137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:22]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við ræðum hér hið svokallaða Icesave-mál sem er eitt stærsta mál sem hefur komið inn í þingsali á Alþingi Íslendinga í sögu lýðveldisins. Það er vægt til orða tekið að tala um það að hér sé um dapurlegt mál að ræða og það í fleiri en einum skilningi þess orðs, vegna þess að það er skelfilegt að hugsa til þess hvaða skuldbindingar íslenska þjóðin er að takast á hendur í kjölfar útrásar Landsbankans og þeirra málalykta sem urðu í þeirri viðskiptaferð.

Í annan stað, og þess verður í þingsögunni minnst, er það dapurlegt að horfa til þess hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur hagað störfum sínum í þessu máli. Í raun og veru stendur ekki steinn yfir steini þar. Hæstv. fjármálaráðherra hefur því miður brugðist trausti mínu í þessu máli oftar en einu sinni og ég man eftir mörgum umræðum hér á vettvangi Alþingis þar sem hæstv. ráðherra vó með mjög harkalegum hætti að málflutningi okkar framsóknarmanna þegar kom að þessu máli og talaði um að framsóknarmenn ættu að horfa fram á veginn, framsóknarmenn væru úrtölufólk og þjóðin þyrfti í raun og veru ekki á slíkum stjórnmálamönnum að halda. Efnislega var þetta innihald málflutnings hans þegar við framsóknarmenn gagnrýndum harðlega mörg efnisákvæði þessa samnings.

Skilaboð stjórnarinnar voru þau að hér væri um glæsilega niðurstöðu að ræða og að við ættum að samþykkja þessa samninga eins og þeir litu þá út. Glæsileg niðurstaða. Margir þingmenn, stjórnarliðar, lýstu yfir eindregnum stuðningi sínum við þessi samningsdrög jafnvel þó að þeir hefði ekki séð þau einu sinni. Það er kannski vert að ræða um ábyrgð þingmanna þegar kemur að máli sem þessu að menn skuli yfir höfuð voga sér að lýsa yfir skilyrðislausum stuðningi við eitthvert mál sem þeir hafa ekki kynnt sér til hlítar, sérstaklega mál sem varðar hagsmuni ekki bara þeirrar kynslóðar sem lifir hér á landi í dag heldur til óborinna Íslendinga og þeirra kynslóða sem munu erfa landið. Ábyrgð þingmanna, sama hvar í flokki þeir standa, er mikil í þessu máli og því miður hafa margir þingmenn stjórnarmeirihlutans fallið á því prófi að vera ábyrgir í afstöðu sinni því að sjálfsögðu var ekki hægt að taka afstöðu til þessara samninga að óathuguðu máli.

Frú forseti. Við horfðum upp á það á vettvangi þingsins þegar hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kom hér upp á miðvikudegi og spurði hæstv. fjármálaráðherra út í það hvort það væri eitthvað hæft í þeim sögusögnum að verið væri að ganga frá Icesave-samningunum. Við hlustuðum á svar hæstv. ráðherra héðan úr ræðustól Alþingis þar sem hann sagði nei, engar formlegar samningaviðræður ættu sér stað, en það var búið að ganga frá og skrifa undir samkomulagið á laugardeginum í sömu viku. Þetta segir manni að íslensk stjórnvöld hafa ekki komið hreint fram, hvorki við okkur í stjórnarandstöðunni hér á Alþingi né við íslenska þjóð og marga aðila í samfélaginu sem eiga þakkir skildar fyrir að halda uppi mjög málefnalegri umræðu um þessa Icesave-samninga og hvaða áhrif þeir geta mögulega haft á íslenskt þjóðfélag til lengri tíma litið.

Það kom þó að því að málið var lagt fram á Alþingi Íslendinga en við höfum þurft að toga upplýsingar upp úr stjórnvöldum í þessu máli ítrekað, höfum þurft að horfa upp á það að samningunum var lekið til fjölmiðla og þeir voru fyrst birtir þar. Þar horfðum við alþingismenn á innihald samningsins eins og þjóðin öll. Ég held að það hafi í raun og veru aldrei staðið til að birta allar upplýsingar málsins eins og ríkisstjórnin neyddist síðan á endanum til.

