138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:30]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef íslenska ríkisstjórnin hefði komið þeim skilaboðum til umheimsins að við Íslendingar værum tilbúnir að fallast á greiðslu á Icesave-skuldbindingunni ef það væri skýr þjóðréttarleg skuldbinding okkar, held ég að við værum ekkert að ræða um trúverðugleika okkar vegna þess að það er trúverðug leið sem við getum varið gagnvart hverjum sem er. Ég held hins vegar að ef umheimurinn áttaði sig á því sem Bretar og Hollendingar eru að gera okkur — setja okkur afarkosti — og því sem er að gerast hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sé trúverðugleiki þeirra í uppnámi.

Það sem þarf að gera varðandi gjaldeyrisvarasjóðinn, stöðu krónunnar og það sem þyrfti að koma í staðinn fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, ef lánin þaðan stæðu okkur ekki til boða, er þetta: Við þurfum að breyta kröfunum á íslensku krónuna, því sem oft hefur verið kallað jöklabréf, þ.e. innstæður hér, í langtímaskuldabréf á íslenska ríkið. Þá léttum við þessum mikla þrýstingi af krónunni. Þetta er ein leiðin.

Einnig hefur verið talað um gjaldeyrisuppboðsleiðina. Fyrir ári síðan stakk Seðlabankinn upp á leiðum sem voru ekki farnar og það leiddi til þess að við lentum í haftaumhverfi sem hefur bara versnað. Þegar við höfum losnað við þrýstinginn af innstæðunum á íslensku krónuna opnast okkur nýjar leiðir.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan, að menn munu á endanum bara spyrja: Hvað framleiðir þessi þjóð? Á hún eitthvert erindi við umheiminn? Hafa erlendir fjárfestar áhuga á að koma til landsins? Eyðir þjóðin um efni fram? Skuldar hún meira en hún ræður við? Þetta eru spurningarnar. Það verður ekki spurt fyrst: Borgaði hún Icesave-reikninginn? Ef svarið við því verður já án þess að dómsniðurstaða hafi legið (Forseti hringir.) fyrir held ég að trúverðugleiki okkar sé endanlega í algjöru uppnámi.