137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

vátryggingafélög.

131. mál
[15:40]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hér er ég komin til að bera loksins fram fyrirspurn sem ég lagði fyrir viðskiptaráðherra og þingið fyrir um það bil þremur mánuðum. Ég ætla að leyfa mér að lesa upp úr þingsköpum og þetta er kannski til marks um í hvaða óstjórn löggjafarþingið er hjá framkvæmdarvaldinu því að í 4. mgr. 49. gr. segir, með leyfi forseta:

„Fyrirspurn skal þó að jafnaði ekki tekin á dagskrá síðar en átta virkum dögum eftir að henni var útbýtt.“

Hér erum við að tala um þrjá mánuði og það er náttúrlega ekki boðlegt hvaða vinnuumhverfi þingmönnum er boðið upp á þar sem Alþingi sjálft, framkvæmdarvaldið, brýtur á þeim sjálfum. Þessir fyrirspurnatímar eru í eðli sínu þannig uppbyggðir að þeir eru til aðhalds fyrir framkvæmdarvaldið, til þess eru þeir. Þegar þingmenn biðja um skýrslur og annað er þetta til aðhalds fyrir framkvæmdarvaldið.

Nú ber svo við að ég er með fyrirspurn um vátryggingafélög og síðan sú fyrirspurn var lögð fram hefur heldur betur margt gerst því að fyrirspurnin hljóðar í megindráttum upp á það, í þremur liðum, hvort Fjármálaeftirlitið sé ekki að bregðast skyldum sínum þegar óstarfhæf tryggingafélög eru á markaði og eru starfrækt í skjóli Fjármálaeftirlitsins og á undanþágu þess.

Nú hefur það gerst síðan þessi fyrirspurn var lögð fram — hún sneri að tveimur fyrirtækjum og hæstv. viðskiptaráðherra fer yfir það í svari sínu á eftir og ég ætla ekki að eyða tíma mínum í að lesa upp spurningarnar, en á þessum tíma voru það tvö vátryggingafélög sem uppfylltu ekki þessar skyldur og störfuðu á undanþágu. Svo einkennilega vildi til að Ríkiskaup gerði samning í byrjun árs 2009 um allan tryggingapakka Landhelgisgæslunnar eins og hann leggur sig við annað félagið sem nú er komið í þrot og íslenska ríkið er búið að taka yfir. Í því tryggingafélagi voru eigendur búnir að ryðjast inn í bótasjóðina fyrir fleiri milljarða en samt voru það Ríkiskaup, sem er ríkisstofnun, sem gerði tryggingasamning fyrir ríkisfyrirtækið Landhelgisgæsluna á þessum forsendum. Þetta er svo alvarlegt mál og það er umhugsunarefni hvaða leið ríkið er að fara með tryggingar sínar. En það er kannski ástæða þess að ríkið brást þannig við þegar þetta fyrirtæki, Sjóvá–Almennar, fór í þrot og varð uppvíst að refsiverðri háttsemi, þá var farið inn í tryggingasjóðina.

Ég legg þessar spurningar fram. Almenningur getur nálgast þær á vef Alþingis en ég er orðin mjög langeygð eftir að heyra svör hæstv. viðskiptaráðherra og óska ég eftir að hann verði skýr í svörum sínum því að þetta er mikið hagsmunamál fyrir íslensku þjóðina.