137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:02]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Klukkan var byrjuð áður en ég mætti á svæðið. Það er ekki gott ef byrjað er á að snuða mann um tíma. (Gripið fram í.) Já, þetta er að verða grunsamlegt.

Virðulegi forseti. Hér er verið að ræða um grafalvarlegt mál eins og við vitum sem er búið að taka langan tíma. Ég tek undir með hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur að fjarvera stjórnarliða er mjög áberandi í þessu máli. Nú var það þannig að hæstv. fjármálaráðherra viðhafði mjög stór orð þegar hann var í stjórnarandstöðu um það þegar ráðherrar voru ekki viðstaddir umræður. En ég man ekki eftir því að það hafi einu sinni komið upp að þeir sem töluðu fyrir málum innan þingsins væru ekki viðstaddir þegar vinstri flokkarnir voru í stjórnarandstöðu. Virðulegur forseti. Ég man ekki eftir því en ég vek athygli á því að hér er hvorki formaður né varaformaður þeirrar nefndar sem um þetta mál fjallar. Þetta er nýlunda og ætti kannski ekki að koma á óvart miðað við hvernig framkvæmdin hefur verið á þeirri umræðu hjá vinstri flokkunum um það að virkja þingið betur, ná betri samstöðu, hafa opnari og gegnsærri vinnubrögð. Í reynd hefur þetta verið innihaldslaust tal og við erum að sjá það eins og t.d. í þessu stóra máli sem er eitt stærsta hagsmunamál þjóðarinnar. Látum vera að ekki séu einu sinni hæstv. ráðherrar á svæðinu en að þeir hv. þingmenn sem bera ábyrgð á málinu í þinginu séu ekki viðstaddir umræðuna segir sína sögu.

Við erum að ræða mál sem á sér nokkuð langa forsögu og það hafa margir sagt, virðulegi forseti, að sumarið 2009 hafi verið sumarið sem hvarf. Ef ég man rétt ætluðum við að klára þetta þing fyrir 17. júní og ef ég man rétt, virðulegi forseti, ætlaði ríkisstjórnin að klára mál í sumar sem ríkisstjórnin hafði ekki klárað þegar hún tók við 10. maí og sneri að heimilunum og fjölskyldunum og fyrirtækjunum í landinu og hétu bráðaaðgerðir. Ég vil koma þessu að, virðulegi forseti, vegna þess að sú staða sem er komin upp varðandi heimilin í landinu í dag er alveg gríðarlega alvarleg. Það er afskaplega dapurlegt svo ekki sé dýpra í árinni tekið hvernig haldið hefur verið á málum í þinginu og það er hrikalegt að við höfum ekki nýtt þennan tíma betur en raun ber vitni. En ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það, virðulegi forseti, heldur fara aðeins í það mál sem er til umræðu.

Tíminn líður svo hratt og það er þannig með þetta mál að þegar maður er spurður hver sé staða þess þá getur maður í rauninni lýst því með punktstöðu. Það er einhver staða í málinu nákvæmlega meðan maður á viðkomandi samtal. Það getur verið komin ný staða eftir klukkutíma eða hálftíma og við þingmenn vitum ekkert hvað vikan ber í skauti sér og í rauninni ekki einu sinni dagurinn. Ég veit t.d. ekki frekar en aðrir þingmenn hvernig mál munu þróast á næstu klukkutímum. Þetta heitir á íslensku stjórnleysi. Hér er algert stjórnleysi. En það er ágætt, virðulegi forseti, að rifja upp hvernig þetta mál kom inn í þingið. Ég ætla ekki að fara í það sem menn hafa gert hvað eftir annað að rifja upp forsögu málsins frá síðasta hausti. Ég ætla að rifja það upp hvernig þetta kom okkur fyrir sjónir, bæði þingmönnum og almenningi, þjóðinni, í hádegisfréttum þann 5. júní á þessu ári þegar hæstv. forsætisráðherra talaði við fréttamenn og, með leyfi forseta, ætla ég að lesa þessa stuttu frétt. Þar segir:

