefndi áðan, bæði fyrr í vetur og svo aftur nú á vordögum var fjallað mjög ítarlega um nákvæmlega það sem hv. þingmenn hafa bent á að fram kemur í athugasemdum við lagafrumvarpið, þ.e. hversu mikið auðveldara það er fyrir framkvæmdarvaldið að setja reglugerð heldur en að setja lög á Íslandi. Þannig á það að vera, það á að vera miklu erfiðara að setja lög en reglugerðir. En reglugerðir þurfa að hafa stoð í lögum.

Eins og fram kemur í nefndarálitinu er tilgangur frumvarpsins að ljúka innleiðingu á tilskipun nr. 29/2005, um óréttmæta viðskiptahætti, en efni hennar var tekið upp í íslenskan rétt með lögum nr. 141/2001, að undanskilinni 16. gr. sem varðar tilvísun í Evrópuráðstilskipun um lögbann og dómsmál til að verja hagsmuni neytenda.

Breytingarnar felast að öðru leyti í breyttum tilvísunum til tilskipana sem þegar hafa verið innleiddar. Viðaukann sem hér hefur verið fjallað um er núna að finna í lögum nr. 56/2007, í honum er upptalning í 15 liðum á þeim lagabálkum og tilskipunum Evrópusambandsins sem hafa verið teknar í íslenskan rétt. Hér er lagt til að í stað þess að upptalning tilskipana sem innleiddar hafa verið og lúta að neytendamálum sé í lögum nr. 56/2007 verði hana að finna í reglugerð, þ.e. ef 16. tilskipunin verður lögleidd á sviði neytendamála þurfi ekki að breyta lögum nr. 56/2007 heldur verði þess getið í reglugerð að þessi tilskipun hafi verið innleidd. Þetta er öll breytingin sem um ræðir. En vegna misvísandi orðalags í c-lið 1. gr. laganna þótti nefndinni rétt að flytja breytingartillögu til að taka af öll tvímæli um að það stæði ekki til að setja í reglugerð innleiðingu sem ekki hefði farið í gegnum þingið sem lög.

Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur orðið. Ég vil árétta að það sem af er sumarþingi hefur hv. viðskiptanefnd fengið frá þinginu 12 mál, sum hver veigamikil, hún hefur afgreitt átta mál, og að auki er eitt sem var tekið upp og flutt sérstaklega af nefndinni og varðaði slitastjórn SPRON. Enn er á borðum nefndarinnar mjög stórt stjórnarfrumvarp, þ.e. heildarlög um vátryggingastarfsemi, og þar að auki eru þrjú þingmannafrumvörp til vinnslu. Það skal viðurkennt að nefndin hefur ekki gefið sér tíma til að fjalla efnislega um þau. Málið sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson nefndi, 7. mál þingsins, er um stöðu minni hluthafa, eða minnihlutavernd, og ég vil taka undir með hv. þingmanni um nauðsyn þess að auka vernd minni hluthafa og hef engu við það að bæta sem hann sagði.

Þá er einnig um að ræða mál sem fjallar um vexti og verðtryggingu, þ.e. hámarkshækkun verðtryggingar fjárskuldbindinga, frá hv. þm. Eygló Harðardóttur og fleirum og loks er þriðja þingmannamálið sem bíður umfjöllunar frá hv. þm. Pétri H. Blöndal og fleirum, 5. mál þingsins, hlutafélög með gagnsætt eignarhald og bann við lánveitingum og krosseignarhaldi. Um þessi þrjú þingmál má segja að nú þegar liggja fyrir nokkuð margar umsagnir um þau og ég ætla að vona að hv. viðskiptanefnd veitist tími til að fjalla um þau en það skal viðurkennt að afskaplega mikil pressa er á vátryggingafrumvarpinu sem er gríðarlega stórt, lagabálkur sem hefur verið lagður í þriðja sinn fyrir þingið og ég sé ekki alveg hvernig nefndin nær að ljúka fyrir haustið.