138. löggjafarþing — 4. fundur,  7. okt. 2009.

nýting orkulinda til orkufreks iðnaðar og stöðugleikasáttmálinn.

[14:19]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Þetta var um margt athyglisverð ræða hjá hæstv. iðnaðarráðherra. Það er unnið hörðum höndum, verið er að skrifa skýrslur og búa til stefnur en síðan er verið að koma með tilkynningar um skattheimtu á móti sem slekkur á flestu því sem hæstv. ráðherra talar um. Það er nefnilega mjög ótrúlegt að hlusta á þessar ræður sem haldnar eru af stjórnarliðunum um að vandamálið felist í fjármögnun framkvæmda í orkugeiranum, og svo á einni nóttu kemur ríkisstjórnin fram með stórauknar skattálögur, hún boðar skattálögur á þessi fyrirtæki. Hvers vegna í ósköpunum ættu þau að sýna ríkisstjórninni og orðum hennar mikið traust?

Ég ætla nú að vera jákvæður hér á endanum. Mér þykir leitt að ráðherra skyldi ekki hafa verið á morgunfundi Samorku í morgun þar sem kynnt var skýrsla sem Jóhannes G. Sigurgeirsson vann. Hún hefur verið yfirfarin af sérfræðingum hjá rannsóknardeild Háskólans á Akureyri og í niðurstöðum kemur m.a. fram að stærra raforkukerfi með meiri sölu til orkufreks iðnaðar hefur leitt til lækkunar á raforku á almenna innlenda markaðnum. Þarna kemur fram að fyrir meðalfjölskyldu, sem er tekin hér til viðmiðunar, hefur kostnaðurinn frá 1997 til 2008 farið úr 74.500 kr. niður í 52.400 kr.

Með þessari skýrslu tel ég að verið sé að sýna fram á kosti þess að vera með stórt og öflugt raforkukerfi, verið sé að sýna fram á að hagkvæmnin felist í því að nýta betur það kerfi sem við erum með og þeim virkjunum fjölgar í raun. Og þetta sýnir okkur líka að orkufrekur iðnaður er til hagsbóta fyrir okkur á margan annan hátt en við höfum séð hingað til. (Forseti hringir.) Ég hvet þingmenn til þess að kynna sér þessa skýrslu og ég mun óska eftir því að hún verði kynnt í iðnaðarnefnd.