137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[20:12]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur kærlega fyrir samstarfið við þetta mál. Það hefði verið óskandi að leitað hefði verið eftir þeirri samstöðu sem þingmaðurinn vann að fyrr.

Það sem mig langaði til þess að spyrja hv. þingmann að, sem áður hefur komið fram í umræðunum, varðar grein nr. 6.2, um ábyrgð og skaðleysi í Icesave-samningnum. Þar er tekið mjög skýrt fram að íslenska ríkið ábyrgist óafturkallanlega og skilyrðislaust að staðið verði við greiðslur á tilhlýðilegan hátt og á réttum tíma gagnvart hollenska ríkinu. Sagt er mjög afdráttarlaust að íslenska ríkið geti á engan hátt komið sér undan því að greiða það sem verið er að semja um, þ.e. endurgreiðslu á þessu láni. Með samþykkt ríkisins á þessum samningi sé raunar litið svo á að ríkið sé eins og frumlántakandi, að verið sé að lána ríkinu en ekki innstæðutryggingarsjóðnum. (Forseti hringir.) Taka þeir fyrirvarar sem nú er verið að leggja fram með breytingartillögu meiri hlutans, á þessu (Forseti hringir.) hvað varðar ábyrgð og skaðleysi?