137. löggjafarþing — 48. fundur,  10. ág. 2009.

5. fsp.

[15:28]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Að sjálfsögðu má deila um það örugglega bæði hagfræðilega og á fleiri forsendum hversu stóran gjaldeyrisvaraforða sé nauðsynlegt að halda til þess að endurheimta trúverðugleika, ná að styrkja gengi krónunnar og halda því stöðugu, ná tiltrú og hafa það afl á bak við í Seðlabankanum að hægt sé að grípa inn í, ekki til þess að hafa varanlega áhrif á gengi krónunnar heldur til þess að jafna út sveiflur og mæta óvæntum frávikum þegar útstreymi verður á ákveðnum tímum, að leggja þá gjaldeyri inn á markaðinn og endurheimta hann síðan þegar betur gengur. Allt snýst þetta líka um að eyða óvissu sem er skaðleg og hefur sem slík sjálf áhrif í þessum efnum.

Nú er ekki endilega víst í hvaða mæli og hvenær öll þessi lán verða tekin. Reyndar er ekki víst að þau skili sér öll í hús þó eftir verði leitað. Allir vita að viðræður við Rússa eru skammt á veg komnar en Norðurlandalánasamningarnir bíða tilbúnir og viðræðum við Pólverja hefur miðað vel. Það er einfaldlega mat þeirra sem að þessu hafa komið og unnið hafa að bæði efnahagsmálum hér innan lands sem og þeim erlendu aðilum sem við höfum verið í samstarfi við að það sé óumflýjanlegur og mikilvægur liður í þessari endurreisn að hafa verulegan gjaldeyrisvaraforða upp á að hlaupa til að mæta sveiflum sem kunna að vera á markaði. Það eru vaxtagreiðslur og afborganir og gjalddagar á jöklabréfum eða stöðum útlendinga hér í innlendum krónum sem þarf að mæta og síðan tilfallandi afborganir bæði ríkis og annarra aðila sem þurfa að fara yfir gjaldeyrismarkaðinn út úr landinu. Á þetta hefur verið lagt mat af hálfu Seðlabankans auðvitað sérstaklega, síðan fjármálaráðuneytisins, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og fleiri aðila. Niðurstaðan er sú að nauðsynlegt sé að tryggja þennan gjaldeyrisvaraforða, vonandi til þess að nota sem (Forseti hringir.) minnst af honum og jafnvel að taka lánin eða hefja ekki endilega lánin í öllum tilvikum fyrr en þörf er fyrir þau.