137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:46]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér fer fram 2. umr. um Icesave-samningana. Það má eiginlega segja að það sé svolítið skrýtið andrúmsloft í þingsalnum og á göngunum í dag því ég held að ég geti fullyrt fyrir hönd flestra þingmanna að hér er verið að ræða þetta með miklu óbragði í munni, mismiklu þó því að sumir eru ákveðnari í því að gangast undir þessa samninga en aðrir og höfum við framsóknarmenn tekið stöðu með íslensku þjóðinni í þessu máli því þetta er réttlætismál. Hér er verið að leggja til að ríkisvæða skuldir einkaaðila.

Þegar ég tala um að ríkisvæða skuldir einkaaðila þá á ég fyrst og fremst við að Tryggingarsjóður innstæðueigenda er rekinn á einkaréttarlegum grunni og það fyrirtæki sem ber sök á þessum greiðslum öllum og þessari ríkisábyrgð sem liggur fyrir þinginu var einkafyrirtæki.

Hér hefur verið komið aðeins inn á þrígreiningu ríkisvaldsins. Ég ætla svo sem ekki að fara að eyða orðum í út á hvað hún gengur en ljóst er að fyrir þinginu liggur samningur sem framkvæmdarvaldið hefur undirritað í þeirri von að löggjafinn komi til með að samþykkja ríkisábyrgð á þessum nauðasamningi. Ef allt fer á versta veg erum við að tala um hátt í 1.000 milljarða sem íslenska ríkið þarf að taka á sig. Þetta eru engar smáupphæðir.

Það versta í þessu er óvissan. Hún er svo mikil í þessum samningum að enginn hefur getað svarað því hvað hugsanlega fæst upp í þrotabú Landsbankans þegar upp verður staðið. Í upphafi var talað um að nást mundu 75% upp í þessar skuldir. Ég spurði á sínum tíma: Er þá ekki hægt að ganga þannig frá málum að Bretar og Hollendingar tæmdu innstæðutryggingarsjóðinn og tækju það sem hugsanlega er eftir af Landsbankanum erlendis og við veitum svo ríkisábyrgð fyrir restinni? Nei, það hentaði ekki Bretum og Hollendingum því þeir fóru af stað með samningaviðræður við Íslendinga. Á það hefur verið bent að sjálfsögðu að góðir samningamenn gera alltaf ýtrustu kröfur í upphafi. Þeim samningi sem var samþykktur af íslensku sendinefndinni var ekki breytt neitt og talið er að Hollendingar og Bretar hafi undrast það mjög að ekki fóru fram samningaviðræður því samningarnir eru svo ítarlegir og þeir eru svo kröfuharðir gagnvart íslensku þjóðinni að meira að segja var fullveldisafsalið afhent þeim. Mörg mistök hafa verið gerð á þessari leið sem við sitjum uppi með. En margir hafa líka talað mjög fyrir þessu samningi, að hann sé glæsilegur og góður fyrir íslensku þjóðina. Ég get því miður ekki tekið undir það því þegar samningarnir fengu loks að koma fyrir augu þingmanna og almennings var varla hægt að kalla þetta samninga, þetta var einhliða nauðung frá þeim aðilum sem átti að semja við.

Það er svolítið einkennilegt að standa frammi fyrir orðnum hlut en þrautseigja okkar í stjórnarandstöðunni og okkar framsóknarmanna leiddi til þess að nú er komin fram breytingartillaga við frumvarpið því eins og hefur komið fram er frumvarpið einungis tvær greinar og greinargerð. En nú eru sem sagt komnar fram þær breytingartillögur sem m.a. ég talaði fyrir sem ég fer yfir á eftir og eru þær til bóta fyrir frumvarpið. Það sem ég hef efast um síðan þetta kom inn á borð til okkar og hef verið að ræða í dag er þetta: Hvaða gildi hafa þessar breytingartillögur og hvernig eru þessar breytingartillögur túlkaðar?

