137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:20]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þetta tækifæri til að fjalla um eftirstöðvarnar vegna þess að það þarf að vera alveg skýrt í afgreiðslu þingsins að það er ekki verið að veita ríkisábyrgð vegna þeirra. Það sem stendur út af umfram það hámark sem fjallað er um í breytingartillögunum nýtur ekki ríkisábyrgðar. Það þarf að koma sérstök ákvörðun Alþingis um að veita ríkisábyrgð vegna þess. Þetta er hámark ríkisábyrgðarinnar sem verið er að fjalla um. Allt sem er umfram nýtur ekki ríkisábyrgðar. Það er okkar skilningur.

Sé einhver vafi um þessa túlkun í þingsölum þá beini ég því mjög eindregið til fjárlaganefndarinnar að skýra orðalagið í breytingartillögunni betur vegna þess að þetta er slíkt grundvallaratriði í málinu. Þetta er slíkt grundvallaratriði að það skiptir í sjálfu sér ekki máli ef reynir á þetta þak hvort lánasamningarnir hefðu 10% vexti, 15, 20, 50% vexti, það skiptir engu máli vegna þess að við værum ekki að veita ríkisábyrgð vegna þess sem umfram er. Það skiptir þess vegna heldur ekki máli þó að ekkert heimtist upp í kröfu Landsbankans vegna þess að við erum ekki tilbúin til að greiða nema ákveðið hámark af vexti landsframleiðslunnar.