„Forsætisráðherra segir lausn á Icesave-deilunni í sjónmáli og þar með gríðarlega mikilvægt skref í deilunni sem báðir aðilar geti fallist á. Hugsanlegt er að eignir Landsbankans geti gengið að fullu eða farið langleiðina upp í skuldina sem er 680 milljarðar.“ — Ég endurtek: Hugsanlegt er að eignir Landsbankans geti gengið að fullu eða farið langleiðina upp í skuldina sem er 680 milljarðar. — „En þó liggur það ekki ljóst fyrir en ríkisábyrgð mun þurfa að liggja fyrir útgáfu skuldabréfs. Icesave-málið var rætt í ríkisstjórn í morgun og á fundi stjórnar sem nú stendur yfir. Það var sömuleiðis rætt í utanríkismálanefnd Alþingis í morgun og hlé var gert á þingfundi svo allir þingflokkar gætu fundað vegna málsins.“

Virðulegi forseti. Fleiri viðtöl voru sambærileg við hæstv. forsætisráðherra sem á þeim tíma kom einfaldlega með þessi skilaboð: Það er búið að redda þessu máli. Það er bara búið að redda þessu. Þetta er ekkert vandamál lengur.

Tveim dögum áður en þessi frétt birtist hafði hæstv. fjármálaráðherra verið í þinginu og útskýrt það fyrir fyrirspyrjanda, formanni Framsóknarflokksins, að það væri ekkert að gerast í þessu máli og fullvissaði þingheim um að það mundi ekkert gerast á morgun eða á næstu dögum og það væri nokkuð langt í það að eitthvað mundi verða í þessu máli.

Í kjölfarið varð mikill hamagangur í þinginu og á þessum föstudegi þegar við hlustuðum, þingmenn sem og þjóðin, á viðtalið við hæstv. forsætisráðherra fórum við fram á það að fá útskýringar í þinginu. Það gekk mjög illa svo ekki sé dýpra í árinni tekið og það var síðdegis þann dag, ef ég man rétt, sem hæstv. fjármálaráðherra kom og svaraði nokkrum spurningum. Seinna um kvöldið var skrifað undir samninginn. Það sem komið hefur í ljós síðan er að allt það sem hér var sagt, þ.e. kynning forsætisráðherra á málinu er langt frá því að vera í takt við raunveruleikann. Það er langt frá því að þessi samningur sé eins og hæstv. forsætisráðherra lagði upp með, að hér væri um að ræða einhverja lágmarksáhættu fyrir íslenska ríkið og það væru allar líkur á því að eignir Landsbankans mundu duga upp í þennan samning. Það vitum við öll. Þá hefur það einnig komið fram, sem kom mér mjög á óvart, að allar yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra um að ríkisstjórnin styddi þetta mál eiga ekki við rök að styðjast. Það hefur komið í ljós að í þessu máli, sem menn telja eitt stærsta mál í sögu þingsins, kannski það stærsta, þá keyrði hæstv. forsætisráðherra málið inn í þingið með fulltingi hæstv. fjármálaráðherra án þess að fá stuðning ríkisstjórnarinnar fyrir því. Ég verð að viðurkenna, virðulegur forseti, og kannski er það bara vegna þess að það er svo margt í gangi, að mér finnst algerlega furðulegt að þetta mál, þessi vinkill á málinu sé ekki í umræðunni.

Nú er það þannig að almenna reglan er sú að sama hvernig mál eru, það þarf að nást samstaða um þau í viðkomandi ríkisstjórn. Þetta risamál er undantekningin. Það átti að valta yfir hæstv. heilbrigðisráðherra. Það er algjörlega ljóst að hann hefur aldrei stutt þetta mál. Sem betur fer, virðulegi forseti, hefur þó hæstv. heilbrigðisráðherra staðið í lappirnar í þessu máli og ég vona að hann geri það áfram vegna þess að málinu er ekki lokið. En þetta er væntanlega einhvers konar verkstjórn sem menn hafa verið að kalla eftir af hálfu vinstri flokkanna í landinu. Það er rétt sem hér hefur komið fram að það er afskaplega mikilvægt og væri mjög æskilegt að hér næðist þverpólitísk samstaða í þessu máli. Það væri mjög æskilegt í þessu mikla deilumáli sem við eigum við þær þjóðir sem við erum í mestum samskiptum við að við værum einhuga og stæðum saman. En því miður hefur stýringin á málinu verið þannig að í rauninni hefur allt verið gert til að koma í veg fyrir að samstaða næðist. Við sjálfstæðismenn höfum hins vegar, og þannig hefur stjórnarandstaðan í það heila starfað, unnið að því að reyna að breyta málinu og gera það þannig úr garði að það valdi sem minnstum skaða. Við höfum heyrt það, virðulegi forseti, hvað stjórnarliðar gera til að ná þessari samstöðu. Við heyrðum það núna síðast í morgun þegar hv. þm. Björn Valur Gíslason sagði, með leyfi forseta:

