137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[11:02]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg greinilegt að heilaþvotturinn er algjör. Ég sé bara ekki hvað það er í fortíðinni sem getur leitt hv. þingmann til að draga þá ályktun að Bretar og Hollendingar muni sýna okkur einhverja sanngirni í þessu máli. Það væri ágætt að fá eitthvert dæmi um það á síðustu mánuðum að Bretar og Hollendingar hafi sýnt okkur einhverja sanngirni. En núna eigum við að fara að treysta á það að allt í einu muni Bretar og Hollendingar umturnast og fara að sýna okkur einhverja sanngirni í þessu máli. Ég verð bara að segja að mér finnst það mjög, mjög ólíklegt.

Ef við gefum okkur það að svo ólíklega verði að Bretar og Hollendingar verði tilbúnir að samþykkja þessa fyrirvara, þá mundi ég vilja heyra aðeins frá hv. þingmanni hvernig stendur á því að í 3. lið í breytingartillögum meiri hlutans er hvergi minnst á það að ríkisábyrgðin falli niður við lok samningstímans — það er ekkert orð um það — og að eftirstöðvarnar verði ekki greiddar. Það þurfti að spyrja hæstv. forsætisráðherra að því í gær þrisvar sinnum áður en við fengum það upp úr henni að hún teldi að eftirstöðvarnar ættu að falla niður. Þá spyr ég: Ef hún telur að svo sé, af hverju í ósköpunum má það ekki standa í lagatextanum sjálfum í staðinn fyrir að það þurfi að fara að fletta upp einhverjum ræðum til þess að fá það á hreint hvað við meintum?

Varðandi svo þessa mjög ágætu útfærslu verð ég samt sem áður að benda á að það kom ábending í umræðunum í gær um ákveðinn galla við hana. Það er talað um það að ef við lentum í þeirri aðstöðu að hér væri mikill hagvöxtur en lítill eða neikvæður viðskiptajöfnuður — og ég veit ekki betur en undanfarna áratugi hafi það verið hið eðlilega ástand í íslensku efnahagslífi að við höfum talið okkur vera með þokkalegan hagvöxt en lítinn eða mjög neikvæðan viðskiptajöfnuð — þannig að það yrði þá enginn gjaldeyrir til staðar fyrir íslenska ríkið til þess að borga þessar erlendu skuldbindingar. Hvað á ríkið að gera þá? Það væri mjög áhugavert að heyra það, (Forseti hringir.) og hvort það væri hugsanlegt, ef við værum með skuldaþolsviðmið AGS inni í þessum fyrirvörum, að það gæti tekið á þessu.