138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:31]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum skýrslu um efnahagshrun og endurreisn. Það er eins og þessir blessaðir stjórnarflokkar og hæstv. forsætisráðherra hafi alveg gleymt að það átti að ræða um endurreisn og hvaða leiðir á að bjóða þjóðinni út úr þeim ógöngum sem við erum í. Hún upplýsti í ræðu sinni áðan að ástandið væri orðið alvarlegt og það væri tímabært að kveðja ár hrunsins. Þetta eru álíka ummæli og hæstv. félagsmálaráðherra í gær þegar hann talaði um að ár væri liðið frá hruninu og nú væri tímabært að fara að gera eitthvað í málunum.

Þessi ríkisstjórn er föst í fortíðinni og hæstv. forsætisráðherra er upptekin af því að hún hafi verið sú sem varaði við. Er hún að reyna að breiða yfir aðgerðaleysi og getuleysi eigin ríkisstjórnar? Helst hljómar þetta þannig. Í stefnuræðu hennar, sem og í ræðu hennar í dag, vantar alla framtíðarsýn. Ummælin um framtíðina eru frasakennd og algerlega innihaldslaus. Þau gefa ekki bjartar vonir fyrir þessa þjóð, fyrir atvinnulíf og heimilin í landinu, virðulegi forseti.

Við skulum taka dæmi úr ræðu hæstv. forsætisráðherra. Hún sagði: Við erum að bjarga því sem bjargað verður, koma Íslandi út úr kreppunni í anda norræns velferðarsamfélags. Þetta eru frasar sem eru búnir að heyrast í ansi langan tíma. Hún heldur síðan áfram:

„Allt í kringum okkur eru jákvæð teikn úr atvinnulífinu, menningu, félagsstarfi og stjórnsýslu sem ættu að örva okkur og hvetja. Jákvæð teikn um samtakamátt, samheldni, áræðni og dugnað sem áður en langt um líður munu skila okkur breyttu og betra samfélagi.“

Hvar í veröldinni er hæstv. forsætisráðherra stödd, virðulegi forseti? Er þetta sýnin í samfélagi okkar í dag? Að allt í kringum okkur séu jákvæð teikn úr atvinnulífi, menningu og félagsstarfi? Síðan klykkir hún út með að við verðum að horfa til framtíðar, Ísland sé land tækifæranna og það sé okkar að vinna úr þeim tækifærum. Vissulega er það okkar að vinna úr þeim tækifærum sem fyrir okkur liggja en það er ekki eins og þessi ríkisstjórn reyni að skapa grundvöll fyrir atvinnulífið til að móta tækifæri, vinna úr þeim og byggja upp öflugt atvinnulíf. Nei, þvert á móti. Það er verið að setja grundvallaratvinnugreinar landsins í algert uppnám. Sjávarútvegur er í algerri óvissu með skelfilegum afleiðingum um allt land vegna þeirrar ófæru fyrningarleiðar sem boðuð er. Stopp og samdráttur er nú í öllum þjónustufyrirtækjum fyrir sjávarútveg, menn fara ekki á sjó vegna þess að óvissan er svo mikil að þeir vita ekki hvenær þeir geta fengið viðbótarafla.

Í vetur liggur fyrir að verstöðvar munu loka. Ekki mun duga fyrir smábátana að róa á sjó því þeir hafa ekki aflaheimildir. Iðnaður er byggður á orkunýtingu. Þar er settur stóll fyrir þá framtíðarsýn sem hefur verið sköpuð og settar eru upp þær hindranir sem mögulegar eru. Orkuskattarnir eru síðasta skrefið sem þessi hæstv. ríkisstjórn sýnir okkur í þeim efnum. Þessi ríkisstjórn vinnur skemmdarverk í íslensku samfélagi í hverri viku. Það eru jákvæð teikn fyrir atvinnulífið eða hitt þó heldur. Hverjum ætti að detta í hug að líta hingað til atvinnuuppbyggingar við þessar aðstæður? Hvaða erlenda fyrirtæki mun horfa til þessa bananalýðveldis sem er verið að skapa fyrir atvinnulífið?

Forustumenn ríkisstjórnarinnar eru fólk í fjötrum fortíðar og fjötrarnir blinda þeim sýn á framtíðina. Þeir hafa enga framtíðarsýn og eru allt of uppteknir við að gera upp fortíðina. Það er sjálfsagt að gera upp fortíðina, virðulegi forseti. Það þarf að gera hana upp og við sjálfstæðismenn munum ekki skorast undan ábyrgð okkar á að hafa viljað gera einhverja hluti öðruvísi en raun bar vitni en við viljum horfa til framtíðar. Við viljum skapa hér samfélag sem getur unnið sig út úr þeim vandræðum sem við erum komin í. Lausnirnar sem áttu að liggja í áhafnarútskiptingu í Seðlabankanum og aðildarumsókn að Evrópusambandinu hafa látið standa á sér. Lausnarorðið í öllu — ef þið lesið stefnuskrá Samfylkingarinnar frá því fyrir kosningar má sjá að það eina sem komst að var að senda bréf um aðildarumsókn til Evrópusambandsins og hvað það hefði átt að gera fyrir okkur í vaxtamálum og atvinnumálum og allar lánalínurnar sem áttu að opnast. Það væri áhugavert fyrir fréttamenn að rifja upp allan þann loforðaflaum sem kom þá úr þeim geira.

