137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

raforkukostnaður í dreifbýli.

122. mál
[16:02]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Að mínu viti er þetta afskaplega brýnt mál og ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir þessa fyrirspurn. Ég vil taka fram að í mínum huga hefur hann alltaf verið vakinn og sofinn yfir hagsmunum landsbyggðarinnar og er það vel og til fyrirmyndar vegna þess að hér erum við að tala um grundvallarmál í byggðapólitískum skilningi. Ætlum við að láta það líðast að íbúar Reykjavíkursvæðisins séu jafnari gagnvart stjórnsýslunni en íbúar úti á landi?

Þessi fyrirspurn frá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni er ekki lítil og ég hvet þingmenn landsbyggðarinnar og aðra þingmenn hér til þess að leiða hugann að því hvort ekki eigi að gera rannsókn á því á vegum þingsins hvernig stjórnsýslan hefur mismunað þjóðinni í þessum efnum (Forseti hringir.) í öllu tilliti þegar öllu er safnað saman.