137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:05]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því sem hæstv. ráðherra sagði um að við ættum að horfa fram á veginn. Við höfum mörg hver talað fyrir því á undangengnum mánuðum að við ættum að gera það og horfa líka til þessara Icesave-samninga og þeirra galla sem þeir hafa óneitanlega borið með sér.

Við framsóknarmenn höfum aftur á móti legið undir því af hálfu hæstv. ráðherra að vera kallaðir svartnættismenn, að við ættum að gjöra svo vel og samþykkja þennan samning enda væri um glæsilega niðurstöðu að ræða og samninganefndin hefði náð mjög góðum árangri. Nú hefur annað komið á daginn.

Þetta er ekki nóg að okkar mati, við þurfum að gera betur. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann telji sanngjarnt eða ásættanlegt fyrir íslenska þjóð að hún eigi að greiða vexti frá og með síðustu áramótum vegna þessa samkomulags sem er upp á 25 þúsund millj. í dag, 25 milljarða kr. Hyggst hæstv. ráðherra styðja breytingartillögu okkar framsóknarmanna þess efnis að þessir vextir verði að sjálfsögðu ekki (Forseti hringir.) greiddir frá áramótum heldur frá 27. júlí?