138. löggjafarþing — 4. fundur,  7. okt. 2009.

staða heimilanna.

[14:50]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga umræðuefni hér í dag.

Við sem hér höfum talað í dag erum öll sammála um að skuldastaða heimilanna er alvarlegt viðfangsefni sem þarf að bregðast tafarlaust við. Við sjálfstæðismenn lögðum fram viðamiklar efnahagstillögur hér á þingi í júní. Þar á meðal vorum við með tillögur varðandi skuldastöðu heimilanna. Þær gengu í stórum dráttum út á að leitað yrði leiða til þess að lækka greiðslubyrði húsnæðislána um allt að 50% og í annan stað að haft yrði þverpólitískt samráð um að skoða þær leiðir sem í boði eru til að fella niður og hvort fara þurfi í afskriftir á húsnæðislánum.

Það var ekki farið í þennan farveg með málið í sumar, því miður. Það hefði betur verið gert vegna þess að þær aðgerðir sem ráðherrann hefur boðað nú falla að mörgu leyti að þeim tillögum sem við sjálfstæðismenn lögðum fram í sumar en koma hins vegar talsvert seint. Það hefði verið mun betra, frú forseti, ef þverpólitískur hópur hefði starfað í sumar að því að skoða þessi viðfangsefni og hægt hefði verið að leggja fram sameiginlegar tillögur að lausn nú í haust. Við sem hér sitjum á Alþingi getum ekki boðið þjóðinni upp á það að standa hér í margar vikur núna á haustþingi og rífast um hvernig og hvort taka eigi á þessu stóra verkefni. Það er einfaldlega ekki í boði að mínu mati.

Þess vegna berum við mikla ábyrgð. Ábyrgðin felst í því að við skoðum þetta saman. Við sjálfstæðismenn teljum mikilvægt að við þá vinnu verði nokkur leiðarljós höfð til viðmiðunar: Að við viðhöldum þeirri ríku hefð að Íslendingar búi í eigin húsnæði, að við tryggjum að fólk geti greitt skuldir sínar þannig að greiðsluviljinn sé tryggður, að aðgerðir séu ekki vinnuletjandi, að þær hvetji fólk ekki til þess að flýja land, að þær leiði ekki til stórfelldra skattahækkana og í síðasta lagi að (Forseti hringir.) aðgerðirnar séu almennar og að jafnræðis verði gætt. Það er ekki of seint, frú forseti, að ráðast í þessa sameiginlegu vinnu og hvet ég ráðherrann til að gera það.