138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:35]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Frú forseti. Það þarf að halda því til haga að þegar málefni þessara peningamarkaðssjóða voru gerð upp voru þeir sjálfstæð fyrirtæki, að vísu á forræði ríkisins en með sjálfstæða stjórn og forstjóra eða bankastjóra, þeir lutu ekki beinu boðvaldi framkvæmdarvaldsins. Ég tel tvímælalaust hið besta mál ef einhverjir kanna hvernig samskiptum framkvæmdarvaldsins, eða eftir atvikum löggjafarvaldsins, og þessara stjórna eða bankastjóra var háttað. Ef eitthvað var misgert þar á auðvitað að draga það fram í dagsljósið en ég hef ekkert í höndunum sem bendir til þess eða afsannar. Aðrir verða að kafa til botns í því enda er ekki hlutverk efnahags- og viðskiptaráðherra að vera hluti af dómsvaldinu eða rannsóknarvaldinu almennt talað.

Ég verð eiginlega að gefa sams konar svar við spurningum um hvort það komi til greina að fara í einhvers konar skaðabótamál, krefjast endurgreiðslu eða eitthvað slíkt. Auðvitað má skoða það ef í ljós kemur að óeðlilega var staðið að málum en þangað til — og ef — það verður leitt í ljós tel ég ekki ástæðu til að vera með neinar fyrirætlanir um slík málaferli.