138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:48]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var nokkuð kostulegt andsvar. Þingmaðurinn byrjaði á því að átelja þá sem tóku þátt í stjórnmálum áður fyrr að tala undir þessum lið þegar við erum að líta til baka yfir það ár sem er liðið. Ég hélt að þingmaðurinn fagnaði því að sem flestir tækju þátt í málefnalegri umræðu en hefur greinilega ekki lagt við hlustir er ég rakti ástæður hrunsins til nokkurra meginþátta. Annars vegar kerfislegra þátta sem hafa blasað við öllum í mörg ár, líka þeim sem hafa barist gegn því að leiðréttur yrði sá hlutfallsvandi sem hér hefur verið í mörg ár á milli bankakerfis, viðskiptalífs og gjaldmiðils og fara í stellingar þjóðrembunnar og hrópa á þá sem lýsa vandanum fyrir að tala niður krónuna. Það er gamalkunnur söngur frá andstæðingum þeirra sem vildu breyta þessu grundvallaratriði í fyrirkomulagi peningamála og hagstjórnar.

Hvað varðar spurningu þingmannsins um peningamarkaðssjóðina og spurningu hennar til hæstv. viðskiptaráðherra áðan þá var engin stjórnvaldsákvörðun af framkvæmdarvaldinu tekin um það hvernig uppgjöri sjóðanna væri háttað. Það var ákveðið að beina því til bankanna að slíta sjóðunum og gera þá upp með einhverjum samræmdum hætti. Þeir fengu mat, eins og kom fram eins og kom fram í Morgunblaðinu á laugardaginn, óháðra matsfyrirtækja sem mátu bréfin a.m.k. einu sinni ef ekki tvisvar. Ef það kemur fram eftir á að matið hafi verið of hátt þá er það allt annað mál en ekki var tekin pólitísk ákvörðun um upplausnarvirði sjóðanna. Því fór svo víðs fjarri þannig að þingmaðurinn verður að beina annað spurningum um það hvernig félögin mátu sjóðina á sínum tíma.

(Forseti (SF): Forseti vill biðja hv. þingmenn sem nú hafa talað í andsvörum að gæta þess að nota orðið háttvirtur í ávörpum á viðeigandi stað í ræðum sínum.)