Ríkisstjórnin vill meina að þessar breytingartillögur rúmist innan samningsins. Forsætisráðherra lét hafa eftir sér áðan að þetta væru varnaglar fyrir Breta og Hollendinga, hægt væri að fara með breytinguna þannig. Ég hugsaði bara með mér: Það er eins gott þeir frá framkvæmdarvaldinu sem fara og kynna þetta frumvarp, verði það að lögum, verði með það á hreinu hvað er verið að samþykkja því að meðan aðrir tala um skilyrði þá talar hæstv. forsætisráðherra um varnagla við frumvarpið. Þetta get ég ekki fallist á, frú forseti. Hér er einhver misskilningur á ferðinni eða þá að hér er raunverulega verið að blekkja okkur með því að þessar breytingartillögur séu ekki þær sem látið er í veðri vaka. Enda hefur það komið á daginn þegar gluggað er í breska samninginn, grein 13.1.1, og sambærilegt ákvæði er í hollenska samningnum, grein 12.1, að það stendur skýrum stöfum eins og ég hef sagt í dag í andsvörum og ætla að koma því inn í þessa ræðu, með leyfi forseta, að aðeins er heimilt að gera breytingar á samningnum, bæta við hann eða falla frá honum með skriflegu samkomulagi milli samningsaðila. Þetta er mjög skýrt. Hér er verið að segja að ekki megi breyta neinu, það má hvorki bæta við né draga úr og samningurinn stendur þá eins og hann kemur upphaflega til þingsins. Ýtrasta túlkun. Þess vegna er ég svo hrædd um að þessar breytingartillögur, þetta sem var kallað varnaglar, skipti engu máli. Hér er verið að eyða tíma þingsins, í raun og veru sé verið að setja þetta inn fyrir kurteisissakir því svo þegar á reynir þá gilda þær breytingartillögur ekki. Komist á ríkisábyrgð samkvæmt upphaflega frumvarpinu og verði frumvarpið að lögum þá er ljóst að ákvæðið í hollensku og bresku samningunum gengur út á það að um leið og samningurinn er samþykktur hér gilda um hann bresk lög og breskir dómstólar dæma í málum sem undir samninginn falla. Þarna er samninganefndin búin að semja það meira að segja af sér að hægt sé að höfða mál í íslenskri dómhá.

Í Bretlandi gilda önnur lög en hér á norrænu löndunum, svokölluð „common law“ sem ganga aðallega út á það að samningar skulu standa og samningum er ekki hægt að breyta og það sem stendur í samningi er það sem er dæmt eftir. Þess vegna er ríkisstjórnin á miklum flótta með það og fulltrúar stjórnarflokkanna sem ég hef verið að spyrja að því í dag hvaða tilgang þetta hafi. Það getur enginn svarað því. Ég hef spurt að því hvort hægt sé að fá skilning Breta og Hollendinga undirritaðan því eins og kemur fram í grein 3.1.1 á að vera skriflegt samkomulag á milli samningsaðila til að allir samningsaðilar skilji samninginn eins, svo hann taki gildi með vitund og sameiginlegri skoðun allra aðila sem að honum standa. Þessu hefur ekki verið svarað í dag en sem betur fer á málið að fara aftur til fjárlaganefndar til umræðu. Það eru mörg verkefni sem bíða fjárlaganefndar á milli 2. og 3. umr., svo sannarlega. 2. umr. er ekki nærri lokið þannig að ýmislegt á enn eftir að koma í ljós í kvöld þegar fólk fer að rýna meira í þetta. Ég vil taka undir orð hv. þm. Bjarna Benediktssonar þegar hann sagði að það væri alveg með ólíkindum hvað aðilar í íslensku samfélagi hafa verið tilbúnir til að aðstoða okkur þingmenn við að finna hina réttustu niðurstöðu og með það að markmiði að rétt niðurstaða náist í þetta mál. Eins og ég sagði áðan átti ekki einu sinni fyrst að kynna þetta, sýna samninginn. Það átti að fela það öðrum og þingmenn áttu að koma í skjóli nætur liggur við og fá að lesa samninginn yfir.

Það er annað sem hangir í grein 13.1.1 varðandi þetta skriflega samkomulag milli samningsaðila. Það er 6. gr. í breska og hollenska samningnum sem eru samhljóða. Þar er fjallað um ríkisábyrgðina og ég hvet þingmenn til að lesa vel yfir 6. gr. samninganna, hún er í mörgum liðum og það er þá sérstaklega aðallega grein 6.5, það er of langt mál að lesa hana upp hér en í 6. gr. er fjallað um að ríkisábyrgð er óafturkræf og skilyrðislaus og þá erum við komin með þetta á tvo staði í samningnum. En þetta segir okkur aftur það að breytingartillögur hafi ekki neitt að segja. Þeim verður ýtt út af borðinu, Bretar vilja fá ríkisábyrgðina, fara svo með þetta mál fyrir breska dómstóla og segja að íslensk lög og íslensk stjórnarskrá gildi ekki í Bretlandi. Þessar breytingartillögur eru tilgangslausar. Við höfum ríkisábyrgðina frá ykkur, kæru Íslendingar, og þannig stendur málið. Við skulum átta okkur á því hvað þetta er alvarlegt mál.

