138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[12:55]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir athyglisverða ræðu. Nokkuð kvað nú við annan tón, má segja, í máli þingmannsins en enn hefur heyrst frá öðrum þingmönnum stjórnarandstöðu. Hv. þingmaður tók jákvætt í ýmsar hugmyndir til tekjuöflunar og varpaði jafnvel fram nýjum til viðbótar, gagnrýndi annað en hafði áhyggjur af því að fullgeyst væri farið í aðlögun ríkisfjármálanna að breyttum aðstæðum. Það má að sjálfsögðu ræða, það er fullgilt efnahagslegt, hagstjórnarlegt og pólitískt viðfangsefni hversu langt á að ganga í þeim efnum í upphafsskrefinu eða almennt.

Ég held að það sé engin deila um að ef við hefðum aðstöðu til að beita ríkissjóði betur til sveiflujöfnunar og að mýkja áhrif hagsveiflunnar mundum við gera það, það væri hið æskilega. En því miður er staðan þannig að Ísland er nánast í einu vetfangi komið í hóp þeirra ríkja þar sem skuldastaðan leyfir ekki að gera það sem æskilegast hefði verið í hagstjórnarlegu tilliti. Ísland er tekið sem dæmi, t.d. í skýrslum OECD, hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og fleiri aðilum, um eitt nokkurra velmegunarríkja sem því miður býr allt í einu við þannig skuldastöðu að geta ríkisins til hvetjandi aðgerða er afar takmörkuð og nánast ekki fyrir hendi. Það gerir okkar vanda meiri og erfiðari en annarra.

Ég vil taka undir það sem hv. þingmaður sagði um að taka þurfi framlög til stjórnmálaflokka til endurskoðunar. Ég var þeirrar skoðunar á sínum tíma að það ættu að vera grunnframlög til framboða í alþingiskosningum (Forseti hringir.) og síðan eftir atvikum óháð framlög til starfandi stjórnmálaflokka á kjörtímabili. Að sjálfsögðu er eðlilegt að þessir aðilar taki á sig lækkun eins og aðrir.