138. löggjafarþing — 4. fundur,  7. okt. 2009.

staða heimilanna.

[14:57]
Horfa

Anna Pála Sverrisdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuna og samstöðuna því að einmitt núna skiptir mestu máli að þyrla ekki upp pólitísku moldviðri í kringum fólk í vanda. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Alþingi hafa þegar gripið til fjölda aðgerða til að taka á skuldavandanum.

Í byrjun var gripið til ráðrúmsaðgerða, nú þarf að klára að leiðrétta kerfið sem hyglir lánveitendum og heldur lántökum niðri. Sjálf hef ég haft miklar áhyggjur af því unga fólki sem fjárfesti í sinni fyrstu íbúð á árunum í aðdraganda hrunsins. Aðstæður þess fólks urðu afar ósanngjarnar og byrðar af hruninu þyngri en fyrir aðra. Með aðgerðum ríkisstjórnarinnar nú er enn frekar komið til móts við þetta fólk en þegar hefur verið gert.

Við skulum taka dæmi af láni sem tekið er 1. janúar 2007. Kaupverð íbúðar eru 20 millj. kr., lán er tekið upp á 18 millj. kr., 90%, verðtryggt með 4,15% vöxtum. Samkvæmt upphaflegu greiðslumati hefði mánaðarleg greiðsla verið tæpar 77 þús. kr., greiðsla í október 2009 án aðgerða hefði verið 100.235 kr. Greiðsla í október 2009 með greiðslujöfnun verður 83.263 kr. Munurinn þarna er um 17 þús. kr. á mánuði eða 200 þús. kr. á ári.

Það sem mestu munar, hæstv. forseti, fyrir utan lækkun á hverri greiðslu fyrir þetta unga fólk sem fjárfesti í sinni fyrstu íbúð, er að lenging lána út í hið óendanlega er ekki lengur möguleg. Skuldaklafinn verður með öðrum orðum ekki hengdur um hálsinn á minni kynslóð út í hið óendanlega af því að þak verður sett á lánstímann og hann getur að hámarki lengst um þrjú ár. Þetta skiptir gríðarlegu máli, frú forseti, fyrir þá kynslóð sem mikilvægast er að verði með í að endurreisa Ísland.