137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[15:33]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Frú forseti. Það verður að viðurkennast að það er erfitt að vera stjórnarþingmaður þessa dagana og missirin. Ég vissi svo sem að verkefnin væru ærin þegar ég bauð mig fram í þetta verkefni en að mæla fyrir hverju málinu á fætur öðru sem lýtur að því að ríkið ætli að koma inn í atvinnulífið, inn í bankastarfsemina í þessu landi er náttúrlega sorglegt en því miður er það sá veruleiki sem við búum við og þá sérstaklega eftir óstjórn þessara mála um langt árabil.

Við í meiri hluta nefndarinnar skiluðum framhaldsnefndaráliti og mig langar að vitna til þessa álits. Það tengist nokkuð þeim umræðum sem verið hafa í dag.

„Meiri hlutinn telur sýnt að enda þótt samkomulagið gangi eftir og kröfuhafar eignist allt að 90% hlut í Íslandsbanka og Nýja Kaupþingi muni ríkið enn um hríð vera eini eigandi Landsbankans, eiga 10–12% eignarhlut í hinum bönkunum tveimur ásamt eignarhlutum í allmörgum sparisjóðum. Ef svo fer gæti ríkið því verið með 60–70% hlutdeild á fjármálamarkaði.“

Þetta tengist að sjálfsögðu stærð Landsbankans á innlendum markaði. Ég ætla að fá að vitna aftur í nefndarálitið. Þar segir:

„Ljóst er að ef samkomulag við erlenda kröfuhafa gengur eftir munu umsvif af rekstri eignarhluta ríkisins verða minni en ella. Engu að síður telur meiri hlutinn að umsvif ríkisins á fjármálamarkaði verði svo mikil að þörf sé fyrir Bankasýslu til að fara með þá eignarhluti.“

Við teljum í meiri hlutanum að einsýnt sé að ríkisvaldið þurfi að hafa eitthvert utanumhald um eignarhald sitt, hvort sem það eru 10% eða 12% í einstökum banka eða að það fari í allt að 100% eins og í tilviki Landsbankans. Ef maður reynir að ná utan um þá umræðu sem verið hefur í dag og það sem kom að einhverju leyti fram á fundum nefndarinnar finnst mér eilítið holur hljómur í málflutningi stjórnarandstöðunnar. Öðrum þræði segja menn að það sé óþarft að búa til bankasýslu og gera menn því þá væntanlega skóna að verkefnin eigi að vera inni á borði fjármálaráðherra, en samt sem áður tala menn fyrir því að koma eigi ákvarðanatöku sem allra lengst frá þessu pólitíska skipaða valdi.

Þarna togast að vissu leyti á tvö sjónarmið en mér finnst stjórnarandstaðan halda þeim báðum að hluta til á lofti. Það sem menn eru að gera með mótun bankasýslu er að koma ákvörðunartökunni út úr ráðuneytum og inn í sjálfstæða stofnun en um leið að hafa það alveg skýrt að það ber einn maður ábyrgð á þeim fjármunum ríkisins sem fara í þetta verkefni, að endurreisa bankastarfsemina í þessu landi. Við erum sem sagt að móta farveg fyrir ákvarðanatöku. Ég held að það sé mikilvægt að við förum sem allra fyrst í þetta verkefni vegna þess að við þingmenn finnum það öll að atvinna í þessu landi krefst aðgerða inni í bankakerfinu. Menn vilja fá svör hvað varðar fjárfestingar, hvað varðar næstu missiri. Ferðaþjónustan vill fá að vita hvernig hún stendur fyrir næsta sumar o.s.frv. Ef við stofnum ekki bankasýslu verður atvinnulífið að lemja á hurðir fjármálaráðuneytisins og ekki viljum við það. Þess vegna teljum við að bankasýsla sé mjög þörf.

Við teljum hins vegar að eins og við höfum teiknað þetta mál upp í viðskiptanefnd þar sem við höfum tekið þetta mál fyrir, að með því að búa til bankasýslu skipi ráðherra stjórn Bankasýslunnar. En viðskiptanefnd, eins og við nefnum í nefndaráliti okkar, telur mikilvægt að ráðherra kynni nefndinni tillögur sínar að stjórn Bankasýslunnar svo við getum svo tekið umræðu um þá stjórn á vettvangi Bankasýslunnar þegar þar að kemur.

