138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:17]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það er ljóst að við Íslendingar munum um langa tíð velta því fyrir okkur hvað olli því að íslensku bankarnir hrundu og íslenska hagkerfið fór allt á hliðina. Mín skoðun er að hægt sé að greina ákveðna meginþætti, helstu útlínur sem skipta hvað mestu máli þegar horft er á þetta. Jafnhliða eru þó mörg minni mál sem saman tekin hafa líka mikið að segja. Mér þykir þó, frú forseti, að menn horfi oft fram hjá hinu alþjóðlega samhengi þegar menn velta bankakreppunni fyrir sér. Þá á ég ekki við að við Íslendingar getum skotið okkur á bak við að þetta hafi allt verið öðrum að kenna, langt í frá. Þegar menn horfa til baka á þær bankakreppur sem orðið hafa í heiminum og reyna að læra af þeim og sjá hvað þar gerðist sjá menn þó um leið ákveðna hluti á Íslandi sem samsvara og eru sambærilegir við það sem átti sér stað annars staðar.

Bankakreppan í Bandaríkjunum árið 1907 er um margt mjög áhugaverð fyrir okkur Íslendinga vegna þess að þegar sú kreppa skall á bandarískt fjármálakerfi var enginn seðlabanki starfandi í Bandaríkjunum. Það má með rökum halda því fram að sama staða hafi verið hér á Íslandi vegna þess að bankakerfið hér var svo stórt, 10–12 sinnum stærra en íslenska þjóðarframleiðslan, og stærsti hluti þess kerfis var í annarri mynt en þeirri sem Seðlabanki Íslands gat gefið út. Það þýddi að þegar lausafjárkreppan skall á heiminum má jafnvel halda því fram að íslensku bankarnir hafi ekki haft neinn seðlabanka sér að baki, með öðrum orðum að staðan hafi ekki verið ósvipuð því sem var árið 1907 í Bandaríkjunum. Reyndar komust Bandaríkjamenn í gegnum þá kreppu og þann vanda með því að stóru bankarnir náðu að taka höndum saman og leysa þann vanda sem á þeim skall. Upp úr því komust menn að þeirri niðurstöðu þar í landi að nauðsynlegt væri að hafa seðlabanka sem gæti tekið á slíkum málum.

Það er líka lærdómsríkt fyrir okkur Íslendinga að skoða aðdraganda kreppunnar miklu í Bandaríkjunum, hvað gerðist í bandarísku efnahagslífi sem um margt er mjög líkt því sem gerðist hjá okkur. Gríðarleg eignabóla, gríðarleg spenna sem varð á hlutabréfum og síðan hagkerfinu öllu sem síðar sprakk í loft upp með miklu brauki og bramli. Hjá okkur var þetta sem sagt svona: Allt of stórt bankakerfi hafði vaxið og um leið má halda því fram að íslenska bankakerfið hafi verið gallað hvað varðaði að þegar einkavæðing bankanna átti sér stað var ekki nægilega tryggilega bundið um hnúta til að koma í veg fyrir að krosseignatengslin yrðu jafnmikil og mögnuð og raun bar vitni. Ég er þeirrar skoðunar að sennilega hefði verið affarasælast fyrir Ísland ef menn hefðu skoðað að þeir aðilar sem væru með ráðandi hlut í bönkunum, úr því að sú leið var farin — að takmarka mjög möguleika þeirra á að eiga önnur fyrirtæki sem skráð voru á hlutabréfamarkaði o.s.frv. Með öðrum orðum að takmarka um leið möguleika þeirra til að taka lán í bönkum. Ég held að það hefði verið skynsamlegt og það sé eitthvað sem við verðum að velta fyrir okkur hvað varðar framtíðarfyrirkomulag íslenskra bankamála.

Það var líka fleira sem var vandamál á Íslandi. Stórt vandamál í okkar hagkerfi var vöxtur ríkisútgjaldanna. Það er ótrúlegt þegar menn horfa til baka og sjá hversu gríðarlega ríkisútgjöldin uxu. Ef menn horfa á árabilið frá 1997 og fram til ársins 2007 held ég að ég fari rétt með að vöxturinn hafi verið 30% að raungildi, 30% sem er alveg gríðarlegur vöxtur og enn meiri ef menn horfa aðeins lengra aftur í tímann, til ársins 1995. Einmitt vegna þessa vaxtar var óbærileg pressa í hagkerfinu, pressa sem Seðlabankinn reyndi að spyrna á móti með vaxtahækkunum sem að mínu mati voru rangar vegna þess einfaldlega að vaxtastýritæki Seðlabankans dugði ekki við þessar aðstæður og gerðu því miður vandann enn verri, ýttu hagkerfinu út í erlenda myntstöðu og kölluðu yfir sig hinn svokallaða jöklabréfavanda þar sem erlendir fjárfestar nýttu sér þann mikla vaxtarmun sem var milli Íslands og umheimsins. Þetta eru helstu þættirnir.

