137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

eignarhald á fjölmiðlum.

152. mál
[15:18]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna og get tekið undir með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að gagnsæið er gríðarlega mikilvægt þegar kemur að fjölmiðlum því að eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sagði er hlutverk þeirra að vera fjórða valdið. Það skiptir máli að þeir sem lesa fjölmiðla þekki hvernig eignarhaldi þeirra er háttað því að það er hluti af því að meta fjölmiðilinn. Við getum t.d. litið til Norðurlandanna þar sem finna má fyrirmyndir, þar sem t.d. fjölmiðlastofur viðkomandi lands reka einfalda vefsíðu þar sem hægt er að skoða eignarhald allra fjölmiðla í landinu. Það er því hægt að setja einhverjar slíkar reglur og hluti af því er að hafa allt uppi á borðum.

Þetta er viðamikið verkefni og ég reikna með að það verði eitt af stærstu málunum sem verða til umfjöllunar hjá hv. menntamálanefnd næsta vetur þar sem þetta er yfirgripsmikið verkefni. Þarna er verið að tala um hljóð- og myndmiðla og prentmiðla og í þessu nýja umhverfi er æ erfiðara að skilgreina í raun og veru hvað fjölmiðill er því að við erum að horfa upp á gerbreytt umhverfi þar sem margir einstaklingar eru orðnir í raun og veru lifandi fjölmiðill að eigin mati, getum við sagt. Það eru ýmsar flóknar spurningar sem tengjast þeim miklu tækniframförum sem orðið hafa þar sem hver og einn rekur sína eigin síðu sem sinn vettvang sem í raun er farið að virka eins og fjölmiðill. En samt gerum við ekki sömu kröfu til þeirra og þess sem við köllum fjölmiðla í daglegu tali þar sem starfa blaðamenn sem við ætlumst til að sýni fagleg vinnubrögð. Það er mikilvægt að endurnýja löggjöfina þannig að skilgreiningar á fjölmiðlum séu í takt við þann veruleika sem við lifum í nú.

Það er margt sem er undir, tjáningarfrelsið, frelsi til upplýsinga fjölmiðla, fjölmiðlalæsi, fjölbreytni í fjölmiðlum, neytendavernd, barnavernd, og svo mætti lengi telja, sem og auðvitað ákvæðin um gagnsæi, hugsanlegar reglur um eignarhald og ritstjórnarlegt sjálfstæði. En ég á von á því að þetta verði kynnt á haustmánuðum og vona að umræðan verði, eins og hv. þingmaður Guðlaugur Þór Þórðarson sagði, málefnaleg.