137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:24]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vissulega eru mörg sjónarmið og ólík uppi í þessu máli og vissulega kemur það fram í áliti 1. minni hluta í fjárlaganefnd að sjálfstæðismenn hafa ekki gefið frá sér þann rétt að koma með breytingartillögur eða samþykkja breytingartillögur sem þeim þykir vert að líta yfir á seinni stigum málsins. Ég útiloka því ekki neitt í þessu efni.

Hins vegar er gríðarlega mikilvægt að við fáum að klára efnislega umfjöllun um málið. Það er einfaldlega grundvallaratriði eftir alla þessa vegferð sem við höfum lagt í hér, þjóðin öll og þingið, að við klárum þetta, að við hendumst ekki núna til, af því að við erum búin að vera svo lengi, eins og það sé einhver kvóti á því hvað tíma á að gefa í þetta mál. Við tökum einfaldlega þann tíma sem þarf og ég tel að ég sem þingmaður þjóðarinnar eigi rétt á því að taka upplýsta ákvörðun.