137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

raforkukostnaður í dreifbýli.

122. mál
[16:00]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni fyrir fyrirspurnina og hæstv. iðnaðarráðherra fyrir góð svör vegna þessa gríðarlega mikla hagsmunamáls landsbyggðarinnar eða þeirra sveitarfélaga sem eru á köldum svæðum. Það eru 10% þjóðarinnar, þ.e. um 30 þúsund íbúar, sem búa á svæðum sem eru kynnt með olíu og rafmagni. Og bara til þess að varpa ljósi á hvað þetta er gríðarlega mikið hagsmunamál, kostar hver kílóvattstund í kringum 5 krónur úti á landsbyggðinni í dag fyrir utan niðurgreiðslur á meðan hún kostar 1,80 kr. hér í Reykjavík. Það sjá allir hversu gríðarlegt hagsmunamál þetta er.

Eftir að gjaldskráin var hækkuð, það er búið að hækka hana um 20% núna á síðustu átta mánuðum, er orðið ódýrara að kynda með olíu en niðurgreiddu rafmagni og það er mjög dapurlegt. Ég hvet hins vegar hæstv. iðnaðarráðherra til þess að halda áfram á sömu braut.