Þegar málið kom til umfjöllunar þingsins var því vísað til fjárlaganefndar Alþingis sem fól utanríkismálanefnd og efnahags- og skattanefnd að fara yfir einstaka þætti þess. Ég á sæti í efnahags- og skattanefnd, sem var falið það mikilvæga verkefni að fara yfir grundvöll þessara samninga út frá efnahagslegum forsendum. Það var vissulega farið yfir þau mál á mörgum fundum en síðan var skyndilega ákveðið af hálfu meiri hluta efnahags- og skattanefndar að málið yrði tekið út án þess að nefndin hefði kannað til hlítar hvaða áhrif þessir samningar mundu hafa á efnahag landsins til framtíðar litið. Við óskuðum eftir því að efnahags- og skattanefnd tæki hlutverk sitt alvarlega og fengi álit óháðra aðila, sérfræðinga, er varðar forsendur útreikninga fjármálaráðuneytisins sem hélt því fram að óbreyttir samningar mundu ganga upp efnahagslega og við gætum vel staðið undir þessum skuldbindingum, þrátt fyrir að margir málsmetandi hagfræðingar í samfélaginu hefðu bent á annað.

Ósk okkar í stjórnarandstöðunni, minni hlutanum í efnahags- og skattanefnd, um að nefndin léti gera óháða úttekt á þessu, var hafnað. Það var þar af leiðandi ekki auðvelt að skila fullnægjandi áliti til fjárlaganefndar um það frumvarp sem við ræðum hér og skilaði ég séráliti þar sem ég gerði grein fyrir því að við hefðum því miður ekki fengið tækifæri til þess í nefndarstarfinu að ráða til okkar óháða sérfræðinga sem hefðu lagt mat á það sem efnahags- og skattanefnd var falið að gera. Sem betur fer ákvað fjárlaganefndin öll í framhaldinu að leita til Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um að gera úttekt á þessum samningi og hvaða efnahagslegu áhrif hann mundi hafa. Það var gagnlegt að mínu viti því að þá kom í ljós, og reyndar eftir úttektir fleiri hagfræðinga, að einfaldlega stóð ekki steinn yfir steini í útreikningum fjármálaráðuneytisins þegar kom að því að meta það hvort íslenskt samfélag gæti til framtíðar litið staðið undir þeim gríðarlega miklu skuldbindingum sem blasa við okkur.

Ég ætla svo sem ekki, í ljósi þess hversu ítarleg umræða hefur verið um þær tillögur sem meiri hluti fjárlaganefndar hefur lagt fram, að ræða þær sérstaklega. Mínir ágætu félagar í þingflokki Framsóknarflokksins hafa gert það en svo ég nefni nokkra hluti er snerta upphafleg áform ríkisstjórnarflokkanna þá var gert ráð fyrir verulegri fólksfjölgun hér á landi í þeim viðmiðunum sem fjármálaráðuneytið gerði um þær framtíðarskuldbindingar sem landið var að undirgangast. Ég vil minna á að í fréttum nú á dögunum kom ljós að í fyrsta skipti í 120 ár fækkaði Íslendingum og við höfum horft upp á það, held ég allir þingmenn og allir þekkja einhverjar sögur af því, að margt gott fólk er nú að hverfa til starfa á erlendri grundu og þá kannski ekki hvað síst á Norðurlöndunum sem hefur áhrif á framtíðarhagvöxt þjóðarinnar sem er náttúrlega ein af grundvallarbreytum þegar kemur að útreikningum hvernig þjóðarbúið getur staðið undir þessum miklu skuldbindingum.

Við framsóknarmenn höfum haft ákveðna sérstöðu í þessu máli og mér líður í raun og veru ekkert illa með þá sérstöðu sem flokkurinn hefur markað í þessu máli. Framsóknarflokkurinn hefur verið nefndur af forustumönnum þessarar ríkisstjórnar úrtöluflokkur, fólk sem hefur allt á hornum sér en það hefur komið í ljós að sú málefnalega gagnrýni sem Framsóknarflokkurinn, og ekki bara Framsóknarflokkurinn heldur málsmetandi aðilar út um allt samfélag hafa viðhaft á undanförnum vikum og mánuðum, hefur átt við rök að styðjast. Því miður gat Framsóknarflokkurinn ekki staðið að því að taka málið í skjóli nætur út úr efnahags- og skattanefnd aðfaranótt síðasta laugardags. Ég held að það hafi komið í ljós í þessari umræðu að menn hefðu jafnvel átt að taka sér einhverja daga til viðbótar til að fara yfir þá sameiginlegu lausn sem þingflokkar stjórnarinnar, stjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Borgarahreyfingar komust af þá nótt. Þegar við höfum hlustað á þá umræðu sem hér hefur farið fram er alveg ljóst að sjálfstæðismenn annars vegar og stjórnarliðar hins vegar meta niðurstöðu nefndarinnar með ansi ólíkum hætti. Sjálfstæðismenn tala fyrir því að í raun og veru þurfi að hefja nýjar samningaviðræður á meðan stjórnarliðar tala fyrir því að þau skilyrði eða ákvæði eða fyrirvarar sem settir voru rúmist mjög ágætlega innan núverandi samninga. Í morgun kom það síðan í ljós þegar varaformaður fjárlaganefndar hélt ræðu og talaði um að þessir fyrirvarar breyttu í raun og veru engu. Það var alveg ljóst að það er grundvallarmunur á afstöðu sjálfstæðismanna annars vegar innan nefndarinnar og stjórnarmeirihlutans hins vegar og því hefðu menn átt að gera sér grein fyrir áður en þetta mál var tekið út úr fjárlaganefnd aðfaranótt laugardagsins.

