137. löggjafarþing — 48. fundur,  10. ág. 2009.

ríkisábyrgð á Icesave-samningnum.

[15:10]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður gerir kröfu til þess að við tökum að fullu tillit til þeirra sjónarmiða sem fram hafa komið hjá stjórnarandstöðunni í þessu efni. Það hefur verið gerður samningur með fyrirvara um samþykki Alþingis. Þessi ríkisábyrgð er skilyrt því að Alþingi samþykki hana. Mér finnst einum of mikil krafa að það sé sett fram að við tökum að fullu tillit til þeirra sjónarmiða sem fram hafa komið í þessu efni vegna þess að sumar tillögur sem hafa komið fram ógilda beinlínis samninginn.

Ég spyr hv. þingmenn hvar við stöndum ef niðurstaðan í atkvæðagreiðslu um þennan samning verður sú að hann verður felldur? Mér finnst menn kannski ekki gera sér nægilega mikla grein fyrir því hvar við stöndum. (VigH: Rangt.) Efnahagslega benda menn á að við höfum ekki greiðsluþol til að standa undir þessum samningi (Forseti hringir.) en menn verða líka að horfa á hvað skeður ef við samþykkjum ekki þennan samning, og af því finnst mér menn ekki gera nægilega mikið. (Forseti hringir.) En ég vil sannfæra hv. þingmann um að við munum taka eins mikið tillit og kostur er til þeirra tillagna og sjónarmiða sem hafa komið fram bæði hjá stjórnarliðum og stjórnarandstöðu.