137. löggjafarþing — 51. fundur,  13. ág. 2009.

tekjuskattur.

166. mál
[11:28]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrir það fyrsta þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir ræðu hans og hvað hann talar á jákvæðum nótum um það stjórnarfrumvarp sem hér er sett fram. Mér finnst hann hafa farið mjög vel í gegnum þetta. Það er óvenjulegt ástand á Íslandi og eins og hv. þingmaður talar um er mikilvægt að rannsaka hvað fór úrskeiðis og þess vegna er þetta mikilvæga frumvarp sett hér fram. Í raun og veru er eini ókosturinn og eini gallinn við það hvað það kemur seint fram vegna þess að eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði áðan: Þessar hugmyndir hafa verið til í skúffum á ákveðnum stað hér í Reykjavík, í stjórnkerfinu, en ekki komið fram fyrr en núna og það er vonum seinna.

Þess vegna ítreka ég það að ég þakka hv. þingmanni og reyndar hv. þm. Siv Friðleifsdóttur líka sem talaði um þetta í stuttu andsvari að mér fannst líka á mjög jákvæðan hátt. Þá er spurning mín nú til hv. þingmanns — vegna þess hvað hann talar jákvætt um þetta, hann er talsmaður Sjálfstæðisflokksins í efnahags- og skattanefnd og hefur flutt margar góðar ræður um þau mál — mitt erindi hér í stuttu andsvari við hv. þingmann er að spyrja hann að því út frá þeim jákvæða tóni sem hér hefur komið fram — nú er þetta frumvarp komið fram og fer beina leið til efnahags- og skattanefndar — hvort hv. þingmaður vilji ekki leggja því lið að þetta verði unnið mjög hratt, þó að ég geri mér grein fyrir að hv. þingmaður gagnrýni það stundum. Nú er þetta frumvarp komið fram, hér er sagt hvað við viljum gera, og þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að þetta fái skjóta afgreiðslu hér á Alþingi og við getum samþykkt þetta áður en þessu þingi lýkur. Spurning mín, virðulegi forseti, til hv. þingmanns er: Má ekki treysta á að hv. þingmaður verði jafnjákvæður í efnahags- og skattanefnd og leggi því lið að taka þetta sem allra hraðast hér í gegnum Alþingi en auðvitað með vönduðum vinnubrögðum?