Ég gagnrýndi það mjög mikið í 1. umr. að friðhelgisréttur okkar væri fyrir borð borinn og ákvæðið um auðlindirnar í samningunum enda er þetta eins og ég segi nauðasamningur. Ég fer ekki ofan af því. Þetta er einhliða samningur þar sem hagsmunir þjóðarinnar eru algerlega fyrir borð bornir. Það er sama hvar gripið er niður í þetta frumvarp, þar sem samningarnir eru báðir inni, að þar er hvergi jákvæðan punkt að finna fyrir Íslendinga eða íslenska þjóð og alveg með ólíkindum að svona samningar skuli hafa verið undirritaðir, alveg með ólíkindum að framkvæmdarvaldið skyldi hafa tekið sér það vald að undirrita þessa samninga nánast blindandi. Ég fékk nokkuð skemmtilegar skammir fyrir að benda á friðhelgisréttinn. Hæstv. fjármálaráðherra ókyrrðist mjög er ég leiddi honum fyrir sjónir hvað það ákvæði þýddi að friðhelgisrétturinn væri ekki inni. Ég var talin fara með fleipur og sama má segja um hv. formann utanríkismálanefndar en nú hefur það komið í ljós á seinni stigum. Maður gefst ekki upp. Maður heldur áfram að benda á gallana. Maður má ekki gefast upp þegar maður hefur rétt fyrir sér og ef maður hefur tök á því að breyta einhverju.

Í þessum breytingartillögum er nú komið bæði ákvæði um stöðu Íslands sem fullvalda ríkis og að hvergi verði haggað við óskoruðum yfirráðum Íslands yfir náttúruauðlindum. Mér finnst það mikill áfangasigur fyrir mig að þetta skuli vera komið inn því með gagnályktun er hægt að segja að þarna sé ríkisstjórnin og meiri hluti Alþingis að viðurkenna að þessum réttindum hafi ekki verið sinnt í samningnum sjálfum og þessi réttindi ekki skjalfest þar. Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson hefur farið í gegnum það hvernig lagasetning fer fram og það er með því að til að hafa sem mest vægi verða ákvæði sem þessi að vera inni í frumvarpinu sjálfu en ekki að líta þurfi til nefndarálitsins sem lögskýringargagns. Auðvitað áttu þessi ákvæði að vera strax inni í samningnum. Annaðhvort hefur samninganefndin ekki áttað sig á hverju hún var að afsala sér og þá fjármálaráðherra í leiðinni um leið og hann ritaði undir samninginn eða þá að Bretar hafi ásælst þessi skilyrði svo mikið að samninganefndin hefur gefið það eftir, og væri gaman að fá að heyra það einhvern tíma en ég efast um að samninganefndin komi nokkurn tíma til með að viðurkenna það.

Ég rak í það augun í morgun þegar umræðan byrjaði og ég fór að glugga í nefndarálit frá 1. minni hluta fjárlaganefndar varðandi friðhelgisákvæðin, því að stjórnarandstaðan hefur verið mjög samstiga í þessu máli og er nokkuð vel samstiga enn þá þrátt fyrir að Framsóknarflokkurinn hafi einn staðið að því að skrifa ekki undir nefndarálitið, þá langar mig, með leyfi forseta, (Gripið fram í: Sjálfstæðisflokkurinn skilur það eftir …) nei, afsakið ekki nefndarálitið, það var tekið út úr nefndinni, afsakið. En, með leyfi forseta, langar mig að lesa og vitna beint í bls. 11 í nefndaráliti 1. minni hluta en þar segir:

„Vert er að benda á að samkvæmt breskum lögum um friðhelgi ríkja geta ríki afsalað sér friðhelgi á mjög víðtækan hátt með skriflegu samþykki og því allar líkur til þess að ákvæðið standist að fullu breska löggjöf.“

Í umsögn Seðlabanka Íslands kemur fram að til að reyna á ákvæðin um afsal friðhelginnar verði breskum lögum beitt. „Er það í samræmi við það að bresk lög gilda um samningana og öll mál sem þeim tengjast. Því yrði breskum lögum jafnframt beitt um fullnustu eigna íslenska ríkisins í breskri lögsögu.“

