137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:57]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er sjálfsagt að svara hv. þingmanni um það að við töldum að úttekt Seðlabankans gæfi býsna glögga mynd af því hvað til þyrfti og áttum ekki aðild að því að kalla eftir áliti Hagfræðistofnunar enda tel ég ekki að það hafi efnislega breytt í neinum meginatriðum efni máls. Við sögðum síðan í umsögn okkar, eins og ég rakti í fyrra svari mínu við andsvari hv. þingmanns, að fjárlaganefnd ætti að taka til athugunar hvort hægt væri að setja efnahagslegan fyrirvara við málið. Við höfðum ekki fjallað um hina lögfræðilegu hlið málsins, enda ekki til þess bær og því varð fjárlaganefnd að leggja mat á það hvort lögfræðilega væri hægt að setja efnahagslegan fyrirvara og hin efnahagslega forsenda væri 3% hagvöxtur á ári í 15 ár. Það er sú forsenda sem hv. fjárlaganefnd vinnur út frá í þeim fyrirvörum sem hún hefur gert.