137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:23]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Sínum augum lítur hver á silfrið. Það er trúlegt að einhver stjórnmálamaður hafi verið svo skyni skroppinn að hann reiknaði með því að það yrði vel til vinsælda fallið að bera ábyrgð á því að reyna að leiða þetta erfiða mál til lykta. Ég held að hv. þingmaður ætti aðeins að endurskoða hug sinn og velta þessari kenningu sinni fyrir sér, að menn hafi ætlað að verða svo vinsælir og slá svo miklar pólitískar keilur á því (Gripið fram í.) að reyna að greiða úr þeim ofboðslegu ógöngum sem Ísland var komið í vegna þessa skelfilega máls. Mér finnst það satt best að segja merkilegt að menn skuli ræða þetta á öðrum nótum en þeim sem í mínum huga liggja ljóst fyrir, að vandamálið er vandamálið sjálft en ekki tilraunir til þess að leysa það. Það má að sjálfsögðu deila um hversu vel þar hafi tekist til og gagnrýna það sem menn telja gagnrýnisvert í þeim efnum, en að reyna að snúa hlutunum svoleiðis algerlega á haus að vandi okkar allur saman í sambandi við þetta Icesave-mál séu tilraunirnar til að leysa það en ekki vandamálið sjálft finnst mér ekki uppbyggilegur málflutningur. Ég svara að sjálfsögðu fyrir gagnrýni á það hvernig með þetta mál hefur verið farið ef menn telja niðurstöðurnar og lausnirnar ekki nógu góðar. Kannski var aldrei von til þess að neitt annað kæmi á borð Alþingis í framhaldi af samningaviðræðum en erfið niðurstaða því að það er ekki hægt að koma heim með lítinn og sætan samning þegar verið er að reyna að leysa stórt og vont mál. (Gripið fram í.) En það er hægt að reyna að gera það besta í þessum efnum og það tel ég að allir hafi gert og þar á meðal, og ekki síst, þingið nú í sumar. Ég hef hrósað mönnum fyrir það mikla og góða starf en það á ekki að þýða að menn þurfi að reyna að gera einhverja aðra að sökudólgum í þessu máli en þá sem eru það raunverulega. Það eru þeir sem bjuggu þetta vandamál til sem bera ábyrgð á því hvernig það gat orðið til og að það skyldi verða til og að það skyldi fara eins og það fór. Þar varð vandamálið til. Og það er við það að sakast en ekki tilraunir til að leysa úr því.