Hér hafa einhverjir rætt um valdmörk. Tveir stærstu bankarnir skiluðu annaðhvort ekki inn umsögn eða hafa lýst sig mjög sátta við þá nálgun sem tekin er upp af Bankasýslunni og sömuleiðis í eigendasýslunni. Það er ljóst að sérstakur samningur verður gerður á milli Bankasýslunnar, stjórnar hennar við einstök bankaráð um hvernig eigendastefnan verður útfærð og er það vel.

Í máli hv. þm. Birkis Jónssonar var talað um möguleika þess að fjármálaráðherra mundi skipa einn fulltrúa, viðskiptaráðherra mundi skipa annan fulltrúa og Seðlabankinn mundi skipa þriðja fulltrúann í stjórn Bankasýslunnar. Þetta tengist að einhverju leyti því sem ég minntist á áðan en ég tel mikilvægt og nálgast þetta mál út frá þeim hætti að fagráðherra beri ábyrgð á þeim fjármunum sem fara þarna inn. Ef við höfum þetta með þeim hætti sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson stingur upp á mundi ábyrgðin færast upp um eitt þrep og forsætisráðherra yrði þá sá sem mundi bera ábyrgð. Ég held að það sé betra að þetta liggi hjá fagráðherra.

Ég vil einnig frábiðja mér alla þá umræðu sem hefur verið hér í þessum þingsal í dag um hroka eða valdníðslu hjá meiri hluta viðskiptanefndar. Ég held að við ættum að skipta þessari umræðu í tvennt: Við skulum takast á um pólitík, endilega. Við getum verið ósammála og það er kannski eins gott að við séum ósammála því að þannig þroskast málin, þegar fólk skiptist á skoðunum. En að meiri hluti nefndarinnar hafi farið fram með einhverjum valdhroka hvað snertir Bankasýslu eða eigendastefnu finnst mér ósanngjarnt og að mér vegið og ég frábið mér þá umræðu og ætla ekki að taka þátt í henni lengur.

Hér hefur verið rætt um 100 millj. Ekki veit ég hvort þessi Bankasýsla muni kosta 100 millj., það kemur þá bara í ljós, en það er alveg ljóst að við þurfum að gera þessa hluti vel og vandlega. Atvinnulífið á það skilið og það er alveg ljóst að kostnaðurinn getur orðið gríðarlegur ef við höldum illa á málum hvað snertir bankamál okkar í framtíðinni eins og við lentum í á undanförnum árum og þá verður reikningurinn miklu meiri og stærri.

Sparisjóðina hefur borið á góma í þessari umræðu. Þann 10. júlí gengum við frá lagasetningu í þessum sal sem lutu að nauðsynlegum björgunaraðgerðum til sparisjóðanna og síðan hefur þetta mál verið á vettvangi fjármálaráðuneytis. Við mótuðum skýrar reglur til að fastnegla hvernig þessar björgunaraðgerðir ættu að fara fram og ég veit að menn eru að vinna eftir þeim reglum sem við mótuðum þar, enda var nauðsynlegt að við mundum hraða afgreiðslu okkar til að menn gætu gert sér í hugarlund hvernig ríkið ætlaði að koma að þeim björgunaraðgerðum sem voru nauðsynlegar. Tíminn skiptir þar miklu máli að sjálfsögðu.

Ég hef mikla trú á Mats Josefsson eins og fleiri í þessum sal og mig langar að endingu að minna á tölvupóst sem kom frá honum til nefndarmanna undir lok júlí þar sem segir, með leyfi forseta. Ég ætla að fá að snara þessum tölvupósti yfir á íslensku:

„Í ljósi þess að ekki liggur fyrir bindandi samningur við kröfuhafa tel ég mikilvægt að lögin verði samþykkt eins og fyrirhugað er [segir Mats]. Það er ekki hægt að útiloka að kröfuhafar staðfesti ekki samkomulagið og ríkið muni því verða eigandi bankanna þegar upp er staðið.“

Eins og áður hefur komið fram í máli mínu teljum við í meiri hlutanum mjög mikilvægt að þessi lagasetning fari í gegn því að við þurfum utanumhald um eignarhald ríkisins hvort sem það eru 10% eða 100%.