Mér finnst undarlegt að heyra menn apa aftur og aftur hver upp eftir öðrum að einhvers konar frjálshyggja hafi valdið öllum þessum vanda á Íslandi. Það er hvergi frjálshyggja þegar 30% vöxtur er í ríkisútgjöldum. Ef hér hefðu verið bandóðir frjálshyggjumenn við völd hefðu ríkisútgjöldin sennilega dregist saman um 30% á tímabilinu en ekki vaxið um 30%. Þegar menn skoða hvaða vitleysu við erum lent í með Icesave-reikninginn — hvaða vitleysa er það nú aftur? Það er sú hugmynd að hið opinbera, ríkið, eigi að ábyrgjast innstæðurnar fyrir Breta og Hollendinga. Hvað er það? Það er óheilbrigt og óheppilegt samkrull hins opinbera og banka og ekkert annað. Það sem gerðist í Icesave-málinu var bara að banki fór á hausinn og það er hægt að deila mikið um hvort þar af leiðandi eigi íslenskir skattgreiðendur að bera ábyrgð á þessu. Ég held nefnilega að þegar menn skoða afstöðu og aðkomu stjórnmálaflokkanna að þessu máli öllu blasi við að mistökin voru að við leyfðum bankakerfinu að verða allt of stórt án þess að það hefði á bak við sig nægilegar tryggingar og nægilega öflugan seðlabanka. Það er mergur málsins. Við það bætist síðan að vegna krosseignatengsla og annars slíks voru bankarnir veikari fyrir vikið og áttu erfiðara með að bregðast við þegar lausafjárvandinn varð. Með öðrum orðum, bankamennirnir fóru glannalega. Það er staðreynd.

Núna stöndum við frammi fyrir því að þurfa að leysa þennan vanda. Það er sameiginlegt verkefni stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðu á þingi og undan því verkefni getur enginn skorast. Ég verð að segja eins og er að ég hef miklar áhyggjur af því hvernig ríkisstjórnin nálgast þetta verkefni og mínar áhyggjur mótast einkum af því að það er fyrirsjáanlegt — nú þegar hefur orðið gríðarlegur samdráttur í efnahagsstarfseminni og margt bendir til þess að hann haldi áfram.

Nauðsynlegt er að skera niður í ríkisútgjöldum, undan því verður ekki vikist. Niðurskurður á ríkisútgjöldunum mun þó hafa þau áhrif að enn meira dregur saman í hagkerfinu og þess vegna er gríðarlega mikilvægt að ríkisvaldið grípi til allra mögulegra aðgerða til að örva hagkerfið á móti. Hvaða aðgerðir væru það? Það væru t.d. þær aðgerðir að flýta fyrir og auðvelda allar fjárfestingar, bæði innlendar og erlendar, enda var um það samið á milli ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins í svokölluðu stöðugleikasamkomulagi. Þess vegna er óskaplega sorglegt og hörmulegt hvernig ríkisstjórnin hefur nú á síðustu vikum aftur og aftur lagt stein í götu slíkra framkvæmda, framkvæmda sem mundu hjálpa okkur út úr þeim vanda sem við erum í núna vegna þess að við þurfum einmitt að skera niður í ríkisútgjöldum. Þess vegna verðum við að örva hagkerfið hinum megin frá. Þær hugmyndir sem fram hafa komið um skattlagningu á orkufyrirtækin með þeim hætti sem lagt hefur verið upp með — þeim hætti sem hæstv. iðnaðarráðherra lét koma sér svo óskaplega mikið á óvart — eru aðför að möguleikum okkar Íslendinga til að byggja upp og koma okkur út úr þessari kreppu.

Að lokum, frú forseti, vil ég nefna sjávarútveginn. Ég tek undir með hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni sem nefndi í ræðu sinni þá furðulegu tilhögun sem liggur fyrir í sáttmála ríkisstjórnarinnar um að ráðast í afskriftir á aflaheimildum. Þetta fyrirkomulag hefur gert það að verkum að mjög víða í sjávarútveginum, sem er okkar stærsta von og aflvél íslensks hagkerfis, halda menn að sér höndum af því að þeir vita ekki hver framtíðin verður. Þeir vita ekki hverju þeir eiga von á frá ríkisstjórninni. Þetta hangir yfir allri greininni og dregur úr atvinnu. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þá undarlegu hugmynd hæstv. sjávarútvegsráðherra að ráðast í strandveiðar. Reynslan sýnir auðvitað hver niðurstaðan verður í því en mér skilst að á þessu sumri hafi verið bætt við í flotann til að veiða þessi tonn sem ráðherrann lagði til. Þar er bætt við einum 500 bátum og hver sem er getur reiknað út þann aukna sóknarkostnað sem varð af þessari vitleysu og hversu miklu þjóðarbúið tapaði á þessari einu aðgerð. Mér skilst, frú forseti, að það eigi að halda þessu áfram á næsta ári.

Við sjálfstæðismenn munum leggja fram, og höfum kynnt að hluta til í ræðu formanns okkar bæði í dag og í gær, þær efnahagsáherslur sem við höfum og munum gera (Forseti hringir.) í þinginu á næstunni. Það er okkar ábyrgð að styðja við ríkisstjórnina í góðum málum og veita henni aðhald þar sem hún hefur farið út af sporinu.