137. löggjafarþing — 52. fundur,  17. ág. 2009.

gjaldfellingarákvæði Icesave-samninganna.

[15:15]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það eru geysilega ánægjuleg tíðindi að hæstv. fjármálaráðherra skuli viðurkenna að auðvitað væri fráleitt fyrir Breta og Hollendinga að ætla að skaða íslenskt efnahagslíf. Því hefur nefnilega verið haldið fram vikum og mánuðum saman og nánast hótað að ef Íslendingar gengju ekki að Icesave-samningunum nákvæmlega eins og þeir eru mundu Bretar og fleiri þjóðir hreinlega leggja íslenskt efnahagslíf í rúst. Þetta var hótunin sem hékk yfir þingi og þjóð og markaði mjög alla umræðu um þessa samninga og hefur gert okkur mjög erfitt fyrir um að ræða þetta á rökréttum nótum. Það er mjög gott að ráðherrann skuli þó gangast við því nú að auðvitað er ekki lógískt fyrir þessar þjóðir að leggja íslenskt efnahagslíf í rúst, sérstaklega ekki ef þau hafa ekki þau veð í íslenskum eignum sem þá þyrftu að koma í stað greiðslu sem samningarnir hefðu tryggt þeim ef ekki hefðu komið til fyrirvararnir.

En er ekki rétt þegar um svona mikla hagsmuni er að ræða, hugsanlega lán upp á 700 milljarða, að menn treysti ekki bara á að hlutirnir verði reknir í góðri trú heldur hafi líka vissu fyrir því að ekki sé hægt að gjaldfella lánið allt á Ísland?