137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

áætlaður kostnaður við ýmis verkefni.

151. mál
[19:23]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra fyrir fyrirspurnina og svörin. Ef ég hef skilið svör hæstv. ráðherra rétt þá lagði hann tölu á a-lið 1. töluliðs fyrirspurnarinnar en ekki á neitt annað af því sem spurt er um. Í b-lið er spurt um viðbætur við velferðarkerfið, eins og kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum en ef ég skildi svar hæstv. ráðherra rétt er ekki lengur gert ráð fyrir neinum viðbótum við kerfið. Haldið er í við kerfið eins og það er, verið að reyna að halda því gangandi, sem er skiljanlegt í ljósi aðstæðna þannig að ég skil vel orð ráðherra varðandi það. Hins vegar er athyglisvert að þegar þessi stjórnarsáttmáli var gerður lá alveg ljóst fyrir að menn hefðu ekki efni á því að bæta við velferðarkerfið. Því er þetta staðfesting á að blessaður stjórnarsáttmálinn sem hér er til umræðu, og ég er ekki jafnáhugasamur um og hv. þingmaður, er mikið auglýsingaplagg.