138. löggjafarþing — 4. fundur,  7. okt. 2009.

greiðslujöfnunarvísitala.

[14:07]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og ég rakti áðan og náði ekki að ljúka í fyrra svari mínu taka lánveitendur á sig umtalsverða áhættu af afskriftaþörf vegna þessara aðgerða og efnahagsþróunin ræður miklu um hversu mikil þessi áhætta er. Kosturinn við þessa leið er sá að með henni er tryggt að hagsmunir allra falli í sömu átt. Þessi breyting veldur því að bankar hafa ekki hag af því að taka stöðu gegn hagsmunum viðskiptavina sinna, eins og þeir höfðu fyrir hrun, heldur eiga allir sameiginlega hagsmuni af því að róa í eina átt. Við högnumst öll á sömu forsendum, á jákvæðri efnahagsþróun, og miklu máli skiptir að binda þannig hagsmuni okkar saman.

Áhættan er umtalsverð og bankarnir beita því rými sem þeir hafa í bókum sínum til þess að bera þessa áhættu. Þeir axla umtalsverða áhættu en telja sig (Forseti hringir.) hafa viðskiptalega hagsmuni af því að gera þetta engu að síður.