Ég velti því fyrir mér hver raunveruleg staða þessa máls sé, sérstaklega eftir útspil hv. þm. Björns Vals Gíslasonar, varaformanns fjárlaganefndar, í morgun sem ég vil meina að geti í grundvallaratriðum stefnt í hættu þeirri „sátt“ sem menn töldu að hefði verið komin í þessu máli. Ég ætla ekki að kveinka mér undan því, frú forseti, þó ég þurfi að standa í ræðupúlti Alþingis í einhverjar vikur til viðbótar og funda í nefndum Alþingis um það mikilvæga mál sem við ræðum hér. Ég ætla ekki að kveinka mér undan því vegna þess að við erum að tala um stærstu skuldbindingu sem íslensk þjóð hefur nokkurn tíma undirgengist. Ef alþingismenn eru ekki kjörnir hingað á Alþingi Íslendinga til að taka yfirvegaðar og upplýstar ákvarðanir í máli sem þessu þá eru þeir einfaldlega ekki starfi sínu vaxnir. Það var ansi merkilegt í ljósi þess að „þverpólitískur“ meiri hluti var kominn innan fjárlaganefndar, að undanskildum okkur framsóknarmönnum, á laugardaginn að lesa í framhaldinu fréttir sérstaklega í Fréttablaðinu um að Framsóknarflokkurinn væri búinn að mála sig út í horn í þessu máli. Það verður fróðlegt að lesa umfjöllun Fréttablaðsins í framhaldi af þeirri umræðu sem hefur verið í dag og í gær þegar þingmenn úr velflestum flokkum, nema Samfylkingunni reyndar sem er öll á einu máli í þessu máli, hafa lýst yfir svipuðum áhyggjum og við framsóknarmenn höfum talað fyrir á undangengnum dögum. Mér finnst því að í þessari umræðu sé Framsóknarflokkurinn síður en svo búinn að mála sig út í horn. Flokksmenn, þingmenn og aðrir hafa lagt á sig gríðarlega vinnu við að kafa ofan í þessa samninga, einstök ákvæði þessara samninga, og við höfum rekist á margt sem því miður enn orkar tvímælis. Þess vegna er nauðsynlegt að hv. fjárlaganefnd komi saman á milli 2. og 3. umr. og fari gaumgæfilega yfir þetta mál þannig að engin „ef“ standi út af borðinu þegar við göngum til atkvæða um þetta mál.

Ég tek undir með hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins, að að sjálfsögðu þurfum við að fá einhverja sérfræðinga í enskum lögum til að yfirfara hvort þeir fyrirvarar sem við ræðum um standist. Ég ber mikla virðingu fyrir íslenskum lögfræðingum og þeim sem þekkja vel til lagaumhverfis hér á landi en ég tel að það sé skylda okkar á vettvangi þingsins að fá sérfræðing í enskum lögum til að fara yfir það hvort þessi ákvæði standist eða þeir fyrirvarar sem við erum að setja. Við skulum bara vona að þeir fyrirvarar sem menn hafa verið að setja sér í þessu máli standist á endanum en ég verð samt að viðurkenna að mér finnst að flokkar á Alþingi eða þessi þverpólitíska sátt sem náðist innan fjárlaganefndar gangi einfaldlega ekki nógu langt að mínu mati. Hvaða sanngirni er í því að íslenska þjóðin eigi að greiða vexti vegna Icesave-samninganna frá og með síðustu áramótum þó að Alþingi Íslendinga sé ekki enn búið að samþykkja ríkisábyrgð á þá? Er það einhver sanngirni að íslenskir skattborgarar borgi 25 þús. milljónir í vexti vegna þess að samninganefnd Íslands samþykkti að við ættum að greiða vexti frá og með síðustu áramótum í þeim efnum? Hvernig var það gagnvart okkar eigum í Bretlandi á sama tíma? Hvað varð um eignir Landsbankans þegar sett voru hryðjuverkalög á okkur þar? Þær eignir báru enga vexti.

