137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[20:15]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að fá aðeins að ítreka þessa spurningu. Það kemur mjög skýrt fram í frumvarpinu, í e-lið 6.5 gr. að það sé „hvers konar breyting, aðilaskipti að kröfuréttindum (e. novation), viðbót við, rýmkun á, endurtekning (e. restatement) (óháð því hversu áríðandi það er eða þótt það sé meira íþyngjandi) eða skipti á einhverju fjármálaskjali, þ.m.t. (án takmarkana) hvers konar breyting á markmiði fjármálaskjalsins, rýmkun þess eða hækkun á láninu eða að fjármálaskjal bætist við, …“

Það er einnig talað um að eftirstöðvar eða niðurfelling gildi ekki.

Má ekki segja að þegar þingið verður búið að samþykkja ríkisábyrgðina með fyrirvörum sem samkvæmt ákvæðum samninganna eru einskis virði að þá verði hreinlega ekki mögulegt að ganga aftur til samninga eins og hv. þingmaður er að tala um og það verði ekki möguleiki á því að semja upp á nýtt? Væri þá ekki kannski mun eðlilegra að samþykkja frávísunartillögu framsóknarmanna og semja í framhaldinu af því upp á nýtt?