137. löggjafarþing — 53. fundur,  17. ág. 2009.

laun forseta Íslands.

168. mál
[16:01]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér er lagt fram frumvarp til laga um breyting á lögum um laun handhafa forseta Íslands og launalækkun þeim til handa þegar forseti Íslands er ekki á landinu. Þetta eru afleysingaraðilar forsetans. Það vill þannig til að enn og aftur er verið að leggja til að samþykkt verði lög sem brjóta stjórnarskrána.

Það er afar einkennilegt að efnahags- og skattanefnd skuli leggja málið fram með þessum hætti þar sem það er alveg skýrt eins og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir kom inn á áðan að í síðasta málslið 9. gr. stjórnarskrárinnar kemur það skýrt fram að óheimilt sé að lækka greiðslur á kjörtímabili forseta, óheimilt að lækka greiðslur, sem leiðir líka hugann að því að eftir hrunið í haust fór hæstv. forseti sjálfur fram á að laun hans yrðu lækkuð til þess að hann gæti á einhvern hátt hjálpað til í þessu hruni. Og annað: Ég benti líka á — ég var ekki orðinn þingmaður þá — að forseti sjálfur gæti gefið ákveðinn hluta af sínum launum til góðgerðarmála í stað þess að leggja til við þingið að þingið mundi brjóta stjórnarskrá. Eftir þessu var farið. Laun forseta Íslands voru lækkuð í kjölfarið þvert á það sem kjararáð á að gera því að kjararáð á fyrst og fremst að ákvarða launakjör æðstu embættismanna þjóðarinnar.

Ég segi það enn og aftur að ég átta mig ekki á því á hvaða leið þessi ríkisstjórn er. Þetta er allt í einhverju ósamhengi. Þetta er tilviljunarkennt. Þetta eru örvæntingarfullar breytingar eins og til dæmis þetta: Sparnaðarupphæðin í þessu frumvarpi er 10 milljónir. Hvað hefur það að segja? Ekki nokkurn skapaðan hlut. Þarna er fyrst og fremst verið að reyna að afla sér vinsælda hjá þjóðinni. Enn á ný á að ráðast á laun opinberra starfsmanna. Það er mjög vinsælt hjá þessari ríkisstjórn að ráðast á laun og launagreiðslur opinberra starfsmanna. Það var ráðist á tólf einstaklinga, starfsmenn ríkisstofnana núna ekki fyrir svo löngu og bara sett á þá lög að þeir megi ekki hafa hærri laun en forsætisráðherra.

Frú forseti. Þetta frumvarp verður að fara aftur til efnahags- og skattanefndar og þessu ákvæði verður að breyta því ég kem aldrei til með að taka þátt í því að samþykkja lög á Alþingi sem brjóta gegn stjórnarskránni eða öðrum lögum.