„Það er rétt að sá skilningur sem ég hef á þessu máli komi fram með skýrum hætti af minni hálfu og á þeim breytingartillögum sem lagðar eru fram við frumvarp fjármálaráðherra um ríkisábyrgðina vegna þess að mér hefur fundist vera misskilningur á ferðinni hvað það varðar, að þeir samningar sem gerðir voru við Hollendinga og Englendinga og undirritaðir í byrjun júní standa enn, það hefur ekki eitt einasta orð breyst þar. Þeir standa algjörlega óhreyfðir, hvert einasta orð, frá upphafi til enda. Samningunum hefur ekki verið breytt með nokkrum einasta hætti og engar þær breytingar sem lagt er til að verði gerðar á frumvarpinu hreyfa við samningunum, þær breyta ekki samningunum. Ríkisábyrgðin mun eftir sem áður ná til höfuðstóls þeirra lána sem um ræðir á milli Íslands og Hollands auk vaxta. Það hefur ekki breyst í meðförum nefnda, um það snýst ríkisábyrgðin, um að ríkið ætlar að ábyrgjast greiðslur á heildarláninu eins og það stendur á 1. gjalddaga til lokadags. Það hefur ekkert breyst í því, það er engin breyting á því í meðförum fjárlaganefndar eða annarra nefnda. Það stendur óbreytt í frumvarpinu, þannig að það sé alveg á hreinu hver skilningur minn er hvað það varðar.“

Virðulegi forseti. Þetta segir varaformaður hv. fjárlaganefndar. Ég held að ef einhverjir aðrir hefðu ætlað að reyna að koma ófriði í málið hefði ekki verið hægt að ná því betur upp en hv. þingmaður gerði, það hefði ekki verið hægt að ná því betur upp. Það er ekki hægt að orða það betur. Það sem ég er að segja, virðulegi forseti, er að allt það sem hefur verið gert, allir fyrirvarar sem settir hafa verið fram, ekki til að róa áhyggjur stjórnarandstöðunnar heldur til að gæta hagsmuna Íslands, til að sannfæra íslenska þjóð um að við séum að vinna af alvöru að koma í veg fyrir stórslys, þeir skipta engu máli. Það er það sem hv. þingmaður sagði. Því miður er það í anda þess sem forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa sagt og látið hafa eftir sér. Og þá rennur kalt vatn milli skinns og hörunds þess sem hér stendur og örugglega fleiri.

Virðulegi forseti. Ekki aðeins er það þessi ræða, þó að hún hafi verið þess eðlis að ekki var hægt annað en minnast á hana, það hefur ekki bara verið það sem hefur gert það að verkum að menn hafa í rauninni reynt að ala á ófriði, meiri hlutinn hefur reynt að ala á ófriði eins og hægt er, sumpart vegna þess að þeir höndla mál illa, ekki bara þetta mál heldur erum við að sjá ríkisfjármálin, við erum að sjá það sem snýr að heimilunum og fyrirtækjunum að menn eru ekki að höndla þetta. Menn eru í einhverri þórðargleði að reyna að snúa þessu máli upp í einhvern meintan hugmyndafræðilegan sigur, gamaldags sósíalisma sem hefur hvergi gengið upp. Ósvífnin hjá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar er slík að það er með miklum endemum.

