137. löggjafarþing — 51. fundur,  13. ág. 2009.

horfur á vinnumarkaði.

[10:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Sú fyrirspurn sem ég ætla að beina til hæstv. ráðherra snýr að vinnumarkaðnum og tengist óneitanlega því sem þeir voru að ræða, hæstv. ráðherra og hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson. Ráðherra upplýsti okkur um að það væri alger óvissa í efnahagsmálum og það tengist því sem ég ætla að spyrja hann um, hvort ekki sé alger óvissa varðandi vinnumarkaðinn, varðandi stöðu vinnuveitenda á Íslandi, varðandi stöðu þeirra sem vinna hjá fyrirtækjunum. Mig langar að spyrja ráðherrann hvort hann sé ekki búinn að setja vinnu í gang til að kanna hvort hér sé gert ráð fyrir miklum uppsögnum, hópuppsögnum, á næstu mánuðum. Er hann búinn að setja sig í samband við t.d. 200 stærstu fyrirtækin hér á landi til að kanna hvernig staðan er hjá þeim? Er ráðherrann búinn undir uppsagnahrinu sem kann að verða í haust? Við vitum að fyrirtæki hafa verið að fleyta sér í gegnum sumarið, það hafa ekki verið miklar uppsagnir í sumar. Er ráðherrann búinn að gera ráðstafanir til að bregðast við eða er hann með eitthvert plan ef þessi staða skyldi koma upp varðandi uppsagnir? Er verið að meta hvaða áhrif það hefur t.d. á heimilin og þá stöðu sem hv. þm. Einars K. Guðfinnsson lýsti í ræðum sínum?

Ég velti því fyrir mér hvort það sé ekki jafnmikil óvissa í þessum málum hjá ríkisstjórninni og hæstv. ráðherra upplýsti að væri í efnahagsmálum. Er ríkisstjórnin ekki algerlega bjargarlaus þegar kemur að vinnumarkaðnum líkt og varðandi efnahagsmálin? Hvaða áætlanir eru í gangi? Hvað ætlar ráðherrann að gera ef upp kemur sú staða að hópuppsagnir verði í ágúst, september, október? Hvaða úrræði eru í pípunum? (Gripið fram í: Um það ríkir óvissa.) Um það ríkir nefnilega óvissa, hv. þingmaður, þakka þér fyrir og ég hef nefnilega grun um að það svar sem við fáum á eftir undirstriki að það ríkir alger óvissa eða þá að sú vinna sé ekki farin í gang. Það gæti verið búið að skipa nefnd, gera áætlanir, starfshóp eitthvað slíkt. (Gripið fram í.) — Einmitt, áætlun um að gera áætlanir. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Hvaða vinna er í gangi og hvað ætlar hann að gera?