137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:03]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir ræðu hans. Mig langar að spyrja hann vegna þess að hann ræddi hér um þetta margfræga sjö ára skjól sem stjórnarliðar tala um þegar þessi samningur er til umræðu. Það er greiðslufrestur í sjö ár, okkur ber ekki að greiða fyrr en eftir sjö ár og margir tala um að við séum í skjóli.

Ég spyr hv. þingmann: Telur hann að þeir vextir sem við greiðum árlega sem hljóða upp á 25–30 milljarða frá og með 1. janúar, séu skjól sem hv. viðsemjendur okkar hafi veitt íslenska ríkinu? Ef um er að ræða 25 milljarða í vaxtagjöld eru þetta 175 milljarðar á sjö árum. Ef um er að ræða 30 milljarða í vaxtagjöld, eins og sumir vilja meina, eru þetta 210 milljarðar sem við þurfum að greiða í vexti vegna þessara samninga og menn tala um að íslensk þjóð sé í skjóli. Hvernig getur hv. þingmaður (Forseti hringir.) talað um skjól í þessu tilviki?