Síðan klykkir hæstv. forsætisráðherra út með því að segja að mesta áskorun ríkisstjórnarinnar sé að koma í veg fyrir atvinnuleysi. Það er eins og verið sé að vinna í því eða hitt þó heldur. Að stöðugleikasáttmálinn sé einn besti þátturinn í þeim efnum. Hvað er að gerast með stöðugleikasáttmálann? Hann er í algeru uppnámi. Aðilar atvinnulífsins eru farnir að ókyrrast mjög vegna vanefnda ríkisstjórnarinnar á ákvæðum stöðugleikasáttmálans og það er vegna getuleysis og óeiningar ríkisstjórnarflokkanna þegar kemur að atvinnumálum. Ákvæðið um framkvæmd til að stuðla að aukinni atvinnu og fyrirvari Samtaka atvinnulífsins vegna sjávarútvegsmála er í algeru uppnámi. Þetta eru stóru þættirnir í stöðugleikasáttmálanum.

Viðspyrna okkar, virðulegi forseti, liggur í eflingu atvinnuveganna og hvergi annars staðar. Það er alveg sama hverjir hafa fjallað um málefni Íslands á undanförnum missirum, hvort sem er innan lands eða erlendir sérfræðingar, allir komast að sömu niðurstöðu: Að Ísland eigi mikil tækifæri og meiri tækifæri en margar aðrar þjóðir vegna þeirra náttúruauðlinda sem við búum að í þessu landi. Tækifærin nýtast þó náttúrlega ekki nema skapað sé umhverfi til að nýta þau og óhikað sé farið í að greiða leið þeirra sem vilja nýta náttúruauðlindir okkar til atvinnu- og verðmætasköpunar. Í þessu liggur þetta.

Hæstv. forsætisráðherra sagði í ræðu sinni áðan: Miklu veldur sá er upphafinu veldur. Ég vil færa það upp á hennar eigin ríkisstjórn, vegna þess að miklu veldur þessi ríkisstjórn þegar hún tekur þær ákvarðanir sem hún hefur tekið þegar kemur að atvinnumálum. Hún er nefnilega búin að bíta höfuðið af skömminni með því að kippa fótunum undan atvinnulífinu og setja það í uppnám. Hún er upphafið að því hruni sem er að verða í atvinnulífinu. Það er mögnuð frammistaða þegar lausnirnar liggja svo augljósar fyrir sem þær gera. Lausnirnar eru í samfélaginu allt í kringum okkur, í fólkinu, náttúruauðlindunum og í þeim tækifærum sem þetta land býr að.

Við sjálfstæðismenn erum búnir að leggja fram tillögur um þetta. Það er magnað hversu holdsveik við erum gagnvart þessum ríkisstjórnarflokkum. Það er ekki einu sinni hægt að hlusta á skynsamlegar tillögur og boð um náið samstarf til að vinna okkur út úr þessum erfiðu aðstæðum. Við höfum vissulega lagt það á borðið af fullum heilindum en það hefur ekki verið þegið. Við höfum lagt fram efnahagstillögur okkar og lausnirnar liggja í þeim. Við munum í þessari viku kynna efnahagspakka Sjálfstæðisflokksins, þær tillögur sem munu skapa tugmilljarða verðmæti í þessu samfélagi strax á næsta ári. Það er leiðin til að koma okkur á lappirnar. Þessi ríkisstjórn getur sennilega ekki átt við þá leið. Hún er ófær, föst í fjötrum fortíðar.

Það sem þarf að gera er að lækka vexti og lækka þá handvirkt ef ekki gengur að gera það öðruvísi. Þá skapast grunnur til að semja við jökla- og krónubréfaeigendur og það gefur von fyrir atvinnulífið og heimilin í landinu. Þar með getum við bundið það fjármagn sem ógnar mest gjaldmiðlinum um þessar mundir í lengri tíma fjárfestingum. Við verðum að blása til sóknar í virkjana- og verktakaframkvæmdum. Þar er hægt að benda á virkjanir eins og Búðarháls og Hverahlíð sem eru tilbúnar til að fara í framkvæmdir. Við þurfum einnig að fá ákvörðun um virkjanir í neðri hluta Þjórsár, einhvern hagkvæmasta virkjunarkost í landinu. Þegar hæstv. ríkisstjórn segir að ekki sé hægt að fara í þessar framkvæmdir vegna þess að fjármagn skorti og við höfum ekki lánsfé þá blæs ég á það. Þjóð sem á 1.800 milljarða í fjárfestingarsjóðum, 1.800 milljarða í lífeyrissjóðakerfinu, er ekki í fjárhagsvandræðum. Það þarf bara að eiga sér stað áherslubreyting til að ráðstafa því fé í þágu þjóðarinnar. Það þarf að greiða leið Helguvíkur og umhverfisráðherra verður tafarlaust að draga til baka ákvörðun sína um heildstætt mat vegna suðvesturlínu. Það er einhver sú mesta óskammfeilni sem hefur sést hjá þessari ríkisstjórn. Það þarf að undirrita samning og semja við Alcoa um að hraða framkvæmdum á Bakka sem mögulegt er. Síðan þurfum við að færa kvótann í ákveðnum fisktegundum upp í þolmörk sem seinkar eitthvað bata þeirra en mun gerbreyta öllu í íslensku efnahagslífi. Ef við förum þessa leið, virðulegi forseti, sem við getum gert strax í þessari viku, blæs mikill byr í seglin í þessu samfélagi. (Forseti hringir.) Ég held að tími sé kominn til þess og þessi ríkisstjórn sé búin að sýna að hún er ekki fær um (Forseti hringir.) að sjá þessar leiðir. Hún er ekki fær um að sjá ljósið í myrkrinu og hún verður að fara frá, virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Hér verða aðrir aðilar að koma að stjórnarborðinu.