Komið hefur verið fram við okkur hvað þessi mál áhrærir af mikilli óbilgirni að mínu mati, af mikilli óbilgirni. Þegar við horfum til þess að menn kveinka sér verulega yfir því að þurfa að skera mikið niður í rekstri ríkissjóðs þá skuli menn á vettvangi Alþingis, þingmenn, ekki vera einhuga um að við eigum að setja fyrirvara þess efnis, að við neitum að greiða vexti vegna Icesave-skuldbindinganna frá og með síðustu áramótum. 25 þúsund milljónir, ég held að ég hafi sagt það tíu sinnum hér og ég þreytist ekkert á að segja það, það má reka Landspítala – háskólasjúkrahús í 9–10 mánuði fyrir þessa upphæð (Gripið fram í.) og munar um minna og finnst mér — hv. þm. Vigdís Hauksdóttir kallar fram í og talar um samgöngubætur en ég held að á þessum síðustu og verstu tímum sé það fyrst og fremst skylda okkar að standa vörð um grunnþjónustuna vegna þess að íslenskt samfélag er sokkið í mikið skuldafen.

Við spurðum hæstv. fjármálaráðherra og forustumenn ríkisstjórnarinnar margítrekað m.a. út í skuldir sveitarfélaganna, þegar menn velta fyrir sér skuldaþoli landsins, hvort menn hefðu svo mikið sem litið til skulda sveitarfélaganna í landinu sem eru skuldir almennings. Ég beindi fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra þess efnis hver staða sveitarfélaganna væri. Í svari hans kom fram að skuldir sveitarfélaganna hafi stóraukist í kjölfar efnahagshrunsins og námu um síðustu áramót 445 milljörðum kr., um síðustu áramót. Gera má ráð fyrir því, í ljósi þess að fjárhagsáætlanir sveitarfélaga voru mjög bjartsýnar, að skuldirnar séu komnar vel yfir 500 milljarða kr. í dag. Þetta eru skuldir íslensks almennings og við þurfum að hafa þetta heildarsamhengi fyrir framan okkur en því var svo sannarlega ekki til að dreifa í þessu máli þegar samninganefndin skrifaði undir Icesave-samningana án þess að hafa einu sinni gert greiðsluáætlun um það hvort íslenskt samfélag gæti staðið undir öllum þeim skuldum. Það var alltaf talað um glæsilega niðurstöðu og íslenskt samfélag væri komið í skjól í sjö ár. Því fer fjarri. Að sjálfsögðu horfa erlend matsfyrirtæki á það hvað er yfir hausamótunum á okkur, hvaða skuldbindingar eru fram undan þannig að allt tal um eitthvert skjól í þeim efnum og lánshæfismat ætti eftir að stórbatna er í besta falli varasamt.

Ég vil að lokum lýsa yfir ánægju minni með það að málflutningur þeirra sem hafa andæft þessum samningum hástöfum skuli á endanum hafa ratað í það að nú er búið að dreifa breytingartillögum um þennan samning sem breyta honum í grundvallaratriðum að mínu viti og því ber að fagna. Ég tel að stjórnmálamenn úr öllum flokkum, að Indefence-hópnum ógleymdum, og aðrir sérfræðingar í íslensku samfélagi hafi lagt á sig mikla vinnu á undangengnum vikum við að reyna að bæta þann handónýta samning sem við fengum í hendurnar þrátt fyrir að ýmsir stjórnarliðar hafi viljað verja hann út yfir gröf og dauða og það væri í rauninni ekkert annað hægt en samþykkja þetta að óbreyttu, sá málflutningur og þær ræður forustumanna ríkisstjórnarinnar standast ekki skoðun í dag, það er ljóst.

Ég vil að lokum þakka öllum þeim sem hafa í ræðu og riti lagt gríðarlega vinnu á sig við að takmarka þær framtíðarskuldbindingar sem íslensk þjóð þarf að undirgangast vegna þessara samninga og vonandi munum við breyta þessum samningum enn meira á milli 2. og 3. umr. og náttúrlega helst eins og við framsóknarmenn viljum að við göngum á ný til viðræðna og þá sem þjóð, sem ein heild.