Hv. fyrrverandi þingmaður, Kristinn H. Gunnarsson, rifjaði upp hvernig þetta mál er til komið. Það er nefnilega þannig að fjármálakerfi okkar er allt partur af EES-samningnum. Það eru engar íslenskar uppfinningar í því. Ég hvet aðila til að skoða hvað sagt er í framsöguræðum þegar verið er að breyta lögum um fjármálastarfsemi á Íslandi og hvað gerðist í kjölfar EES-samningsins. Þá er alltaf um það að ræða að menn á þinginu taka upp tilskipanir Evrópusambandsins. Það er það sem við undirgengumst þegar við gengum í Evrópska efnahagssvæðið. Þess vegna er fjármálaeftirlit á Íslandi og í öðrum löndum. Þess vegna er innstæðutryggingarsjóður á Íslandi og í öðrum löndum. Það er ekki þannig að allar þjóðirnar hafi fengið hugmyndina á sama tíma. Það er ekki þannig. Það er sama umhverfi í hverju landi fyrir sig. Nú vitum við það, þess vegna settum við rannsókn af stað, að hér var víða pottur brotinn hvað varðar fjármálakerfið á Íslandi eins og í mörgum öðrum löndum og við eigum hvergi að hika við að skoða það mál og þeir sem bera ábyrgð þar verða eðli málsins samkvæmt að sæta þeirri ábyrgð. En ef menn tala um það og vilja greina kjarnann, af hverju erum við í þessu máli? Þá er það hreint og klárt hvort sem mönnum líkar betur eða verr, þá er það vegna Evrópureglna. Annaðhvort voru þær meingallaðar eða hitt að í því eftirliti sem við settum á laggirnar stóðu menn ekki sína plikt.

Virðulegur forseti. Af því að hér kalla menn á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins þá er það svo að við erum eini flokkurinn sem hefur farið í naflaskoðun og skoðað hjá okkur það sem miður fór, en þannig er að á síðustu 18 árum höfðum við ekki bankamálaráðuneyti eina einustu mínútu. Það er rétt sem hér hefur komið fram að ef menn taka Icesave sem er umræðan hér þá var vöxturinn í Icesave allur á vakt Samfylkingarinnar. Allur. Það var ekki aðeins að Samfylkingin væri með bankamálaráðherrann heldur var það einn helsti hugmyndafræðingur Samfylkingarinnar, fyrrverandi ráðherra fyrir Alþýðuflokkinn, sem stýrði stjórn Fjármálaeftirlitsins.

Nú er sjálfsagt, virðulegi forseti, að fara vel yfir það sem miður fór. En ég hafna öllum þeim einföldu lausnum þessarar vinstri stjórnar sem í vandræðagangi sínum reynir að beina athyglinni frá því sem við eigum að vera að gera yfir í vægast sagt tæpar söguskýringar og það er í rauninni pínlegt þegar hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar fara að kynna stjórnmálakenningar og sérstaklega áhugavert þegar þeir tala um nýfrjálshyggju og frjálshyggju. En auðvitað er það ekki stóra einstaka málið. En ég verð, virðulegi forseti, vegna þess að ég er alveg búinn að fá nóg af að hlusta á þá aðila sem bera hvað mesta ábyrgð — og Vinstri grænir bera svo sannarlega ábyrgð líka, þeir sáu þetta ekki fyrir og höguðu sér með þeim hætti að þeir geta ekki komið hér og verið eins og hvítþvegnir englar þegar að þessu máli kemur, allra síst þar sem þeir tóku málið algerlega í sitt fang pólitískt. Og þó að sjálfsagt sé og eðlilegt, og það viljum við gera, að aðstoða aðila við að vinna úr þessu þá verða menn, virðulegi forseti, að vera sjálfum sér samkvæmir ef þeir vilja ná breiðri pólitískri sátt og ef menn vilja leysa þetta mál. Þannig höfum við sjálfstæðismenn unnið í þessu máli og munum halda því áfram og ég hvet hv. stjórnarliða til að vinna þetta með okkur. Við skulum ekki flýta okkur of mikið. Hagsmunirnir eru allt of stórir og allt of miklir og það væri afskaplega æskilegt ef við gætum staðið undir því trausti sem þjóðin sýnir okkur og unnið þetta saman hér á þinginu þjóðinni til heilla.