Þarna er verið að vitna í lög sem Bretar settu 1978 þar sem þeir gera hreinlega ráð fyrir því í sinni löggjöf að ríki afsali sér friðhelgisréttindum sínum. Þarna sá ég það svart á hvítu nú í morgun þegar þetta liggur fyrir, því ég sit ekki í hv. fjárlaganefnd og hef ekki haft aðgang að þeim gögnum sem þar liggja fyrir, að þetta ákvæði er með vilja inni í samningnum. Þetta ákvæði er með vilja inni í breska og hollenska samningnum því þessi mál á að reka fyrir breskum dómstólum. Þarna er samsærið komið og það skal enginn segja mér annað en það að Bretar hafi sett fram sínar ýtrustu kröfur í þessu máli. Út af því stendur ekkert um varnir fyrir íslenska friðhelgisréttinn í þessu frumvarpi. Breytingartillagan sem liggur hér fyrir á að redda einhverju. Íslensk stjórnvöld eru búin að viðurkenna að það vantar friðhelgisréttinn inn í frumvarpið. Breytingartillagan á að koma þar en alltaf kem ég aftur að sama punktinum sem ég hef bent á í allan dag með grein 13.1.1 í breska samningnum og grein 12.1 í hollenska samningnum: Samningnum verður ekki breytt nema það sé skriflegt samkomulag allra aðila sem að samningunum standa.

Það er mikið verk og ábyrgð sem liggur á fjárlaganefnd núna þegar þetta kemur fyrir. Þetta afsal á friðhelgisrétti Íslendinga, frú forseti, get ég ekki kallað varnagla eins og hæstv. forsætisráðherra lét hafa eftir sér áðan. Ef það er varnagli að afsala sér þessum réttindum og það er ekki inni í þessum samningum, þá er Evrópusambandið ansi dýru verði keypt og þá fer maður að spyrja sig: Hvers vegna var ekki gætt betur að hagsmunum Íslendinga en raun ber vitni? Hvers vegna lætur fjármálaráðherra ekki lesa þennan samning yfir af færum samningamönnum eftir að samninganefndin var búin að koma með hann heim? Hvernig getur hæstv. fjármálaráðherra sagt að þetta sé góður og glæsilegur samningur þegar Bretar hafa lög sem segja að hægt sé að rífa friðhelgisréttindi af heilli þjóð sisvona fyrir breskum dómstólum? Þetta er grafalvarlegt mál og þetta er verra og verra og verra eftir því sem maður kynnir sér málin betur. Mér finnst íslenska ríkisstjórnin vera komin algerlega út í horn í þessu máli. Hún stendur ein. Hún talar enn máli Breta og Hollendinga. Hér er verið að tala máli fjármagnseigenda og lánardrottna enn á ný. Hér er verið að koma okkur inn í nauðasamning. Það er mikil meðvirkni í gangi í þinginu. Mér finnst eins og allir séu að peppa sig upp við það að þetta séu góðir samningar og þetta er eitthvað sem við þurfum að gera til að hér fari allt af stað.

Það var líka sagt þegar Evrópusambandsaðild lá fyrir þinginu og við þyrftum að sækja um aðild að Evrópusambandinu svo vextir færu að lækka og stýrivextir og verðbólga að minnka. Það hefur ekkert gerst. Á ég að trúa því í þetta sinn að þó að Alþingi mundi samþykkja þennan nauðasamning að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn veiti okkur lán frekar en hann hefur gert? Ég trúi því ekki Það eru langtum fleiri ástæður fyrir því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur ekki veitt okkur lánið enn. Það má m.a. rekja til efnahagsástandsins. Það gengur ekkert að stofna bankana. Lífeyrissjóðirnir standa ekki eins vel og menn héldu o.s.frv. Þetta er búið að vera, eins og þessi ríkisstjórn er þekkt fyrir, byggt upp á hræðsluáróðri. Það er búið að hræða okkur með því að EES-samningurinn sé í uppnámi. Nú vill svo til að það kom fram í fréttum í gær að það eru frekar hinir sem koma til með að segja okkur upp samningnum af því að líklega er það komið í þann farveg að neyðarlögin standist ekki við EES-samninginn þannig að við vorum sjálf fyrst að brjóta hann. Ég hef enda viðrað þá skoðun að neyðarlögin hafi brotið EES-samninginn á þann hátt að hefta frjálst flæði fjármagns og loka íslenskt fjármagn inni og tryggja íslenska innstæðueigendur. En tími minn er á þrotum. Þetta voru þau orð sem ég vildi koma að í þessari umræðu.