137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:20]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef áður nefnt að ríkisstjórnarflokkarnir og Sjálfstæðisflokkurinn eru ekki sammála um túlkun á þessum samningi og þeim fyrirvörum sem er búið að gera tillögur að. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson er í þeim hópi sem lítur svo á að fyrirvararnir séu hluti af samningunum og rúmist innan þeirra. Þá vil ég benda honum á, með leyfi fundarstjóra, að samkvæmt grein 13.1.1 í breska samningnum er aðeins heimilt að gera breytingar á samningnum, bæta við hann eða falla frá samningnum með skriflegu samkomulagi milli samningsaðila.

Samkvæmt breskri réttarvenju er litið svo á að það eitt sem stendur í samningnum sé hluti af honum. Því spyr ég hv. þingmann: Lítur hann svo á að fyrirvararnir séu innan samninganna og standi sem slíkir, sem löggiltur hluti af Icesave-samningunum?